9.11.2013 | 00:23
Það sem Sjálfstæðismenn skilja ekki
Nú er mikil gerjun í borgarpólitíkinni og fimmflokkurinn hugsar sér gott til glóðarinnar að ná til sín óánægjufylginu sem Jón Gnarr lætur eftir sig. En þetta fylgi mun ekki snúa til baka meðan engin endurnýjun á sér stað á listunum. Fólkið sem nú sækist eftir öruggum sætum á lista Sjálfstæðisflokksins boðar ekkert nýtt. Þessar ungu konur sem menn binda vonir við eru aldar upp innan flokksins og koma fullmótaðar með flokkslínuna innprentaða úr Valhöll. Að hlusta á Hildi Sverrisdóttur og Áslaugu Friðriksdóttur er eins og að hlusta á Hönnu Birnu afturgengna. Sömu klisjurnar sömu frasarnir um þetta samtal við borgarbúa. Gallinn er bara að þær vilja ekki hlusta. Borgarbúar tóku Besta flokknum eins vel og raunin varð vegna þess að þar stigu fram venjulegir borgarar tilbúnir að láta gott af sér leiða án þess að þurfa að standa einhverri flokksmaskínu skil gerða sinna. Fleiri og fleiri hafna flokkspólitíkinni og gera kröfu um að kjörnir fulltrúar vinni allir sem einn að hagsmunum borgarbúa. Það er galið að greiða 15 fulltrúum laun en svo eru það bara 8 sem vinna alla vinnuna og bera alla ábyrgðina! Tökum upp persónukjör í borginni og minnkum yfirbygginguna. Ef allir vinna saman má fækka borgarfulltrúum niður í 7 og færa sjálfsákvörðunarrétt íbúanna útí hverfin. Hverfin ættu að ráða meiru um hvernig fjármagnið er nýtt innan hverfanna í réttu hlutfalli við íbúafjölda. Þetta skilja ekki Sjálfstæðismenn og þess vegna eru þeir dæmdir til að staðna í 25% fylgi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.