7.3.2012 | 06:15
Fésbókarforsetinn
Ég les á nokkrum bloggum að óþolendur Ólafs Ragnars eru farnir að hópa sig saman í fésbókargrúppu til að skipuleggja mótframboð. En einhver vandræðagangur virðist á þessu hjá þeim, þar sem þau hafa enga hugmynd um hvers konar frambjóðandi muni sóma sér best í embættinu og vera líklegur til að feta braut Ólafs Ragnars. Og vera sá öryggisventill þjóðarinnar, sem ekki bilar þegar þingið verður viðskila við þjóðarviljann. Eins og gerst hefur í þrígang á valdatíð Ólafs Ragnars undanfarin 16 ár. Fólk verður að geta treyst, að verðandi forseti, fari að þjóðarvilja en ekki sínum eigin, ef á þarf að halda. Ólafur Ragnar gerði það, þegar hann vísaði Icesave lögunum í þjóðaratkvæði í seinna skiptið. Þvert á það sem hann taldi sjálfur best. Með því setti hann fordæmi, sem ekki er hægt taka til baka. Þjóðin vill hafa þennan möguleika opinn í framtíðinni og það mun enginn frambjóðandi njóta afgerandi stuðnings sem ekki er tilbúinn að lýsa því yfir, skýrt og skorinort, að hann verði óhræddur að beita 26. grein stjórnarskrárinnar, ef nógu stór hópur kjósenda, fer fram á það. Með fullri virðingu fyrir Stefáni Jóni Hafstein, þá held ég ekki að hann sé nógu staðfastur til að beita 26. greininni. Sérstaklega ekki, ef hann er sjálfur samþykkur afgreiðslu Alþingis. Stefán Jón á að taka slaginn við Jóhönnu um formannssætið í Samfylkingunni og ekkert annað. Það hefur lengi verið skoðun mín og hún hefur ekkert breytst. Enda er maðurinn alltof ungur til að verða forseti. Og það er Þóra Arnórsdóttir líka. Hún er afburða fréttamaður og á að helga sig þeim karíer í mörg ár enn. Og hvað á að gera við Svavar ef Þóra færi í framboð? Hafa menn ekkert hugsað út í það? Það væri eins og að gelda ungan fola að koma þeim hjónum í slíka aðstöðu.. Og þá fer nú að verða fátt um fína drætti í framboðsmálum fésbókarinnar. Enda held ég í alvörunni, að fésbókin verði aldrei vettvangur alvöru þjóðmálaumræðu. Hver vill líka verða þekktur sem Fésbókarframbjóðandinn? Er það ekki svipað og vera þekktur sem Sólbaðsstofuræninginn eða Laugarnesmorðinginn...Ég bara spyr.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.