14.3.2016 | 13:47
Nýtt hlutverk sjúkrahúss í Fossvogi
Í síðasta pistli varpaði ég fram hugmynd um, að sameining Landspítala og Borgarspítala yrðu látnar ganga til baka. Við það myndu ýmis tækifæri til bættrar heilsugæslu opnast. Þrátt fyrir einhvern hagræðingar ávinning í yfirstjórninni þá hefur sameining þessara tveggja stærstu spítala þjóðarinnar dregið úr gæðum þjónustunnar og það hlýtur að vera áhyggjuefni. Hvernig tökum við á því? Jú við látum sameininguna ganga til baka.
Ég tek það fram að hér er um algera leikmannsþanka að ræða. En ég er heldur ekki að fjalla um læknisfræði heldur pólitíska stefnumótun, svo ekki blanda því saman.
Fyrir það fyrsta þá er ég á móti miðlægum risaspítala á kostnað sjúkraþjónustu í dreifbýlinu. Ég vil að nú þegar verði heilbrigðisþjónustu úti á landi komið í sama horf og var fyrir áherslubreytinguna, sem varð þegar ákveðið var að hér skyldi bara vera eitt aðalsjúkrahús sem þjóna skyldi öllu landinu. Þessi miðstýrða hugsun er kannski hagfræðilega réttlætanleg en pólitískt séð þýðir hún svo mikla byggðaröskun með tilheyrandi óhagræði að hún er ekki verjandi. Og það að stærsta sveitarfélagið á landinu hafi bara hætt að reka sjúkrahús bara með einu pennastriki var gerræði af verstu sort og hreinlaga beint gegn landsbyggðinni svo sá draugur sé nú enn og aftur endurvakinn.
Með því að draga þá ákvörðun til baka og skilgreina Borgarspítalann upp á nýtt, sem landshlutasjúkrahús, skapast sóknarfæri í öflugri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Samfara því þyrfti að finna sérþjónustunni sem nú er rekin í Fossvogi nýjan stað. Enda ekki hlutverk almenns sjúkrahúss að vera öldrunar og líknardeild fyrir gamalt fólk eða sem sérstök heyrnalækningardeild o.s.frv. Það er vel hægt að koma ýmsum sérgreinalækningum alfarið undir einkarekstur svipað og nú þegar er gert. Til að mynda hjá Læknastöðinni í Glæsibæ. Og auðvitað á að sinna gamla fólkinu á sérhæfðri þjónustustofnun, en ekki á almennri legudeild í ofnýttum spítala. Þannig að breytt rekstrarfyrirkomulag er bara spurning um pólitíska ákvörðun en ekki spurning um pening eða tæki eða nýbyggingar.
Fossvogsspítali ætti að vera forgangsmál stjórnmálaafls sem vill styrkja sig í sessi í borginni. Hverjir sjá það? Eða má ekki lengur hugsa útfyrir kassann í pólitíkinni. Snýst hún aðeins um dægurmál og sparðatíning?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.