Framtíð byggðar á Vestfjörðum

Ég hef miklar taugar til Vestfjarða enda bjó ég þar í 16 ár og þekki vel til afleiðinga kvótakerfisins í sjávarútvegi á neikvæða byggðaþróun í fjórðungnum.  Það er alveg sama hvað pólitíkusar segja, ástæðan fyrir hnignuninni er fyrst og fremst áhrif kvótakerfisins og sala á veiðiheimildum frá Vestfjörðum.  Þótt dæmi séu um að minni bátar hafi endurheimt hluta af þessum heimildum aftur í gegnum krókaflamarkskerfið þá á það eingöngu við um staði eins og Bolungarvík og Ísafjörð.  Aðrir staðir eru ekki svipur hjá sjón miðað við gullöld skuttogaraútgerðar á árunum 1980-1990.  Þessa sögu þekkja heimamenn vel.

En þessu er hægt að breyta.  Með því að heimamenn taki sér frumbyggjarétt til veiða og vísi í stjórnarskrárbundinn atvinnurétt þá er hægt að þvinga fram afnám kvótakerfisins.  Framtíð byggðar á Vestfjörðum er undir því komin að heimamenn fái viðurkenndan rétt sinn til að veiða þann fisk sem sækir á grunnslóðina fyrir vestan.  En það er ekki nóg að veiða.  Ráðstafa verður aflaverðmætinu með hagsmuni nærsamfélagsins að leiðarljósi. Annars verður engin breyting.

Til að það megi verða þá þarf að verða sátt um að útgerðin borgi 15% hráefnisgjald fyrir hvert veitt og selt kíló.  Þetta gjald verði tekið af óskiptu og greitt í sérstakan byggðasjóð við sölu aflans á markaði.  Alþingismenn fái enga aðkomu að ráðstöfun þessa sjóðs heldur verði sett lög sem tiltaki nákvæmlega í hvaða verkefni skuli ráðstafa þessu gjaldi.  Til dæmis í uppbyggingu innviða nærsamfélagsins eins og samgönguframkvæmdir og uppbyggingu skóla, heilsugæslu og öldrunarþjónustu.

Ef svona kerfi hefði verið sett á 2011, þá hefðu Vestfirðingar haft til ráðstöfunar 0.82 milljarða bara fyrir landaðan þorsk á svæðinu.  Ef allur afli er tekinn þá hefði þessi upphæð orðið um 1.0 ma  Og með því að auka aflann upp í 40-50 þúsund tonn sem er bara normal afli fyrir daga kvótakerfisins, þá erum við að tala um 2 - 2.5 milljarð á verðlagi ársins 2011.  Fyrir þá upphæð hefði verið hægt að ráðast í gerð varanlegra samgöngubóta milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.

Heildarþorskafli samkvæmt löndunarskýrslum nam 20.619.131 kílóum á svæðinu og ef við innheimtum hráefnisgjald sem nemur 15% af vegnu meðalverði á mörkuðum fyrir tímabilið 1/1  2011 til 1/1  2012 þá fáum við ~40 krónur sem útgerðir þyrftu að greiða til að fá að veiða og vinna hvert kíló af þorski.  Engar aðrar kvaðir yrðu lagðar á útgerðina.  Ekkert auðlindarentu kjaftæði sem enginn skilur og engum finnst glóra í.  En auðvita þyrftu fyrirtækin eftir sem áður að greiða skatta og skyldur sem áður.  Hráefnisgjaldið er aðeins hugsað sem eðlilegt afgjald fyrir hráefnið í vöruna sem þessi fyrirtæki eru að  framleiða.

Er eðlilegt að menn fyrir sunnan fari með fjárveitingavaldið þegar teknanna er aflað fyrir vestan?  Ég held ekki.  Við verðum að hugsa þetta allt upp á nýtt.  Höfnum græðginni og förum að hugsa útfrá hagsmunum heildarinnar og byrjum á að einfalda ríkisapparatið. Drögum úr miðstýringu og eflum valddreifingu.  Það tryggir betra þjóðfélag


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þetta kerfi kæmi alfarið í stað Byggðastofnunar.  Og Byggðastofnun gerð upp.  Enda er spillingin aðaleinkenni pólitískrar útdeilingar á fé.  Við höfum dæmin frá Fiskveiðasjóði og Byggðastofnun

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.4.2013 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband