Með heimskulegri þingmálum

Björt Framtíð vill auðvelda erlendum ríkjum að njósna um Alþingi.  Þingsályktun um að Alþingi nýti sér samfélagsmiðla til að auka upplýsingaflæði er þjóðhættuleg og greinilegt að þetta fólk hefur ekki mikinn skilning á hættum internetsins.

Í staðinn fyrir að hvetja til aukinnar notkunar ættu yfirvöld að hvetja til þess að opinberir aðilar og stofnanir setji reglur sem banni notkun og aðgang að þessum miðlum í vinnunni.  Hvað fólk gerir í eigin tíma kemur engum við en það er orðið brýnt að aðilar vinnumarkaðarins taki þetta sérstaklega fyrir.  Ég er viss um að afköst myndu stóraukast og þar með framleiðni ef fyrirtæki myndu banna aðgang að Facebook í vinnunni. Og það myndi draga úr yfirvinnu því það gefur auga leið að þau verk sem sitja á hakanum vegna fésbókarsýki verður að vinna utan hefðbundins vinnutíma.

Og svo er eins og þetta fólk í Bjartri Framtíð átti sig ekki á því að facebook, twitter og youtube eru erlendar gagnaveitur og allt sem þar er sett inn er sýnilegt öllum heiminum en ekki bara einhverjum þröngum kunningjahóp.  Og það ættu menn að þekkja að þegar eitthvað er orðið hluti af tilverunni þá veldur sérhver truflun á þeim veruleika miklum óróa.  Um daginn þegar fésbókin lá niðri skapaðist glundroði hjá þeim hluta þjóðarinnar sem er orðin háð þessum miðli.  Er þá ekki nær að einhver fari af stað með íslenskan samfélagsvef?  Vef sem væri bara aðgengilegur þeim sem hafa íslenska IP tölu. Það er eina rökrétta svarið við njósnum stórfyrirtækja á netinu.

Það eina sem er  nýtilegt úr tillögu Bjartrar Framtíðar er að Alþingi móti stefnu um notkun íslenskra stofnana á samfélagsmiðlum með það fyrir augum að draga stórlega úr notkun opinberra aðila á þessum miðlum í nafni þeirra stofnana sem þeir vinna hjá.


mbl.is Alþingi verði sýnilegra á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú segir nokkuð. Kannski er markmiðið að láta fólk kjósa beint í gegnum facebook. Þá getur það ekki lengur sniglast um með atkvæðið sitt í pappírsformi. Sömuleiðis eru peningar á útleið. Alveg ástæðulaust að láta fólk valsa um með seðla án eftirlits.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 31.10.2013 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband