Að horfa yfir sviðið sviðið

jbh2

Undirtitill:  Hugleiðing vegna greinaskrifa Jóns Baldvins um "íslensku leiðina"

Ofurlaunuð eftirlaunaelítan þreytist seint á aðfinnslum út í þá sem enn standa á sviði íslenskrar stjórnsýslu og eru að reyna að laga það sem úrskeiðis fór vegna rangra ákvarðana þessara sömu ofurlaunuðu eftirlaunaelítu.  Þetta er pathetísk iðja. Að sitja nú í öruggu efnahagslegu skjóli svimandi hárra eftirlauna sem kostuð eru af skattpíndum almúga  þessa lands, og þykjast þess umkomnir að gagnrýna og leiðbeina. Þessir menn sem horfa nú yfir sviðið sviðið.  Sviðið vegna afleiðinga eigin pólitísku mistaka en ekki vegna mistaka saklauss almennings, sem enginn hafði kjark til að standa með nema forseti Íslands á örlagastund.  Jón Baldvin og fleiri hans likar horfðu aðgerðalausir hjá og beinlínis hvöttu til þess að íslenska ríkið tæki á sig alla ábyrgð af glæpsamlegri hegðun bankadólganna í Landsbanka íslands. Um það snérist neiið í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Neiið snérist ekki um pólitíska framtíð Ólafs Ragnars. Það er ljótur leikur að snúa þannig staðreyndum á haus. Hins vegar var Ólafur Ragnar ekki það veruleikafirrtur að sjá ekki óréttlætið sem þessi ríkisábyrgð hefði bakað þjóðinni ef af hefði orðið.  Mjög margir sem hefðu gjarnan mátt minnast látanna og eigin viðbragða vegna ríkisábyrgðar til handa DeCode Genetics á sínum tíma, hefðu átt að bregðast við á sama hátt og íslenska þjóðin sem safnaði undirskriftum til þess að fá að segja nei. það var ekki forsetinn í eiginhagsmunaskyni sem ákvað það upp á eigin einsdæmi tvisvar sinnum að synja ólögum staðfestingar.  Menn eiga ekki að fara ljúgandi um þótt þeim geðjist ekki persónulega að þeim spjátrungi sem nú situr á forsetastól.  

Íslenska leiðin byggir á þessu neii í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave ólögin. Þar sem heil þjóð setti löglega kjörinni ríkisstjórn stólinn fyrir dyrnar og rifti með því alþjóðaskuldbindingum og samtryggingu stjórnmálastétta og fjármálafursta um allan heim. Þegar rífa þarf niður múra, þarf að byrja á einum steini.  Þessi steinn var íslenska neiið. Íslenska leiðin.  Núna eru vaxandi mótmæli um allan heim gegn því að varpa skuldum banka og fjármálastofnana yfir á almenning. Við getum verið stolt af okkar þætti í þeirri byltingu.

Hins vegar er það rétt hjá Jóni Baldvin að við verðum lengi að vinna okkur út úr vandanum sem bankahrunið olli. Og menn geta djöflast í afneitun og hatri á íslensku krónunni ef menn vilja. En það breytir ekki því að ef hægt er að tala um einhverja vörn gegn afleiðingum banka og gjaldeyrishrunsins, þá byggir það viðnám á íslenskri krónu og engu öðru. Gengisfellingin sem Jón talar um og býsnast yfir er nefnilega miklu minni vegna krónunnar og gjaldeyrishaftanna heldur en ella hefði orðið.  þegar Jón Baldvin tók þátt í stjórnmálum þá notuðu menn gengisfellingar eins og hagstjórnartæki til að leiðrétta eigin mistök.  Núna þarf að beita höftum til að komast hjá miklu meiri gengisfalli krónu miðað við ofursterka evru.  Og svo dirfast menn að bera örríkið Ísland með sína einsleitu atvinnuvegi við milljónaþjóðirnar í Evrópu eins og þar sé einhverju saman að jafna.

EES samningurinn hans Jóns Baldvins er hans pólitíski minnisvarði. Það er því skiljanlegt að hann reki áróður fyrir þeim samningi og horfi jafnframt framhjá þeim slæmu afleiðingum sem sá sami samningur olli. Krónan nefnilega féll ekkert árið 2007 eða 2008.  Örlög hennar voru ráðin strax 1995.  EES samningurinn var atlaga að sjálfstæðri krónu.  þetta hljóta allir að hafa vitað. Og fastgengisstefna og háir vextir hlutu að leiða til kollsteypu í efnahagslífinu. Þannig var það EES samningurinn og svo náttúrulega einkavæðing bankanna til glæpamanna sem sponsoruðu svo aftur stjórnmálamennina, sem árið 2008 leiddi til gjaldþrots allra banka og fjármálastofnana.  Þar var krónan bara fórnarlamb en ekki sökudólgur.

Nú þarf að staldra við og hugsa upp leiðir til að græða sviðið sviðið.  Það er ekkert endilega best að aflétta hér höftum.  Erlendir auðhringar sækjast fyrst og fremst eftir ódýrri orku.  Hún er ekki lengur á útsöluprís, þess vegna er áhuginn lítill, ekki vegna haftanna.  Það vita allir.  Og að eiga samstarf við erlenda auðhringa um fjárfestingu er eins og að samþykkja barnaþrælkun og arðrán sem þessir sömu auðhringar standa fyrir út um allan heim. Kannski þarf að setja fleiri aðilum siðareglur en bara forsetaembættinu.  

En kjarni málsins er þessi. Það stendur fyrir dyrum alls herjar endurskipulagning á íslensku þjóðfélagi og það er ekki við hæfi að oflaunaðir eftirlaunaþegar séu mikið að réttlæta það spillta kerfi sem þarf að leggja af. Hvort sem þessir eftirlaunaþegar heita Jón Baldvin eða Davíð Oddson.  Takk en nei takk 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð hugleiðing takk fyrir hana. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.10.2011 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband