Reykjavíkurflugvöllur er lúxus sem þarf að skera niður

330 þúsund manna örríki hefur ekki efni á 2 alþjóðaflugvöllum sem eru þar að auki ofan í hvor öðrum.  Nú þegar er búið að færa flugkennsluna og æfingaflugið til Keflavíkur og ákvörðun um að gera Keflavíkurflugvöll að miðstöð innanlandsflugs þarf að taka í tengslum við nýja flugstöð á Keflavíkurvelli og áður en farið verður í einhverjar meiriháttar fjárfestingar á Reykjavíkurvelli.

Fjarlægð núverandi flugstöðvar í Keflavík frá flugbrautunum  veldur miklum kostnaði.  Afgreiðslu fyrir innanlandsflugið verður því að byggja nálægt brautarendum þar en samt í tengslum við flughöfnina fyrir utanlandsflugið.  Svo þegar Landhelgisgæslan verður líka komin suðureftir þá ætti sjúkraflug ekki að vera lengur fyrirstaða þar sem hægt verður að flytja sjúklinga sem fluttir eru með sjúkraflugi, með þyrlu beint á Landspítalann.  Tafir ættu ekki að verða umtalsverðar með slíku fyrirkomulagi.

Kostirnir við að hafa eina miðstöð flugs á Íslandi eru ótvíræðir og samlegðaráhrif mikil.  Byggð á Suðurnesjum hefur lengi þurft að styrkja eftir það áfall sem svæðið varð fyrir með brottför hersins.  Færsla miðstöðvar innanlandsflugs er þessvegna landsbyggðarmál þvert á það sem þverhausarnir í embættismannakerfinu og aðrir sem ferðast á ríkispassa segja.  Öryggi mun ekki skerðast við það að loka reykjavíkurflugvelli.  Bæði Akureyri og Egilsstaðir geta og hafa verið notaðir sem varavellir þegar Keflavíkurvöllur hefur lokast.

Og síðast en ekki síst mun ferðaþjónustan njóta mun meiri tækifæra til að jafna ferðamanna dreifinguna um allt land og geta skipulagt betur ferðalög útlendinga um landið.  Það er of mikið um að ferðamenn séu neyddir til að taka bílaleigubíla og ferðast á eigin vegum.

Íslendingar sjálfir hafa dregið mikið úr flugi vegna þess hversu dýrt það er.  þegar flugið verður komið til Keflavíkur verður hægt að nota stærri vélar í Innanlandsflugið með fjölgun útlendra ferðamanna sem myndu nýta sér betri samgöngur.  Andófið sem Friðrik Pálsson stendur fyrir er þessvegna ekki byggt á neinu nema tilfinningarökum þess sem engar breytingar þolir. Við höfum þurft að axla nógar fjárhagslegar byrðar vegna slíkra manna.  Látum skynsemina ráða og skerum niður allan óþarfa kostnað.  Bíðum ekki eftir mannskæðu flugslysi í Vatnsmýrinni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Margt í pistlinum á vissulega rétt á sér. En það er alveg klárt að ekki verða notaðar stærri vélar í innanlandsflugið ef miðstöð þess færist til Keflavíkur því yfirgnæfandi líkur eru á að það muni leggjast af að mestu, eða öllu leyti. Því verður einfaldlega ekki þörf fyrir stærri vélar, sem hvort eð er eru margar óhagkvæmar á svona stuttum leiðum með ekki meiri farþegafjölda en nú er. Held að það sé í raun stærsta málið.

Annað sem gleymist eru áhrif á aðra og minni flugrekstraraðila sem hefur vaxið fiskur um hrygg í útsýnisflugi á undaförnum árum. Þessir sömu farþegar munu ekki fara til Keflavíkur til að sækja slíkt.

Erlingur Alfreð Jónsson, 17.8.2013 kl. 19:27

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Takk fyrir innlitið Erlingur.  Ég gef mér að vaxandi fjöldi ferðamanna muni skapa þörf fyrir stærri vélar , alla vega á milli Akureyrar og Keflavíkur.  Í dag er verið að fljúga 50 farþegum 6-7 sinnum á dag sem er of dýrt.  Stærri vélar í innanlandsflug,skapa svo grundvöll fyrir flug til Færeyja og Grænlands, sem við eigum tvímælalaust að stórauka samskipti við.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 17.8.2013 kl. 19:42

3 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þú virðist gefa þér að allar, eða flestar ferðir séu fullsetnar 50 farþegum stóran hluta ársins og þess vegna sé best að safna þeim bara saman í færri ferðir á dag og fljúga stærri vél frá Keflavík í staðinn. Ég er ekki viss um að reiknimeistarar flugfélaga taki undir svona pælingar enda fækkar ferðum innanlands yfir vetrarmánuðina og þá er ekki gott að hafa stærri vélar að fljúga hálftómar lítið eitt lengri leið en nú er farin. Að sama skapi er ekki gott að hafa vélar það stórar að þær nýtist illa eða alls ekki á aðra minni áfangastaði.

Flugfélag Íslands prófaði að bjóða upp á tengingu beint á Keflavík fyrir nokkrum árum, en ég sé ekki á vefsíðunni þeirra að boðið séu upp á það lengur.

Eg það á heldur aldrei að segja aldrei.

Erlingur Alfreð Jónsson, 17.8.2013 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband