5.4.2013 | 05:24
Sigmundur Davíð næsti forsætisráðherra
Ef einhverjum einum manni er hægt að þakka vinsældir Framsóknarflokksins núna, þá er það hinum unga formanni, Sigmundi Davíð. Þvert á allar hrakspár þá hefur hann aðeins vaxið og styrkt sig í sessi við hverja árás öfugt við hinn silfurskeiðardrenginn, Bjarna Benediktsson.
Og skýringin er einföld. Sigmundur hefur aldrei látið fortíð flokksins trufla sig í sinni pólitík. Hann hefur reynst stefnufastur með afbrigðum, rökfastur í umræðum og kurteis í gagnrýni sinni á andstæðingana. Og síðast en ekki síst þá hafa stefnumál Sigmundar átt samhljóm með þjóðinni. Þar ber náttúrulega hæst andstaðan við að ríkið bæri ábyrgð á icesave innistæðum Landsbankans, umsóknin um aðild að ESB og lausnir á skuldavanda heimilanna. Þetta þrennt skýrir fylgisaukninguna að mínu mati en ekki bara óljóst loforð um skuldaniðurfellingu.
En...Framsóknarflokkurinn er ekki bara einn maður. Það verðum við að gera okkur grein fyrir. Í flokknum eru ennþá spilltir hagsmunagæslumenn sem munu njóta góðs af kjörþokka Sigmundar Davíðs. Ef fram fer sem horfir að flokkurinn fái jafnvel hreinan meirihluta þá verður of seint að breyta atkvæðinu. Þá er ekki víst að hinn ungi formaður ráði neinu um stefnu flokksins í ríkisstjórn. Og víst er að Gunnar Bragi er hollari húsbónda sínum fyrir norðan heldur en flokksforystunni fyrir sunnan.
Af þeim ástæðum myndi ég aldrei kjósa Framsókn. Því sporin hræða. Og þótt trúðarnir Guðni og Bjarni hafi klofið sig frá höfuðbólinu um stund þá munu þeir snúa heim eins og barðir rakkar um leið og flokkurinn kemst til valda aftur. Slíkt er eðli framsóknarmanna.
En ef þjóðin vill gefa Framsóknarmönnum tækifæri þá verður það bara niðurstaða lýðræðisákvörðunar og við virðum hana. Og eitt er víst, að sama hverjir taka við og mynda hér ríkisstjórn þá verður það aldrei verra en sú martröð sem við höfum upplifað síðastliðin 4 ár, undir forystu Jóhönnu og Steingríms og Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins.
Þess vegna er ég pollrólegur. Og ég viðurkenni fúslega að Sigmundur Davíð hefur vaxið stórlega í áliti hjá mér. Og ég skulda honum afsökunarbeiðni fyrir að hafa tekið þátt í rætnum árásum á hann vegna fjölskyldutengsla hans. Henni er hér með komið á framfæri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.