19.6.2011 | 17:17
Þurfti mann sem bjó fyrir vestan
Áform stjórnlagaráðs að festa eignarhald þjóðar á villtum dýrastofnum, í stjórnarskrá eru meiriháttar mistök. Þessi áform verður að stöðva og það verður að fást niðurstaða í túlkun á auðlindahugtakinu áður en sett verða inn í stjórnarskrá merkingarlaus og óljós hugtök sem hafa ekkert lagagildi, hvorki sér íslenskt né þjóðréttarlegt. Í 20 ár höfum við haft í lögum ákvæði sem segir að nytjastofnar við Ísland séu sameign þjóðarinnar. Á þessu merkingarlausa ákvæði höfum við síðan byggt alla okkar umræðu um auðlindastjórnun ríkisins á fiskistofnum við Ísland. Er nema von að þjóðin sé afvegaleidd þegar samviskulausir stjórnmálamenn haga sér á svona ábyrgðarlausan hátt. Maðurinn er ekki herra náttúrunnar og hvíti maðurinn er ekki æðsti kynstofninn. Öld nýlenduveldanna og lénsherranna er löngu liðin. Að taka frá mönnum lífsbjörgina er að taka frá mönnum réttinn til að bjarga sér. Þess vegna getur enginn slegið eign sinni á villt dýr. Þess vegna eru áform um að eignarréttarvæða fiskstofna við Ísland regin mistök. Við erum frumbyggjar í eigin landi og frumbyggjarétturinn er heilagur. Öll áform stjórnvalda í þá veru að ríkisvæða fiskimiðin brjóta á frumbyggjaréttinum. Kvóti er aðferð til að eignarréttarvæða hlunnindi. Hlunnindi sem eiga að vera frjáls. Við höfum séð hvernig einkaaðilar hafa sölsað undir sig almannarétt á mörgum sviðum. Eggjatekja, dúntekja, berjatínsla, lax og silungsveiðar, rjúpnaveiðar eru víðast bannaðar eða selt dýrum dómum til forréttindahópa. Og nú á að leika sama leikinn varðandi fiskveiðar í sjó. Og til að blekkja almenning til að afsala sér frumbyggjaréttinum er honum talin trú um að hann muni njóta rentunnar! Auðlindarentunnar sem er hið nýja töfraorð sem alla á að gera ríka. Alveg eins og hlutabréfin í bönkunum 2007. Öll vitum við nú hvernig sú svikamylla var búin til og hverjir högnuðust á henni og hverjir núna eiga að borga tapið. Nákvæmlega sama á við um aðrar bólur sem blásnar eru upp til að blekkja auðtrúa almenning. Orkan, fallvötnin, kalda vatnið, heita vatnið. Ekkert af þessum gæðum koma til með að gagnast almenningi til lengri tíma litið. Gjaldskrár almennings munu hækka til að borga hagnað þeirra sem raunverulega hagnast.
Að menn skuli ekki átta sig á því hvað er að gerast er sorglegt. Það þurfti konu sem býr fyrir vestan til að draga vagn sjávarútvegsráðherra í gegnum þingið. Og nú þarf mann sem einu sinni bjó fyrir vestan, til að vekja athygli á vitleysunni sem stjórnlagaráð er í þann veginn að fremja að undirlagi spilltra stjórnmálamanna
Flokkur: Stjórnarskrármálið | Breytt 9.2.2013 kl. 17:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.