Æi ekki Katrínu

 Enn berast fréttir úr Ráðaleysi.  Nú hefur verið ákveðið að setja á fót ráðherranefnd til aðstoðar Jóni Bjarnasyni, sem þykir of seinfær í samfloti VG og Samfylkingar yfir Kreppuá.  Þetta þykja mér ill tíðindi. Þótt Jón sé til trafala þá er það ekki það versta hjá þessari sundurleitu hjörð sem hér er á ferð.

 Og hvernig dettur mönnum til hugar að setja Katrínu Jakobsdóttur í nefnd sem á að breyta fiskveiðistjórnuninni hér til frambúðar!  Hvað hefur Katrín lagt til málanna í þeim efnum á sínum pólitíska ferli?  Reykjavíkurdaman með gráðu í afþreyingarbókmenntum og sýndarpólitík hefur lítið vit og enn minni skilning á mikilvægi íslensks sjávarútvegs fyrir áframhaldandi byggð í landinu.  Ekki það að aðrir í þessu ráðherraliði séu hæfari, sem undirstrikar enn frekar þá helstefnu sem fylgt hefur verið undanfarin 20 ár af öllum fjórflokknum.  

 Ég vil sjá tekið á sjávarútvegsdeilunni á ábyrgan hátt og byrjað verði að svara þeirri spurningu hvort kvótakerfið og friðunin hafi skilað þjóðarbúinu þeim ávinningi sem lofað var. ( Og takið eftir að ég feitletra orðið þjóðarbúið.  Ég er þreyttur á þessu rifrildi þar sem hagsmunaaðilar kaupa hagfræðinga til að blekkja stjórnmálamenn og telja þeim trú um að hagsmunir útgerðarmanna séu hinir sömu og hagsmunir þjóðarinnar). Þegar þeirri spurningu hefur verið svarað neitandi þá er komið að því sem allt þetta mál snýst um en það er framtíðarskipan fiskveiða á Íslandi og rétti hvers vinnandi manns til að róa til fiskjar án þess að gerast leiguliði sérvalinna kvótagreifa.

 Hugtakið um auðlindarentuna hefur verið misnotað af pólitíkusum og hagfræðingum sem eru í þjónustu útgerðarmanna til að blekkja fólk til að samþykkja áframhaldandi kvótakerfi og áframhaldandi yfirráð kvótagreifa yfir öllum veiddum fiski á Íslandsmiðum um ókomin ár. Bullið í Ólínu og öðrum þingmönnum um nauðsyn þess að leggja hér á útgerðina auðlindaskatt er vanhugsað. Nær væri að beita virðisskattsheimildum til að innheimta þessa sjálfsögðu rentu. Af hverju ekki að taka til dæmis innskatt af hverju seldu kílói af fiski á markaði frekar en ákveðna lága krónutölu í formi auðlindagjalds? Fiskveiðar og vinnsla er eins og hver annar iðnaður og getur einhver nefnt mér annan iðnað þar sem hráefnið er ókeypis?  Og með því að innheimta hráefnisgjald í formi innskatts eða virðisaukaskatts þá er tryggt að rekstrargrunnurinn skaðast ekki þótt verðfall verði á mörkuðum. Og til þess að setja nú ekki allt á hliðina með fullkomnu frelsi í veiðum þá mætti hugsa sér að gefa frjálsar veiðar á handfæri og línu innfjarða til að byrja með. Sú ráðstöfun ætti að duga til að mæta kröfunni um nýliðun og atvinnufrelsi.  Þetta tvennt finnst mér fullkomin lausn á þeirri deilu sem nú er uppi milli ríkisstjórnarinnar og útgerðarinnar. Eða hefur Katrín Jakobsdóttir einhverjar aðrar hugmyndir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Flottur!

Aðalsteinn Agnarsson, 26.11.2011 kl. 16:49

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Takk Aðalsteinn :)

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 26.11.2011 kl. 16:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband