Sumir dæma en aðrir fordæma

Um daginn skrifaði ég smá hugleiðingu um ofbeldisþjóðfélagið.  Þetta var nokkuð sem ég var búinn að hugleiða lengi.  Og þetta var bara túlkun mín á þeirri undirliggjandi reiði sem birtist á svo mörgum stöðum í þjóðfélaginu. En þetta var ekki félagsleg úttekt byggð á neinni statistik. Á sama tíma skrifar Þór Saari, þingmaður, svipaða grein og kemst að svipuðum niðurstöðum, en vegna þess að hann tengir sína niðurstöðu beint við ákveðinn atburð, þá verður allt vitlaust.  Og allir sótraftar á flot dregnir til að grilla aumingja manninn. Meira að segja virðulegir geðlæknar og aðrir minna virðulegir sálfræðingar, sáu ástæðu til að taka þátt í aðförinni að Þór Saari. Án þess þó, að gera minnstu tilraun til að greina þjóðfélagsástandið.  Og svo vogar Kastljósspyrillinn sér að vera með hrokafullt yfirlæti, með því sjálfur að draga órökstuddar ályktanir af tilefni morðtilræðisins.  Á nákvæmlega sama hátt og hann sakaði Þór Saari um.  Mín skoðun er sú að við eigum að taka þessa morðárás alvarlega í þjóðfélagslegu tilliti.  Þetta er ekki hægt að afgreiða sem stundarbilun óánægðs viðskiptavinar útaf lyktum máls hjá þessari tilteknu lögfæðistofu.  Gerandinn er haldinn djúpstæðu hatri gagnvart lögfræðingastéttinni í heild og það eina sem var tilviljunarkennt, var hvert fórnarlambið varð.  Og ef menn þora ekki að viðurkenna að það grasserar gífurleg reiði úti í þjóðfélaginu gagnvart lögfræðingum almennt, þá erum við í vondum málum.  Það á ekki að ríkja þöggun um ótryggt þjóðfélags ástand af ótta við að fleiri snappi.  En það virðist hafa verið inntakið í fordæmingu geðlæknisins á grein Þórs Saari.  Það er miklu betra að tala opinskátt um áhrif rangra stjórnvaldsákvarðana heldur en fela afleiðingarnar á bakvið einhverja statistikk, sem birtist hvort sem er aldrei í rauntíma og því aldrei hægt að nota til að byggja úrbætur á.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel mælt svo og greinin um ofbeldisþjóðfélagið.  Maður veltir fyrir sér hverslags atburðarás gæti farið af stað ef "elítan" bregst þannig við að herða öll tök og refsingar í stað þess að upphefja ástæðuna. Venjulegt heiðarlegt fólk gæti farið að líta upp til skúrkanna (t.d. gætu skipulögð glæpasamtök nýtt sér þetta með gaumgæfilegu vali á fórnarlömbum) sem einhverskonar frelsishetja gegn spiltu kerfi, sem forherðist æ meir í sínum viðbrögðum.   Einnig má sjá í Sýrlandi hvað gerist þegar yfirvöld forherðast í því að gefa aldrei eftir til að vernda meintan stöðugleika. (vonandi algjört öfgadæmi miðað við Ísland).    Við erum að höndla með fjöregg þjóðarinnar þ.e. traustið í samfélaginu, þar duga ekki flausturslegar upphrópanir (já,já á líka við Þór Saari og okkur öll) og fordæmingar á þeim sem vilja benda á og ræða vandann.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 9.3.2012 kl. 08:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband