Flokksvillingar og flokkaflakkarar

Við búum við svokallað fulltrúalýðræði. Stjórnmálaflokkar stilla upp listum með frambjóðendum og síðan greiðum við einum lista atkvæði okkar. Þetta heitir fulltrúalýðræði. Í reynd erum við ekki að kjósa einstaklinga heldur þá stefnu sem viðkomandi flokkur talar fyrir í kosningabaráttu eða í stefnuskrá eða í stjórnmálaályktunum. Síðan þegar kosningum er lokið og talning hefur farið fram þá fyrst kemur í ljós hverjir náðu kjöri. Hér lýkur hinsvegar skyldum frambjóðandans við kjósendur sína. Því í stjórnarskránni er af einhverjum ástæðum tekið fram að kjörinn Alþingismaður sé aðeins bundinn sinni persónulegu sannfæringu þegar greidd eru atkvæði á þingi.
Hvernig í andskotanum datt mönnum í hug að setja svona ákvæði í stjórnarskrá
Ef hér væri persónukjör þá væri þetta gott og gilt, en undir núverandi kosningakerfi hefur þetta ákvæði verið óskiljanlegt. Menn hafa svikið sína kjósendur og sagt skilið við þá flokka sem þeir voru í framboði fyrir en menn hafa aldrei sagt af sér og vikið sæti fyrir sínum varamanni. Nei, aldrei og þar krystallast ranglætið. Þingmenn hafa í gegnum söguna getað svikið sína samherja, selt sinn stuðning og þeir hafa haft sjálfdæmi um í hvaða flokki þeir hafi viljað starfa. Um þetta eru fjölmörg dæmi og öll jafn ógeðfelld. Og þingflokkarnir eru eins og hvítasunnusöfnuðir. Þeir gleðjast og fagna öllum sem afneita öðrum flokkum og koma til þeirra en á sama tíma bannfæra þeir eigin svikara. Minnisstæð eru orð sem Davíð Oddsson lét falla um frambjóðanda Frjálslynda Flokksins, Gunnar Örlygsson í kosningum 2003, þessi Gunnar hafði hlotið dóm fyrir umboðssvik að mig minnir og varð að fresta því að setjast á þing og það varð Davíð tilefni til að gera lítið úr Frjálslynda flokknum. Seinna á því sama kjörtímabili yfirgefur Gunnar síðan sinn þingflokk og gengur til liðs við þingflokk Sjálfstæðismann, þá er viðmót Davíðs breytt og hann býður flokkaflakkarann og fyrrverandi tugthúsliminn velkominn. Þá var gott að hafa sakamanninn í liði fyrst það var eigið lið. þannig hafa stjórnmálamenn alltaf hagað sér. Aldrei spurt að drengskap eða góðum siðum. Ég hef aldrei sætt mig við þetta flokkaflakk á þingi og fundist það svik við kjósendur. Og það að beinlínis skuli vera heimild fyrir þessu siðleysi í stjórnarskrá gerir það brýnt að kippa þessu ákvæði út við næstu endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ef það misferst þá geri ég þá sjálfsögðu kröfu að nú strax semji Alþingi siðareglur sem banni flokkaflakk og skyldi þá sem ekki vilja styðja þá flokka sem þeir voru kosnir fyrir til að víkja fyrir varamönnum.

Og ef einhver ærleg taug væri í Þráni Bertelssyni þá myndi hann strax á morgun rita þingforseta afsagnarbréf og fara þess á leit að varamaður sinn tæki sæti á þingi fyrir Hreyfinguna.

Lilja Mósesdóttir og Ásmundur Einar eru á mörkunum í sinni andstöðu. Og ég veit að Lilja hlýtur oft að hafa íhugað úrsögn úr VG og að ganga til liðs við Hreyfinguna.  En það væri móralskt rangt og það er það sem stoppar hana. Hvort hún segir af sér þingmennsku kemur í ljós en það kæmi mér ekki á óvart. Margir félagsmenn hafa sagt skilið við þennan auma flokk síðustu 2 ár. Og því þá ekki þingmenn sem eru í grundvallaratriðum á móti félögum sínum sem svikið hafa flestar hugsjónir flokksins fyrir völd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta er nokkuð góð grein hjá þér Jóhannes. Þó verð ég að benda á eina mótsögn hjá þér. Þú bendir réttilega á að í raun séu kjósendur að kjósa þá stefnu sem flokkar segjast standa fyrir. Síðan í lok greinarinnar segir þú að Lilja og félagar hafi hugsað sér að segja sig úr VG. Það eru ekki þau sem hafa yfirgefið stefnu VG. heldur forusta flokksins og þeir þingmenn sem henni fylgja. Það eru þau sem hafa svikið kjósendur VG, ekki Lilja og félagar. Reyndar er erfitt að setja Ögmund í ákveðinn hóp. Hann vill fylgja Lilju og standa vörð um stefnu flokksins, en þó lætur hann blekkjast af stólagræðginni og vinnur með þeim hluta sem svíkur stefnu VG.

En aftur að flokkaflakkinu. Það er aldeilis ófært að þetta fyrirkomulag skuli enn vera við líði. Sennilega er þetta arfleifð þess er einmenningskjördæmin voru, en það er engin afsökun.

Þekkt eru dæmi þess í sveitastjórnum að einn fulltrúi hefur getað fellt meirihluta og stofnað nýjan með öðrum, með flokkaflakki einu saman. Jafnvel vegna persónulegra hagsmuna. Slíkt gengur auðvitað ekki. Það er einnig spurning hvort ákvæði stjórnarskrár nái yfir sveitastjórnir að þessu leiti.

Gunnar Heiðarsson, 30.1.2011 kl. 05:35

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Takk fyrir þetta Gunnar, hvað sem okkur kann að finnast um stefnubreytingu meirihluta VG og þeirra réttlætingu þá verðum við að halda okkur við lýðræðishefðir sem felast í meirihlutaræðinu. Lilja og félagar eiga annað hvort að segja af sér þingmennsku eða beygja sig undir meirihluta ræðið. Þannig virkar lýðræðið. Og þannig vil ég hafa það. Ég vil ekki að minnihluti geti kúgað meirihlutann eins og nú er reynt að gera

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 30.1.2011 kl. 06:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband