8.11.2015 | 14:22
RÚV - EKKI allra
Ég legg til að RÚV taki upp nýtt slagorð. RÚV - Gerum betur. Núverandi slagorð virka ekki. RÚV - Annað og meira og RÚV okkar allra hafa engan hljómgrunn meðal okkar sem reynum að neyta þess efnis sem í boði er. Ef RÚV væri hagnaðardrifin stöð þá myndu menn standa faglega að dagskrárstjórn til að halda í áhorf og auka það. Þessu er öfugt farið með dagskrárstjóra RÚV. Honum er að takast að flæma nauðungaráskrifendur til annarra efnisveitna með óvandaðri dagskrárstjórn. Hann skilur ekki að dagskrá þarf fyrst og fremst að vera áreiðanleg og í öðru lagi samfelld. Þegar dagskrárliður er auglýstur þá viljum við ganga að honum vísum. Og þegar sýndar eru myndir eða þættir í fleiri en einum hluta, þá skiptir máli að þeir séu sýndir í fyrirfram auglýstri dagskrá. Þessu er ekki fylgt hjá núverandi dagskrárstjóra. Reyndar er dagskrárstjórn svo ábótavant að mér er til efs að hann hirði um áhorf. Um það vitna óteljandi dæmi. Hið nýjasta er endursýning á seinni hluta myndar í 2 hlutum sem sýnd var fyrir ekki nema rétt 2 vikum síðan! Og svo sé ég að ekki er gert ráð fyrir að sýna síðasta þáttinn í seríunni um Bonderöven sem hefur verið á dagskrá undanfarna sunnudaga. Reyndar hefur sá þáttur mátt sæta tilhliðrun vegna beinna útsendinga frá íþróttaviðburðum sem virðast njóta sérstakrar velvildar hjá fólkinu sem heldur að það eigi RÚV. Þessu fólki sem biður um vinnufrið undir slagorðinu RÚV , okkar [starfsmannanna] allra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.