11.9.2013 | 14:28
Pólitískar ofsóknir í Háskólanum
Í annað sinn á stuttum tíma kemst Háskóli Íslands í fréttir vegna nornaveiða á hendur starfsmönnum við skólann. Í fyrra sinnið gerðu öfgasamtökin Vantrú, aðför að stundakennara við Guðfræðideild Háskólans, með það að markmiði að honum yrði vikið úr starfi og nú hafa öfgafemínistar fyrir hönd Kynjafræðideildar Háskólans, komið í veg fyrir ráðningu hins stórhættulega dónakalls, Jóns Baldvins.
Og þegar forviða landsmenn spyrja hvað sé að þá eiga stjórnendur Háskólans engin svör. Hvernig má það vera? Ég held að svarið liggi í áratuga fjársvelti stofnunarinnar sem olli því að Háskólinn afsalaði sér sjálfstæði sínu. Annars vegar til stjórnmálaflokkanna og hins vegar til viðskiptalífsins. Með þessu hætti Háskólinn að vera ímynd hins akademíska hlutleysis og gerðist talsmaður þeirra sem héldu um budduna.
Áhrif stjórnmálaflokkanna koma hvergi sterkar fram en í Félagsvísindadeildinni. Þar eru prófessorar og aðjúnktar ráðnir vegna stjórnmálaskoðana en ekki vegna menntunar eða fræðistarfa. Þetta held ég að sé vandinn í hnotskurn.
Ef Háskólinn á að endurheimta virðingu sína þá þarf að skera á tengsl Háskólans við hagsmunasamtök eins og LÍÚ og leggja niður stöðu sérfræðings í kvótakerfum og taka algerlega fyrir að virkir þátttakendur í stjórnmálaumræðunni séu jafnframt stjórnendur innan hinna mörgu sérsviða. dæmi: Baldur Þórhallsson aðstoðardeildarforseti Félagsvísindasviðs og varaþingmaður Samfylkingarinnar.
Þessar kröfur eiga náttúrulega ekki við um gestafyrirlesara eða stundakennara eða aðra sem fengnir eru til að miðla af þekkingu og reynslu. Ég er aðeins að tala um að gerð verði sú krafa að stjórnendur séu ekki sínkt og heilagt að blanda sér í hatrammar pólitískar deilur. Og fái þeir leyfi til að veita stjórnvöldum ráðgjöf þá verði það eingöngu á fræðilegum grunni en ekki pólitískrar stefnumörkunar. dæmi: aðkoma Daða Más Kristóferssonar Deildarforseta Félagsvísindasviðs, að veiðigjaldafrumvarpi Steingríms J.
Og síðast en ekki síst þarf Háskólinn að endurskoða námsframboð sitt og aðlaga að raunverulegri þörf þjóðfélagsins en ekki að þörfum nemenda. Það á ekki að vera sjálfsagt mál fyrir alla að geta fundið bara eitthvað til að stúdera og eyða þannig dýrmætum resourcum í fánýti. dæmi, Kynjafræðin innan Félagsvísindasviðsins. Hvað höfum við með kynjafræðinga að gera? Hvað geta þeir lagt af mörkum til að auka hag þjóðfélagsins? Ég sé það ekki. Og sú reynsla sem komin er af þessu gæluverkefni Vinstri Grænna forréttinda femínista er bara til bölvunar. Kynjuð hagstjórn og kynjakvótar eru ekki leiðin til jafnaðar. Og mannvonskan sem talsmenn femínista hafa tamið sér eykur sundrunguna í þjóðfélaginu. Með því að fella þetta námsefni inní nám í félagsfræði og mannfræði þá má fækka starfsmönnum/kennurum og nemendum og þar með er hægt að nýta hið takmarkaða fjármagn betur.
Vandinn innan Háskólans er ekki skortur á mannréttindum. Vandinn er skortur á fagmennsku. Sem birtist í því að persóna eins aukaleikara, Jóns Baldvins, er notuð í valdaátökum innan Félagsvísindasviðs Háskólans.
Kristínu Íngólfsdóttir rektor er vissulega vandi á höndum. Er Háskólinn sjálfstæður eða er hann undir hæl fjárveitingavaldsins? Hvað Kristín gerir fer greinilega eftir því hvert svarið við þeirri spurningu er.
Jón Baldvin skoðar málshöfðun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.