Guðrún frá Lundi, Magnea frá Kleifum, Kristmann Guðmundsson

Yfirkúltúristi Íslands biðlar til þjóðarinnar að velja fyrir sig bókmenntakanónu.  Valið á að vera ópersónugreinanlegt samkvæmt skilmálum akademíunnar en samt vill eins manns akademían veita verðlaun!  Ópersónugreinanlegir þáttakendur munu ekki gera tilkall til verðlauna, það gefur auga leið.

En vonandi fá nú mest lesnu höfundar landsins samkvæmt útlánaskýrslum bókasafna, uppreisn æru. Guðrún frá Lundi, Magnea frá Kleifum og Kristmann Guðmundsson hafa löngum glatt hug og hjarta íslendinga þótt enginn vilji gangast við því að hafa lesið slíkt léttmeti. Slík hafa áhrif bókmenntasnobbsins verið,  sem riðið hefur húsum í Ríkisútvarpinu allt frá tímum Margrétar Indriðadóttur til Egils Helgasonar.

En þekki ég Egil rétt þá mun það ekki gerast.  Þar sem tillögurnar verða ópersónugreinanlegar þá eru hæg heimatökin að velja viðeigandi höfunda á listann.  Sannkallaðar kanónur.  Dettur mér þá náttúrulega fyrst í hug Thor Vilhjálmsson og Grámosinn glóir.   Aðrir sem munu ná inn verða Halldór Kiljan, Sigfús Daðason, Hannes Pétursson, Snorri Sturluson, Steinn Steinarr, Megas, Davíð Stefánsson,  Jónas Hallgrímsson, Einar Ben, Jón Kalman Stefánsson, Gunnar Gunnarsson, Jóhann Sigurjónsson, Jón Helgason,  Jökull Jakobsson og Illugi Jökulsson, Hrafn Jökulsson og Elísabet Jökulsdóttir og svo náttúrulega Sjón!  Baggalútur mun svo fá viðurkenningu fyrir frumleika.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Svo þegar í ljós kemur að aðeins 1 kona er á listanum þá verða feministarnir brjálaðir og Egill verður neyddur til að lýsa valið ómerkt og gera í staðinn fléttulista ala VG. Þá munum við sjá nöfn höfunda eins og Svövu Jakobsdóttur, Steinunnar Sigurðardóttur, Kristínar Mörju Baldursdóttur, Auðar Övu, Ólafar frá Hlöðum, Huldu, Torfhildar Hólm, Vilborgar Dagbjartsdóttur og uppáhaldsrithöfundarins míns, Guðrúnar Evu Mínervudóttur.

Við þetta nýja val mun reiðin sjatna en kanónan mun ekki hafa tilætluð áhrif í bókmenntaumræðunni nema til að minna okkur á að bókmenntaformið er síbreytilegt og fásinna að flokka bókmenntaverk í góð og slæm verk. Þjóðfélag í mótun kallar alltaf á nýjar og nýjar sögur og ljóð. Fáir samsama sig Bjarti í Sumarhúsum í dag en fleiri skilja Hlyn Björn í 101 þótt báðir séu andhetjur síns tíma

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 14.3.2014 kl. 00:50

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gleymdir að telja upp Sigmund Erni.

Verðlaunin eru annars bara happadrætti þar sem sér umslög með nafni viðkomandi verða dregin úr potti.

Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur úr þessum æista, en ég held að það verði nokkuð fyrirsjáanlegt. Þó eru einhver kynslóðaskipti þarna.

Það er nokkuð klárt að femínistafélög sjá til þess að blása til átaks um að kjosa konur aín á meðal burtséð frá gæðum. Þannig er nú spuna og þrýstihópasamfélagið okkar.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.3.2014 kl. 09:35

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég hefði í raun miklu meiri áhuga á að vita hverjir tilnefndu hvaða verk. Því ég held að bókmenntasmekkur segi heilmikið um persónuleika manna og gáfnafar almennt. En að því gefnu að menn séu heiðarlegir. Margir þykjast þess umkomnir að fjalla um bækur sem þeir hafa aldrei lesið. Hafa kannski lesið bókadóma eða heyrt umföllun. Slíkt fólk mun fagna ópersónugreinanlegri tilnefningu.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 14.3.2014 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband