4.2.2011 | 05:10
Alkóhólisk umræða
Mikið lifandis ósköp er ég þreyttur á þessu þvargi um Hæstarétt og ógildinguna á kosningu til stjórnlagaþings. Sumir virðast alveg týndir í vangaveltum um hæfi dómaranna eða pólitíkina í sambandi við skipun hæstaréttar. Þetta skiptir bara ekki nokkru máli. Hins vegar vitum við núna, að það hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt núna að koma þessu stjórnlagaþingi á. Og ástæðurnar eru einmitt fyrst og fremst þær sömu og fengu því framgengt að ógilda kosninguna. Það verður að breyta skipan dómsvaldsins, bæði hvað varðar fleiri dómsstig og skipan dómaranna. Þar verður gott að geta bent á afgreiðslu þessara 6 hæstaréttardómara á kæru flokkseigendafélags sjálfstæðisflokksins. Því við skulum ekkert vera að blekkja neinn, kæran var undirbúin og kostnaður greiddur af sömu valdablokkum og telja sig eiga Ísland. Þessir menn eru hræddir um að missa þau ítök sem þeir hafa í völdunum.
Því baráttan um Ísland snýst ekki um peninga eða auðlindir fyrst og fremst. Baráttan snýst um VÖLD: Hún snýst um hver gefur skipanir og hver framkvæmir og hver hlýðir.
Áttum okkur á þessu gott fólk og látum ekki spunakalla þvæla málið. Fókuserum á að krefjast nýrra kosninga. Því það er ekki hægt að koma tauti við hæstarétt nema breyta stjórnarskránni. Það er kjarni málsins. Ekki hvort einhver stærðfræðingur eða lögfræðingur kemur með betri röksemdafærslu en hæstaréttur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.