29.11.2012 | 15:45
Pólitískt útigöngufólk
Alkahólistar á örorku og aflóga stjórnmálamenn eiga það sameiginlegt að vera baggi á þjóðfélaginu. Alkarnir eiga sér þó málsbætur að þeir hætta yfirleitt að valda skaða þegar þeir hætta að drekka öfugt við pólitíkusana sem þá fyrst byrja að valda skaða þegar þeir ná ekki lengur kjöri í kosningum eða þegar þarf að losna við þá af öðrum ástæðum. Þá eru þeim iðulega réttir bitlingar til friðþægingar, eins og þegar heyi er hent í útigangshross, og skipaðir í alls konar stjórnir, nefndir og ráð, þar sem þeir eiga að sýsla með opinbera fjármuni og oftar en ekki er þetta fólk alls ekki starfi sínu vaxið eins og ný og gömul dæmi sanna. Eir (Vilhjálmur Vilhjálmsson), Íbúðalánasjóður (Jóhann Ársælsson og Guðmundur Bjarnason), Byggðastofnun (Kristinn H Gunnarson o.fl), FME (Jón Sigurðsson), Landsvirkjun (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) og ótal fleiri dæmi sem eru bæði þekkt og óþekkt.
Það þarf að láta fara fram rannsókn á allri skipan flokkanna í ráð, stjórnir og nefndir. Á hvaða forsendum er skipað og ekki síst þarf að leggja fyrir þetta fólk hæfnispróf. Hvaða erindi á til dæmis húsasmiður sem stjórnarformaður í Íbúðalánasjóði? FME á að athuga hæfi stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum. Hvernig stendur á því að Jóhann Ársælsson var ekki látinn taka pokann sinn? ÍLS er jú heildsölubanki! Við eigum ekki endalaust að þurfa að bæta skaðann sem þetta fólk ber ábyrgð á. Það á að skipa til verka samkvæmt hæfni en ekki flokksskírteini. Það er ekkert flóknara en það.
Ég hef enga samúð með aflóga stjórnmálapakki. Það má éta það sem úti frýs eins og útigangshrossin. Í fyllingu tímans verður þetta fólk tekið á hús og nýtur þá góðs atlætis eins og Eiður Guðnason og Sighvatur Björgvinsson. Þangað til á það að sjá um sig sjálft og hætta að valda skaða.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.