Gjaldeyrisskil

Í síðasta pistli fjallaði ég aðeins um myntina frá sjónarhóli leikmanns.  Mér til ánægju þá hefur nú virtur hagfræðingur staðfest það sem ég hélt fram um sakleysi krónunnar.  Þess vegna langar mig að taka þetta aðeins lengra og fjalla um hvað brýnast sé að gera til þess að laga stöðu krónunnar og aflétta höftunum.  Eitthvað sem tekur nokkur ár miðað við þær skuldir sem Jóhanna og Steingrímur eru búin að steypa okkur í.  Númer eitt er að auka gjaldeyrisöflun eins og mögulegt er á meðan genginu er haldið lágu. Þetta er mikilvægt að gera með meiri framleiðslu en líka betra eftirliti með gjaldeyrisskilum.  Við eigum hiklaust að auka veiðar verulega og taka upp hráefnisskatt sem hlutfall af söluverði á allan seldan afla uppúr skipi.  Til dæmis 20% (Ekkert helvítis auðlindarentu kjaftæði) Síðan og það sem er ekki síður mikilvægt er að tryggja 100% gjaldeyrisskil.  Í dag er víða pottur brotinn og menn stinga því í eigin vasa sem geta.  Ég efast ekki um að flóðgáttir uppljóstrara myndu gefa sig fram ef yfirvöld borguðu mönnum fyrir að upplýsa um svona svik.  Þar þarf helst að kanna þá sem starfa í greinum, sem höndla með gjaldeyri beint.  En það eru helst ferðaþjónustan/veitingabransinn og sjávarútvegsfyrirtækin.  Skýrslur sýna að þrátt fyrir mikla aukningu túrista þá aukast tekjurnar ekkert.  Menn eru að fabúlera í því sambandi að líkleg skýring sé að hver túristi eyði minna en ég ætla að fullyrða að skýringin er sú að atvinnurekendurnir eru bara ekkert að skila þessum gjaldeyri til Seðlabankans.  En eins og allir vita þá eru 2 gjaldskrár víðast í gangi,  ein fyrir Íslendinga og önnur fyrir útlendinga.  Velkomin til Kúbu norðursins!  En svo eru það öllu stórtækari gjaldeyrissvik sem fiskseljendur stunda.  Þau eru stunduð með ýmsu móti.  Gámafiski er skotið undan.  Útgerðir eiga sölufyrirtækin erlendis og gefa ekki upp rétt verð og svo eru það þessir stóru sem eiga móðurfélög erlendis eða dótturfélög og sem engin leið er að fylgjast með.  Samherji,  Sjólaskip , Grandi og hvað þau heita öll, sem eru með starfsemi erlendis og hér heima.  Fyrst Seðlabankinn gat ekki afstýrt gjaldeyrisbraski strákgutta úr boltanum þá er varla hægt að ætlast til að hann sjái við alþjóðlegum auðhringum með her skattasniðgöngulögfræðinga og endurskoðenda á sinni launaskrá.  Hlutur sjávarútvegs er miklu meiri í útflutningstekjunum heldur en hagtölur gefa til kynna, hann bara skilar sér ekki hingað heim.  Að yfirvöld skuli ekki fylgjast betur með er vítavert.  Gengi krónunnar er nefnilega að lækka vegna þess að gjaldeyri er ekki skilað.  Og við náum aldrei að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð ef þessu verður ekki kippt í liðinn. 

Eftirlitssveitir sem hafa heimildir til að fara inní fyrirtæki og grandskoða bókhald og útflutningsskýrslur er það eina sem dugar.  Helst skipaðar útlendum sérfræðingum.  Því Íslendingunum virðist svo auðvelt að múta.  Eða að frændsemin eða kunningjaskapur eða atvinnuhagsmunir vina eða ættingja koma í veg fyrir virkt eftirlit.  Af íslensku eftirliti höfum við slæma reynslu og engin ástæða til að treysta því á mikilvægum póstum eins og gjaldeyriseftirlitinu.  Seðlabankanum er alla vegana ekki treystandi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Eftirlitssveitir sem hafa heimildir til að fara inní fyrirtæki og grandskoða bókhald og útflutningsskýrslur" En dugar það, ef sjávarútvegsfyrirtækin nota skúffufyrirtæki t.þ.a selja áfram fyrir sig á hærra verði? Gerðist það ekki þannig í makrílnum?

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 14.3.2012 kl. 14:13

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það er nú einmitt það sem hægt er að kortleggja með alvöru eftirliti Ólafur.  Núna eru bara falsaðar skýrslur stimplaðar og afgreiddar á færibandi.  Alveg eins og efnahagsreikningar bankanna fyrir hrun

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 14.3.2012 kl. 14:27

3 identicon

Hafa íslensk stjórnvöld heimildir til að rannsaka bókhald enskra fyrirtækja?

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 14.3.2012 kl. 15:09

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Veit ekki, en SFO hafa veitt aðstoð.  Ég er nefnilega sannfærður um að viðskiptasiðferði er víðast hvar betra en hér á landi.  Og tjallinn virðist vera með gott eftirlit.  Síðan er það fælingarmátturinn í alvöru eftirliti sem má ekki vanmeta ásamt með mjög þungum viðurlögum.  Ég er ekki talsmaður mikilla ríkisafskipta en hér ríkir neyðarástand og þess vegna er það ólíðandi að það séu Íslendingar enn og aftur að vinna gegn hagsmunum okkar.  Veikja gengið og auka verðbólguna og auka efnahagsvandann.  Þegar allir ættu að vera að vinna að því saman að losa okkur út úr vandanum

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 14.3.2012 kl. 15:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband