4.5.2013 | 08:34
Pólitísk hugmyndafræði kortlögð
Fólk upp í Háskóla hefur verið að vinna við að kortleggja pólitíska hugmyndafræði eins og hún birtist í stefnu flokkanna sem buðu fram til Alþingiskosninga 2013. Hægt er að fræðast um þessa gagnvirku könnun hér. Þessi nálgun er ný að því leyti að pólitískar áherslur eru ekki bara settar upp á láréttan ás eins og hingað til heldur er bætt við 2 víddum sem gerir þessa afmörkun mun nákvæmari.
Og eins og sést á lóðrétta ásnum þá er ekki mikill munur á Bjartri Framtíð, Framsókn og Samfylkingunni. Og Píratar eru ekki langt undan miðað við hina hefðbundnu vinstri-hægri skilgreiningu. Þannig að það ætti að vera hægt að mynda ríkisstjórn á miðjunni með þáttöku 3 flokka og stuðningi Pírata, þótt þeir ættu kannski ekki beina aðild með skipan ráðherra.
Með þessu vinnst margt. Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum, öfgaflokkunum í íslenskri pólitík yrði haldið utan ríkisstjórnar, reynslan sem Framsókn skortir kemur frá Samfylkingunni og ESB aðildin yrði afgreidd með þjóðaratkvæðagreiðslu strax í júní. Eina sem gæti strandað á er persónulegt hatur Guðmundar Steingrímssonar á hinni nýju Framsókn vegna afstöðunnar til ESB, en þá er bara að ýta honum til hliðar. Varla láta aðrir flokksmenn Bjartrar Framtíðar, persónulegar ambitionir eins manns spilla þessu tækifæri til að vinna þjóðinni gagn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:55 | Facebook
Athugasemdir
Vinna þjóðinni gagn? Var Samfylkingin ekki að uppskera Íslandsmet í tapi í lýðræðislegum kosningum. Þú hirðir ekki um afstöðu þjóðarinnar en veltir þér upp úr persónulegu hatri Guðmundar Steingrímssonar. Er þjóðin algert aukaatriði í þínum huga?
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 4.5.2013 kl. 10:46
Elín, BF+SF-Framsókn fengu 34 þingmenn. 45.5 % kjósenda eru að baki þessara 34 þingmanna. Ef við bætum Pírötum við þá erum við með 37 þingmenn og 50.6% kjósenda. En ég var nú bara að velta upp mögulegum hugmyndafræðilegum samstarfsgrunni. Mér finnst að það sé eðlilegra að flokkar sem stutt er á milli á lárétta ásnum ættu undir öllum eðlilegum kringumstæðum auðveldara með að vinna saman en til dæmis flokkar eins og VG og Sjálfstæðisflokkurinn, þar sem annar leggur aðaláherzlu á félagshyggju og þar með ríkisvæðingu, en hinn á frjálshyggju. Og svo velti ég fyrir mér hvort önnur atriði vægi meir en þessi hugmyndafræðilegi munur. Þessa athugasemd þína um þjóðina, skil ég ekki. Þó mig gruni að þú sért í hópi þeirra sem teljið Sjálfstæðisflokkinn ótvíræðan sigurvegara kosninganna og allar ríkisstjórnir sem hugsanlegt er að mynda séu ekki lýðræðislegar án Sjálfstæðisflokksins. En þið eruð nú aðeins 26.7% kjósenda svo rökin falla um sjálf sig.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.5.2013 kl. 12:39
Þig grunar hvar þú getur sett mig í hóp og segir svo þið. Ertu ekki kominn fulllangt fram úr sjálfum þér?
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 4.5.2013 kl. 13:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.