17.1.2013 | 00:36
Þöggun ríkir hjá Hafró
Hafró ber mesta ábyrgð á umhverfisslysinu í Kolgrafarfirði. Samt heyrist hvorki hósti eða stuna frá þeirri stofnun. Ætla mætti að þeim finnist þessi síldardauði ekki koma sér við. Og það er Jón Kristjánsson sem einn fiskifræðinga tjáir sig um þennan atburð af þekkingu vísindamannsins. Það er athyglisvert að Hafrannsóknarstofnunin brást ekki við á neinn hátt til að kanna hvað hefði gerst. Engar rannsóknir gerðar með hitamælingum eða súrefnismælingum á firðinum fyrr en viku eftir að óhappið varð. Það er ámælisvert. Hafró tók samt undir kenninguna sem Runólfur skipsstjóri í Ólafsvík kom með um að síldin hefði drepist úr kulda. Af því það fríaði þá ábyrgð! Þessi kenning reyndist della eins og Jón Kristjánsson benti strax á. Jón kom strax með þá kenningu að síldin hefði drepist úr súrefnisskorti og það reyndist rétt miða við sýnin sem á endanum var safnað. Og þessi súrefnisskortur orsakaðist af þeirri einu ástæðu að Hafró hefur þverskallast við að leyfa nógu miklar veiðar úr þessum stofni sem hefur haft vetursetu í Breiðafirðinum undanfarin ár. Jón reiknaði það út að Kolgrafarfjörðurinn gat aldrei rúmað þessi 300 þúsund tonn sem ekki mátti veiða af. Þessvegna brást náttúran við og grisjaði stofninn sjálf um 50000 tonn. Þessi 50 þúsund tonn koma engum að gagni og það er glæpur og ekkert annað. Hvenær ætla þingmenn að vakna til vitundar um heimskuna sem ræður för hjá Hafrannsóknarstofnun? Alþingi ræður þessu. Alþingi getur strax á morgun krafist endurskoðunar og úttektar á veiðiráðgjöf Hafró. Það verður að leita til óháðra aðila eins og Jóns kristjánssonar og fiskifræðinga í Rússlandi og Noregi sem skilja hvernig fiskstofnar bregðast við umhverfi sínu. Samspil fæðu og ytri skilyrða ráða því hvort stofnar eflast. Alls ekki friðun. Friðun getur þvert á móti haft verulega skaðleg áhrif á lífríkið. Þessum arfavitlausu friðunarkenningum verður að hafna sem hjávísindum. Það er nefnilega ekki víst að hafsvæðið í kringum Ísland verði jafn ákjósanlegt til hrygningar og uppvaxtar mikið lengur. Sjórinn er að hlýna. Nýjar tegundir eru að koma eins og makríll og tundra. Þetta gæti verið ástæða lítillar laxagegndar og svo er það sandsílið sem færist sífellt norðar. Við ráðum engu um þessar breytingar en við eigum að hafa vit á að bregðast við. Náttúruna ber að nýta en ekki friða engum til gagns.
Hægt að ýta síldinni ofan í skurð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.