28.2.2012 | 01:27
Frumvarp Stjórnlagaráðs gagnrýnt - 2. Kafli -
Í framhjáhlaupi þá má ég til með að gagnrýna uppsetningu frumvarpsins og notkun rómverskra tölustafa til að kaflaskipta því. Þetta er alger óþarfi og ég ætla bara að nota íslensku aðferðina.
----------------------------------------------------------------------------------------------------------
2. kafli frumvarpsins ber undirtitilinn "Mannréttindi og Náttúra" og er greinilega eftirlæti stjórnlagaráðsmanna flestra og það sem þeir oftast nefna, sem kaflann sem vantaði og kaflann sem réttlætir allt hitt klúðrið. Eða þannig virkar það á mig. Þessi kafli inniheldur 30 greinar og því er dálítið mikið í lagt að fjalla um þær allar í einum pistli. En þegar betur er að gáð, þá má og þarf að fella mest af því sem þar stendur út. Og mig grunar að nærvera Freyju Haraldsdóttur í ráðinu hafi litað margt af því sem í 2. kaflann rataði. Og þetta segi ég ekki af vanvirðingu við Freyju eða hennar fötlun. Heldur þvert á móti gruna ég marga um að hafa ekki tekið henni sem jafningja. Skoðum greinar 6-10.
6. gr.
Jafnræði.
Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem
vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar,
skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.
7. gr.
Réttur til lífs.
Allir hafa meðfæddan rétt til lífs.
8. gr.
Mannleg reisn.
Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.
9. gr.
Vernd réttinda.
Yfirvöldum ber ætíð að vernda borgarana gegn mannréttindabrotum, hvort heldur sem brotin
eru af völdum handhafa ríkisvalds eða annarra.
10. gr.
Mannhelgi.
Öllum skal tryggð mannhelgi og vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi,
innan heimilis og utan.
Þarna færi betur að hafa bara eina grein, 6.grein sem hljóðaði til dæmis svona:
6. gr.
Jafnræði.
Allir þegnar þessa lands, sem ekki hafa brotið gegn lögum og ekki sæta refsingu, skulu jafnir fyrir lögum og skulu njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.
Feitletrunin er mín viðbót. Það sem fellur brott eru ágætis markmið en því miður eiga þær viljayfirlýsingar ekkert erindi í stjórnarskrá. greinar 11-17 eru marklausar eins og þær eru settar fram. Friðhelgi einkalífs er ekki hægt að tryggja í stjórnarskrá. Ef það væri hægt þá þyrftum við ekki lögreglu. Rétt barna er heldur ekki hægt að tryggja án þess að brjóta á rétti foreldra og forráðamanna. Við verðum að sýna umburðarlyndi fyrir mannvonsku og varast að binda pólitíska rétthugsun í stjórnarskrá. Eins er það með eignarréttinn. Eignarréttur er lögfræðilegt hugtak sem ekki á heima í stjórnarskrá. Skoðana og tjáningarfrelsi sem og frelsi fjölmiðla þurfa að vera settar skorður. Alla vega þannig að ábyrgðar sé gætt. Frelsi menningar og mennta eins og sett fram í 17. grein er líka vanhugsað og hefur engan tilgang.
Þá komum við að ákvæðum um trúfrelsi og kirkju. Trú og trúrækni fellur undir friðhelgi einkalífs og þess vegna ofaukið í þessum kafla. Sama á við um einhverja sérstaka ríkiskirkju og ríkistrú.
20 og 21. grein sem fjalla um félaga og fundafrelsi eru hinsvegar nauðsynlegar.
Greinar 22-26 falla hins vegar undir pólitíska stefnumörkun hverju sinni og ég er ekki sannfærður sósialisti svo ég segi pass.
Greinar 26-27-28 falla undir mannréttindi og þess vegna ætti að vera óþarfi að hnykkja sérstaklega á því. Betra væri að hafa ákvæði sem beinlínis gerðu stjórnvöldum skylt að víkja, sem uppvís væru að brotum á mannréttindum því það er greinilega hugsunin á bak við þessar greinar.
29. greinin er óþörf. Fyrir ómannlega hegðun á að refsa á ómannúðlegan hátt.
30. greinin er óþörf. Afturvirkar refsingar geta átt rétt á sér undir sérstökum kringumstæðum
31. greinin er óþörf. Ef við viljum stofna her eða heimavarnarlið þá verður að vera hægt að manna það.
32. greinin er óþörf. Það dytti engum í hug að spilla menningarverðmætum
--------------------------------------------------------------------------------------------------------
Og þá erum við komin að kjarna málsins sem eru ákvæðin um Náttúruna, umhverfið og auðlindirnar . Þar vil ég fyrst taka fram að mér finnst það hefði átt að hafa þessar 3 greinar í sérkafla um Umhverfi og auðlindanýtingu og hann hefði átt að vera í frumvarpinu sem viðauki. Og ekki síst finnst mér þessi hluti hefði átt að vera mun ítarlegri og nákvæmari varðandi skilgreiningar á auðlindum annars vegar og hefðbundnum hlunnindum hins vegar. Á þetta hef ég marg oft bent við litlar undirtektir. En ég tel skilgreiningu á nytjastofnum í hafinu stangast á við alþjóðalög um frumbyggjarétt og sjálbæra nýtingu á sjávarfangi og fugli. Alla vega er umræðan ekki komin á það stig að hægt sé að binda þessar greinar í stjórnarskrána.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Að mínu mati á ákvæði um dýravernd ekki heima í stjórnarskrá. Þess vegna felli ég 36. greinina á brott. Hugsunin er eflaust góð sem að baki hennar liggur en enn og aftur, sumt á bara ekki heima í stjórnarskrá heldur miklu fremur í alþjóðasáttmálum. Þar vísa ég til sáttmála sem eru til og fjalla um réttindi barna sem og réttindi dýra.
Flokkur: Stjórnarskrármálið | Breytt 9.2.2013 kl. 17:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.