20.5.2011 | 02:35
Beint lýðræði vs. Stjórnleysi
Hér á landi ríkir alvarleg stjórnmálakreppa. Traust til stjórnmálamanna, Alþingis og flokkanna er í sögulegu lágmarki og það er ekki einu sinni hægt að samþykkja vantraust á þessa lélegustu stjórn Íslands á lýðveldistímanum, vegna ótta stjórnmálamanna um algert fylgishrun. En þrátt fyrir þennan ótta stjórnmálamanna hefur lítil naflaskoðun farið fram í herbúðum flokkanna. Ástæðan er einfaldlega sú að hugmyndafræði flokkanna hefur verið fórnað á altari sérhagsmuna og það mun taka áratugi að endurvekja þann trúanleika sem rofnaði ef það þá tekst nokkurn tíma.
Styrmir Gunnarsson, sá gamli klækjarefur og riddari spillingarinnar innan Sjálfstæðisflokksins hefur vakið nokkra athygli fyrir tilraunir til að aflúsa Flokkinn. Nýjasta útspil hans er að Sjálfstæðisflokkurinn afneyti sérhagsmunaöflunum sem hafa notað flokkinn í áratugi í pólitísku valdabrölti. Lausnin sem Styrmir bendir á er að við tökum í vaxandi mæli upp beint lýðræði. Orðrétt segir Styrmir svo:
"Endurnýjun flokka og stefnumála þeirra fer ekki fram með breytingum á afstöðu til dægurmála. Hún fer fram með þeim hætti að flokkar skynja þá strauma, sem eru að brjótast um í þjóðardjúpinu. Það er mín sannfæring, að þeir straumar nú séu krafan um beint lýðræði og að sá flokkur eða þeir flokkar, sem verða fyrstir til að gera það grundvallarmál að sínu muni nái trausti fólksins í landinu. Þessi krafa snýst í raun um að færa völdin frá flokkunum til fólksins."
Þetta er sérkennileg röksemdafærsla og gengur ekki upp. Það mun aldrei gerast að fjórflokkurinn hafi um það forgöngu að minnka völd sín og áhrif. Þvert á móti eru öll teikn uppi um að valdakerfi flokkanna ætli sér að herða tökin enn meir og berja alþýðu þessa lands til hlýðni, ef ekki með hræðsluáróðri þá með hertum lögum og reglum sem skerða enn frekar rétt almennings til að hlutast til um eigin tilveru. Beint lýðræði er ekki í boði og er ekki heldur lausnin. Hið beina lýðræði verður alltaf matreitt ofan í okkur af spunaliðum stjónarsinna hverju sinni. Icesave fór tvisvar í þjóðaratkvæði og ennþá eru sömu stjórnvöld að beita sömu blekkingum og þjóðin hafnaði.
Eina raunhæfa leiðin til að leysa stjórnmálakreppuna er að hér verði stofnaður flokkur vinstri stjórnleysingja sem næði meirihluta á þingi í næstu kosningum. Hlutverk þessa flokks yrði að jafna lýðræðishallann sem hér hefur myndast og laga þjóðfélagið að raunverulegri getu miðað við stærð og efnahagslega burði. Þessi gegndarlausi oflátungsháttur hefur fyrir löngu vaxið okkur yfir höfuð. Burtu með forréttindastéttina og sjálftökuliðið. Skerum niður í opinberum rekstri. Minnkum yfirbyggingu í opinberri þjónustu og förum að lifa við efni en ekki um efni fram. Segjum skuldasöfnun og sukki stríð á hendur með því að færa völdin til fólksins. Það er hið eina lýðræði sem á að ríkja. Ekkert spillt fulltrúalýðræði. ENDA ER ORÐIÐ ANARKISMI DREGIÐ AF GRÍSKA ORÐINU AN-ARKOS SEM MERKIR "ÁN LEIÐTOGA"
Vald spillir. Þessir valdasjúku einstaklingar sem hér komust til valda í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar eru á góðri leið með að breyta kerfinu í alræði ríkisins. Hér þarf að spyrna fast við fótum áður en kyrkingartak fasistanna leggur hér allt í eyði
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.