17.10.2011 | 17:44
Pólitísk aðför SA að þjóðfélaginu
Þegar forsvarsmenn ríkiskapitalistanna í SA eru krafðir svara um af hverju þeir stuðli ekki sjálfir að meiri fjárfestingu og meiri atvinnu er ábyrgðinni alltaf velt yfir á ríkisstjórnina og hún sökuð um að standa í vegi fyrir framkvæmdum við nauðsynlega álversuppbyggingu. Í tilkynningu frá Alcoa í dag kemur þó annað á daginn. Alcoa ætlar ekki að leggja af stað með byggingu álvers á Bakka vegna þess að það er ekki og verður ekki næg orka fyrir þá stærð af álveri sem þeir þykjast þurfa hagkvæmninnar vegna. Sama er upp á teningnum varðandi álversframkvæmdir í Helguvík. Þar var farið af stað með byggingu og undirritaðir samningar um orkukaup án nokkurrar vissu um virkjanlega orku eða leiðir til afhendingar. Allt er þetta ljóst núna og ekki við ríkisstjórnina að sakast. En þrátt fyrir að þetta liggi nú á borðinu heldur forysta SA áfram sínu pólitíska stríði gegn núverandi ráðamönnum. Nú þegar orrustan um álverin er töpuð þá færa þeir víglínuna að sjávarútveginum og hóta því að engar fjárfestingar verði í greininni og þar með engin atvinnusköpun nema að þeir fái vilja sínum framgengt um óbreytt kvótakerfi. Þessir menn eru svo vanir að segja ríkisstjórninni fyrir verkum, að þegar nú er slegið á puttana á þeim þá brjálast þeir úr frekju og hóta öllu illu. Jafnvel þó þeir skaðist meira sjálfir og þeirra fyrirtæki þá skiptir það engu máli, bara ef það gæti hugsanlega skaðað ríkisstjórnina og veikt hana í sessi. Þetta er fyrirlitleg afstaða hjá forsvarsmönnum LÍÚ og SA. Forstjóri Vinnslustöðvarinnar hefur verið duglegur að verja núverandi kvótakerfi og er þar einn einarðasti baráttumaður kvótagreifanna. Nú hefur hann upplýst að hans fyrirtæki hafi beðið með 5 milljarða fjárfestingu bara vegna andstöðu við sitjandi ríkisstjórn og ráðherra sem er ekki undir stjórn LÍÚ. Er þetta ekki fáheyrt að fyrirtæki seinki nauðsynlegum fjárfestingum í pólitískum loddaraleik! því þessi forstjóri, Binni í Vinnslustöðinni hefur sagt að fjármögnunin sé tryggð og þörfin fyrir endurbætur knýjandi, en samt ætla þeir ekki að gera stjórnvöldum til geðs og hjálpa samfélaginu með því að auka atvinnu og umsvif. Svona stjórnendur á náttúrulega að reka með það sama. Nær væri þessum mönnum að leggjast nú allir sem einn á árar okkar sem viljum afnema kvótakerfið og taka upp breytt sóknarmynstur með dagastýringu. Eina ástæðan fyrir því að hér gerist ekkert í atvinnumálum þjóðarinnar er sú að þessi fámenna klíka sem Binni í Vinnslustöðinni er í forsvari fyrir, kemur í veg fyrir að 10.000 störf skapist í veiðum, vinnslu og afleiddum störfum fyrir sjávarútveg strax á næsta ári. Og þessi störf myndu dreifast yfir allt land með tilheyrandi hagsæld fyrir alla. Þess vegna segi ég við Vilhjálm Egilsson og forystumenn LÍÚ, hunskist þið til að leggja ykkar af mörkum til endurreisnarinnar eða víkið ella.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.