27.2.2012 | 22:14
Frumvarp Stjórnlagaráðs gagnrýnt -Aðfaraorðin-
Ég skora hér með á alla að tjá sig um þetta frumvarp sem nú er til meðferðar hjá stjórnskipunarnefnd Alþingis. Hvort sem við erum því meðmælt eða andvig, þá er það borgaralegur réttur allra Íslendinga að tjá sig um stjórnarskrána og þær breytingar sem þarf að gera á henni. Stjórnarskráin kemur okkur öllum við. Stjórnarskráin er ekki einkamál Sjálfstæðisflokksins eða lögfræðingafélagsins eða núverandi ríkisstjórnar eða þeirra ~30 einstaklinga sem komu að gerð þess frumvarps sem hér er til umræðu. Þá er ég að tala um stjórnlaganefndina og stjórnlagaráðið.
Stjórnarskráin er sáttmálinn. Stjórnarskráin leggur línurnar. Stjórnarskráin inniheldur leiðbeiningarnar sem allir eiga að þekkja og virða og fara eftir.þess vegna skiptir megin máli að hún sé rituð á skiljanlegu máli og innihaldi ekki hugtök sem ágreiningur er um hvernig ber að túlka.
Í frumvarpi stjórnlagaráðs er fullt af óljósum hugtökum, sem ekki hefur verið hirt um að túlka. Ég ætla að fara hér í þessum og næstu pistlum yfir það sem mér finnst athugavert.
Frumvarpinu er skipt í 9 kafla sem innihalda 114 greinar. Þetta er óþarflega ítarlegt að mínu mati. Þarna hefði átt að sleppa flestu því sem ekki er hægt að túlka sem bein fyrirmæli. Óskhyggja og óljósar yfirlýsingar eiga ekkert erindi í stjórnarskrá. Tökum fyrst Aðfararorðin. En þar segir:
Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.
Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.
Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika
mannlífs, lands og lífríkis.
Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við
einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.
Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða
Þetta er illa grunduð moðsuða. Endurskoðuð gæti greinin hljóðað svona:
- Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.
- Íslensk þjóð ber sameiginlega ábyrgð á vernd lands, tungu, sögu og menningu.
- Framsal frelsis og fullveldis lands og þjóðar má aldrei að hluta eða öllu leyti í lög leiða.
- Stjórnarskrá lýðveldisins er undirstaða allra annarra laga og hana ber öllum Íslendingum að virða
- Um brot gegn stjórnarskránni skal setja sérstök lög sem ákveði hvernig með skuli fara
Flokkur: Stjórnarskrármálið | Breytt 9.2.2013 kl. 17:15 | Facebook
Athugasemdir
Í minni útgáfu fer ekkert á milli mála. Ekkert "viljum" eða "skulum" bara það sem er og á að vera. Skýrt og augljóst og alls ekki tilefni "túlkunar" Sem sagt, mannamál
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 27.2.2012 kl. 22:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.