11.3.2012 | 11:35
Skríparéttahöld Landsdóms
Ég hef ekki tjáð mig mikið um Landsdómsmálið eftir að réttarhöldin byrjuðu. Ástæðan er einfaldlega sú að ég veit ekki hvað er þarna á seiði. Ég hélt í einfeldni minni, að um Landsdóm giltu sömu reglur og sakadóm. Að þar myndu menn vinna á svipaðan hátt og hjá sérstökum saksóknara. Því það var sú mynd sem dregin var upp fyrir okkur í umræðum í þinginu og víðar. Á því byggði ég afstöðu mína og væntingar. En það er bara alls ekki það, sem er í gangi uppí Þjóðmenningarhúsi. Hvort lögin voru svona óskýr eða hvort Alþingi klúðraði þessum réttarhöldum viljandi, þá er ljóst að það eru engin réttarhöld í gangi. Það er miklu frekar eins og skýrslutaka fyrir rannsóknarnefnd. Ekki einu sinni skýrslutaka fyrir dómi því enginn er eiðsvarinn! Enda hefur ekkert nýtt komið fram. Og vitni úr embættismannakerfinu eru greinilega löngu búin að samhæfa vitnisburðinn. Það er, ef þau muna eitthvað lengur. Ekkert nýtt þar frá því sem þegar var vitað. Og að leiða bankamennina sem margir hverjir hafa réttarstöðu sakborninga Sérstaks Saksóknara, sem vitni er náttúrulega ekki traustvekjandi. Halda menn að Sigurður Einarsson, Björgólfur Guðmundsson eða Lárus Welding muni virkilega segja sannleikann um lögbrotin í bönkunum og það kerfisbundna svindl sem bankarnir eru sekir um í sambandi við kaup á eigin bréfum? Auðvitað ekki. Því þá væri saksóknin gegn Geir fallin um sjálfa sig.
Til þess að Landsdómur stæði undir nafni hefði þurft að fara fram rannsókn. Engin slík rannsókn fór fram af hálfu saksóknaraembættisins. Saksóknari talaði ekki einu sinni við Geir. Engin yfirheyrsla, engin gagnasöfnun. Ekkert! Engin ný vitni. Ákæran gegn Geir byggir eingöngu á gögnum, sem safnað var af Rannsóknarnefnd Alþingis, sem samt mátti ekki nota til sakfellingar. Hvernig getur þá saksóknari búist við sakfellingu? Hvað eru Sigríður og Helgi að hugsa?
Þetta gengur einfaldlega ekki upp. Það er verið að setja upp leiksýningu og hafa okkur að fíflum. Þetta eru skríparéttarhöld og Geir mun labba út með hvítþvegna samvisku hvítflibbamanns sem kerfið verndaði. Geir bað Guð að blessa Ísland. Geir bað ekki Guð að hjálpa sér. Hann treysti greinilega Flokknum til þess. Og Flokkurinn mun ekki bregðast honum með Markús sem forseta Landsdóms og Kjartan á gægjum að fylgjast með að enginn kjafti frá.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.