Áfellisdómur yfir ríkisreknu sjónvarpi

Tilvistarvandi RÚV er fyrst og fremst stjórnunarlegur.  Páll Magnússon er pólitískt ráðinn inn í þessa stofnun og það virðist standa í stjórn stofnunarinnar að reka hann og skipa faglegan og hæfan einstakling í stöðuna.  Það er búið að dæla í þessa ríkishít milljörðum króna eftir að Páll kom þar til starfa án þess að þess sjáist nokkur merki í meiri gæðum, hvort sem litið er til tæknimála eða efnisframboðs. Núna í dag stendur RÚV langt að baki samkeppnisaðilum bæði í dagskrárgerð og tæknivæðingu. Og núna er hinn markaðsráðandi risi búinn að glutra hryggjarstykkinu úr dagskrá sinni til samkeppnisaðilans og kennir öllu öðru um að svoleiðis gat gerst en eigin vanhæfi!  Kunnuglegt í íslenskri stjórnsýslu ekki satt?. Ef fagfólk stýrði RÚV þá gæti þetta ekki gerst.  Ekki miðað við það mikla forskot sem RÚV hefur á markaðnum. Hjá RÚV ríkir stöðnunin ein. Og ef ekki væri um skylduáskrift að ræða að stofnuninni þá myndi lítið sem ekkert áhorf vera. Með því að einkavæða sjónvarpsrásirnar og breyta þeim í kapalrásir með VOD tækni síma og ljósleiðarakerfis má bæta þjónustuna og gera hana mun ódýrari. Þá mundi losna um gríðarlega mikið fjármagn sem mætti þá nota til að styrkja innlenda dagskrárgerð. Það er löngu liðin tíð að hægt sé að safna fólki saman fyrir framan sjónvarp ákveðinn tíma dags. Núna vill fólk horfa þegar því hentar. 

Því miður þá ríkir sami fornaldarhugsunarhátturinn  hjá þeim sem stýra þessum málum og hjá yfirstjórn RÚV svo það eru engar líkur á neinum breytingum á næstu árum. Þrátt fyrir að núna liggi fyrir frumvarp til nýrra útvarpslaga og nýbúið sé að setja ný fjölmiðlalög þá datt engum til hugar að innleiða nýja hugsun með nýju fólki í íslenskt sjónvarp.  Afleiðingin verður áframhaldandi hnignun RUV og vaxandi óánægja almennings með ríkismiðilinn. Þá verður of seint að rumska þegar viðskiptavinirnir eru farnir eitthvað annað. Nú þegar velja fleiri og fleiri að horfa á norrænt og evrópskt sjónvarpsefni í gegnum kapalkerfi símafyrirtækjanna. Þetta mun aðeins aukast í framtíðinni meðan RUV heldur að áhorf byggist á því að senda út útvarpsþætti í sjónvarpi og sjónvarpsþætti í útvarpi.

Íþróttaefni á ekki lengur heima í opnum kerfum. Þetta er með dýrasta efni sem hægt er að bjóða uppá og þess vegna hljóta þeir sem vilja horfa, þurfa að greiða þá dægrastyttingu fullu verði. Og það er ekki hægt að halda uppi 2 áskriftarrásum hér á landi sem báðar ætla að slást um sama efnið og sömu áhorfendurna. Þessu verða menn að átta sig á.  Vegna sérstöðu okkar er ekki hægt að halda uppi virkri samkeppni á svo ótal mörgum sviðum og það eigum við að viðurkenna og gera ráðstafanir til að tryggja bestu og ódýrustu þjónustuna þrátt fyrir að veita fyrirtækjum einokunaraðstöðu.  Hugsanlega með ríkisútboði.  Þannig væri hægt að gera varðandi fjölmiðlun, olíusölu, samgöngur og fjármálastarfsemi. Fákeppni á einokunarmarkaði er jafn skaðleg og ríkiseinokun á fákeppnismarkaði.

En persónulega þá gleðst ég yfir því ef íþróttaefni minnkar sem hlutfall af útsendingartíma RÚV. Í dag eru þetta 28-35 klukkustundir á viku í opinni dagskrá!!! Sem er náttúrulega bilun. Ef hægt væri í staðinn að auka framboð af skemmtiefni og taka upp endursýningar allan sólarhringinn og nýta síðan útsendingar á netinu í vaxandi mæli þá væri það merki um smá glóru hjá Páli Magnússyni, en ég á frekar von á að hann væli í Katrínu Jakobsdóttur sem  mun setja um það lög að Stöð 2 verði skylt að senda fótboltaleikina út í opinni dagskrá á kostnað okkar sem greiðum ríkisdagskrána. Sanniði til....


mbl.is Tilboði RÚV í sýningarrétt hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Sammála.

Íþróttadeildin hefur fengið allt of mikið fjármagn og tíma hjá RÚV. Um tíma var komið svo, að Formúlan tók yfir fréttatíma sjónvarpsins.

Sveinn R. Pálsson, 10.3.2012 kl. 09:34

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ekki ætla ég að mæra Pál Magnússon, né hvernig hann stjórna þeirri stofnun sem kallast útvarp allra landsmanna. Það er allt til skammar hjá Páli, pólitík ræður þar völdum í einu og öllu. Hann hefur gert þessa stofnun að útvarpi SUMRA landsmanna!

Ekki ætla ég heldur að gráta þó fótbolti hverfi úr útsendingu stofnunar Páls Magnússonar.

En ég geri mér grein fyrir því að ég er þar í miklum minnihluta áhorfenda. Það er stór hluti landsmanna sem hefur gaman af því að horfa á fótbolta, hvers vegna er mér með öllu hulið, en svona er þetta samt. Af þessum stóra meirihluta eru margir sem ekki hafa efni á að kaupa sér áskrift og þeir munu verða af sínu gamni. Það er kannski það fólk sem ég finn til með og það ætti strákguttinn sem stjórnar KSÍ einnig að gera. Það hlýtur að vera einhver skylda sem sá gutti ber. Íþróttastarfið og þar með fótboltinn, er styrkt af fé sveitarfélaga. Skattfé þeirra er notað, bæði beint og óbeint, af miklum dugnaði til þess.

Það er því ekki við Pál að sakast í þessu efni, aldrei þessu vant, heldur KSÍ. Því ber að gefa öllum sem þess óska, óháð fjárhagslegri stöðu þeirra, að njóta þess sem skattfé þeirra gengur til.

Hitt er annað mál að auðvitað á að vera sérstök rás fyrir íþróttir í ríkissjónvarpinu, svo við hin getum horft á annað efni ótrufluð.

Þá má ekki gleyma því að íþróttir eru taldar vera einhver besta forvörn gegn ólifnaði, sem þekkist. Börn og unglingar stunda þá íþrótt sem fyrir þeim er höfð. Með því að færa sífellt meira af íþróttum inn á lokaðar og rándýrar rásir, er verið að grafa undan þessari forvörn.

Þetta ætti strákguttinn í KSÍ einnig að taka til skoðunnar. Hann þarf tvímælalaust að átta sig á því að hann á ekki KSÍ, að sambandið er ekki fyrir hann, heldur hann fyrir sambandið!!

Gunnar Heiðarsson, 10.3.2012 kl. 10:03

3 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Það mætti skilyrða stuðning við KSÍ þannig að RÚV fái að sýna stutt valin atriði úr leikjum úrvalsdeildar. Það er nóg fyrir flesta að sjá mörkin í leikjunum.

Sveinn R. Pálsson, 10.3.2012 kl. 10:17

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Eins og ég tók fram þá er ekki pláss fyrir nema eina íþróttarás í landi með 320 þús íbúa. Stöð 2 er búin að fjárfesta í háskerpu-útsendingarbúnaði og býr yfir hæfari stjórnendum því á RÚV ekki að keppa á þeim markaði lengur. En í staðinn á Stöð 2 að greiða eitthvað til ríkisins fyrir þennan rétt.  Aukið áhorf og meiri tekjur myndu réttlæta slíkan einokunarskatt. Með því á sama hátt að veita RÚV einokunarrétt til útsendingar á menningar og skemmtiefni þá er hægt að búa til annars konar sjónvarp.  Varðandi KSÍ þá er það tilefni í langa umræðu sem ekki fellur undir efni þessa pistils.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.3.2012 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband