Talandi um ráðherravæðingu

Ég hef harðlega gagnrýnt Alþingi fyrir lélega lagasetningu í gegnum tíðina þar sem stjórnvöldum og sérstaklega fagráðherrum er veitt ótakmörkuð heimild til að setja reglugerðir og útfæra hin aðskiljanlegustu lög.  Má segja að Alþingismenn hafi vanrækt þessa frumskyldu sína. Og ef menn halda  að núverandi stjórn sé eitthvað öðruvísi þá nægir að skoða nýjasta stjórnarfrumvarpið um stjórn fiskveiða. En í því kemur orðið ráðherra fyrir 148 sinnum.  Þetta segir mér að ef þetta frumvarp verður samþykkt þá sé endanlega búið að ríkisvæða sjávarútveginn hvað varðar afskipti ráðherra af stjórnun og eftirliti. Frumvarp Jóns Bjarnasonar kemst ekki í hálfkvist við þennan óskapnað hans Steingríms.  En það sem veldur mér samt mestum vonbrigðum eru viðbrögð þingmanna Sjálfstæðisflokksins.  Þeir sjá ekkert athugavert við þessi ríkisafskipti, en setja bara út á útfærsluna.  Pottana og upphæðir veiðigjaldanna.  Af hverju í ósköpunum staldra menn nú ekki við og reyna að hugsa fiskveiðistjórnunina upp á nýtt?  Í 40 ár, frá 1940-1980, var meðalþorskafli á Íslandsmiðum milli 400 og 500 þúsund tonn. Og þetta var á þeim tíma sem sóknin var óheft. Engar skyndilokanir, engar reglur um lágmarksstærðir og engar reglur um veiðarfæri. Það voru stundaðar Ólympískar veiðar.  Þessi staðreynd, að jafnstöðuaflinn hafi verið þetta mikill segir bara eitt og það er, að afrakstursgeta fiskimiðanna er 400-500 þúsund tonn af þorski.  Það er magnið, sem þessi úthagi stendur undir.  Því hafið er eins og afréttur.  Þolir bara ákveðna beit. Ef beitt er of mikið, þá drepast fiskar úr hungri.  Og ef beitt er of lítið, þá er afrakstursgetan vannýtt, sem er einmitt það, sem hefur gerst undanfarin ár. Afrakstursgeta fiskimiðanna hefur ekki verið nýtt. Og það hlýtur að teljast meiriháttar pólitísk mistök að það skuli gerast vegna afskipta stjórnmálamanna.  Allir, sem vit hafa á fiskveiðum segja, að ekki sé hægt að ofveiða stofna, ef eðlilegum varúðaraðferðum er beitt við veiðistjórn. Og með eðlilegum varúðaraðferðum er ekki átt við kvótasetningu tegunda, heldur sóknarstýringu og veiðarfærastýringu. Þegar slíkum aðferðum er beitt þá minnkar sóknin sjálfkrafa þegar stofnar eru í lægð og að sama skapi þá eykst sóknin þegar stórir stofnar koma inní veiðina eins og hefur alltaf gerst. Það þarf ekki annað en, að skoða gögn Hafró til að sjá þetta.  Og þá sést berlega hvernig stóru stofnarnir, sem komu inní veiðina eftir að kvótakerfið var sett á, hreinlega hurfu, en nýttust okkur ekki í aukinni veiði.  En það er eðlileg ráðstöfun náttúrunnar, að horfella tegundir þegar ætið er takmarkað.  Þetta samspil skilja allir sjómenn og fiskifræðingar örugglega líka.  En hér hafa vísindaleg rök lotið í lægra haldi fyrir sérhagsmunum fjársterkra útgerðarmanna, sem tókst að sölsa undir sig fiskimiðin með hjálp spilltra stjórnmálamanna.  Það sem stjórnmálaflokkar fengu að launum voru molar af borðum stórútgerðarinnar í formi styrkja.  Því það kostar, að halda völdum og stunda áróður eins og fjórflokkurinn gerir.  Hitt sem stjórnmálamenn fengu í gegnum kvótakerfið voru völd.  Völd til að deila og drottna. Útbýta ölmusu í formi byggðakvóta, skötuselskvóta og strandveiðikvóta. Þessi völd vilja þeir ekki missa og alls ekki Sjálfstæðisflokkurinn.  Þess vegna er gagnrýni hans máttlaus.  Samtryggingin tryggir þessu frumvarpi hans Steingríms nægt fylgi til að verða samþykkt.  Menn vilja nefnilega ekki hverfa aftur til frelsis í sjávarútvegi.  Ef menn meintu eitthvað með því, væri búið að afnema kvótakerfið hér fyrir 20 árum eða svo!
mbl.is Hækka gjaldið og þrengja að útveginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

p.s ég sleppti viljandi að leiðrétta innsláttarvillurnar svo minn sjálfskipaði málfarsráðunautur gæti látið ljós sitt skína.  Því ég hef lúmskt gaman af þessum athugasemdum. Og auðvitað hef ég metnað til að skrifa sem réttast mál. Skárra væri það nú

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 31.3.2012 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband