11.4.2014 | 22:34
Skrefi nær samruna RÚV og Þjóðleikhússins
Með ráðningu leikhúsmannsins Magnúsar Þórðar í stöðu útvarpsstjóra aukast líkur á meira samstarfi leikhúss og útvarps. Nú þarf bara að koma útvarpsmanni að í Þjóðleikhúsinu þegar Tinna hættir og þá verður hægt að renna þessum 2 ríkisstofnunum saman í eina öfluga menningarmiðlun. Samlegðaráhrif stjórnunar og starfsmanna eru augljós og eins mun stoðþjónusta allskonar nýtast betur í sameiginlegri stofnun en ef stofnanirnar eru 2. Leikmunadeild, förðunardeild, hljóðdeild og búningadeild og svo náttúrulega hin lifandi framsetning efnis. Enda eru menntaðir leikarar besta útvarpsfólkið og hægt að bjóða góðu fólki meira starfsöryggi í sameinaðri stofnun en nú er hægt að gera og margoft hefur komið upp á á undanförnum árum þar sem fagfólki er sagt upp og afleiðingarnar alltaf bitnað á fagmennskunni bæði í útvarpi og leikhúsinu. Enda hefur orðið greinilegur atgervisflótti úr Þjóðleikhúsinu á síðustu árum undir stjórn Tinnu Gunnlaugsdóttur. Margir tala um leikhús þjóðarinnar sem fjölskyldufyrirtæki hennar og fjölskyldu Arnars Jónssonar. Ég tek ekki afstöðu til þess en hitt er staðreynd að allir okkar beztu leikarar eru ekki fastráðnir í Þjóðleikhúsinu. Þessu er vel hægt að breyta með samruna Þjóðleikhússins og Ríkiútvarpsins. Þar sem tekist yrði á við breytta tíma með fjármagni RUV og mannauði leikhússins. Það getur ekki klikkað. Vonandi grípa menn þessa hugmynd á lofti áður en ákvarðanir verða teknar um sölu útvarpshússins. Því húsnæði Þjóðleikhússins er líka óhentugt og stenst ekki nútímakröfur. Þess vegna er lag að hugsa þetta allt upp á nýtt núna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.