Sigmundur er sterki aðilinn í ríkisstjórninni

Þótt margir tali eins og Bjarni Ben sé sterki ráðherrann í ríkisstjórninni þá er það ekki svo í raun. Þrátt fyrir að hafa ekkert uppeldisbakland í Framsóknarflokknum þá hefur Sigmundi tekist að styrkja sig verulega í sessi og er orðinn óumdeildur húsbóndi á framsóknarheimilinu.  Honum hefur á 2 árum, tekist að flykkja öllum flokksmönnum og þingmönnunum, á bak við sig í öllum helstu málum. Það er aðeins á færi sterkra leiðtoga. Meira að segja gamla settið, Páll á Höllustöðum og Sigrún kona hans fylgja hinum unga foringja eins og spök lömb. Og þegar mál eru skoðuð þá talar Framsókn máli almennings í landinu í 4 af 5 helztu ágreiningsmálum ríkisstjórnarinnar meðan Sjálfstæðismenn draga taum sérhagsmuna í sömu 4 af 5. Þannig að ef Framsókn slítur þessu stjórnarsamstarfi þá munu þeir koma til með að ráða því hvaða mál verða á dagskrá í næstu kosningum. Þetta vilja sjálfstæðismenn alls ekki og þess vegna getur Sigmundur í raun beygt þá til hlýðni í þeim málum sem hann telur mikilvægust.

Máttleysisleg viðbrögð Kristjáns Þórs sanna þetta.  Ef sjálfstæðisflokkurinn hefði raunverulegan styrk þá gæti Sigmundur ekki hlutast til um málefni heilbrigðisráðherra með þeim hætti sem hann hefur gert og komist upp með. Fyrst Bjarni lúffaði í gær þá mun Sigmundur sækja það með meiri þunga að framkvæmdaáform við Hringbraut verði endurmetin með það fyrir augum að nýju sjúkrahúsi verði fundinn annar og betri staður.  Til dæmis á Vífilstöðum. Annars væri hann ekki að taka á móti dönsku arkitektunum sem hafa boðið fram krafta sína.

Og ég trúi að hann geti náð breiðri sátt um þessi nýju áform.  Sífellt fleiri eru nú að opna augun fyrir því að endurskoða þessi áform á landspítalalóðinni. Til dæmis er hægt að byggja strax við Borgarspítalann gamla þá meðferðaraðstöðu sem brýnust er og hrófla í leiðinni upp húsi fyrir jáeindaskannann hans Kára. Sjúkrahótelið er ekki forgangsmál eins og sumir segja. Að byggja sjúkrahótel er bara bókhaldsbrella til að spítalinn fái meira til sín af fjárlögum.  Það má bíða eða jafnvel sleppa því alveg. Í fyrsta flokks spítala er fólki hjúkrað til heilsu á sjálfu sjúkrahúsinu en ekki sent út í bæ nánast beint af skurðstofunni. 

Og endurmat þarf ekki að þíða seinkun ef rétt er staðið að málum. Þetta er hægt að gera núna strax.

1. Byggja við og ofan á sjúkrahúsið í Fossvogi

2. Fara í nauðsynlegar endurbætur á húsakosti við Hringbraut

Samhliða þessu verði farið í hraðhönnun á nýjum spítala í samvinnu við dönsku arkitektana og gerð framkvæmdaáætlun sem tryggi að það sjúkrahús geti risið á 6-8 árum.  Með því að byggja á Vífilstöðum er hægt að byggja bara það sem þarf miðað við áætlanir til næstu 10 ára og halda öllu opnu varðandi stækkunarmöguleika.  Ef menn halda áfram ruglinu við Hringbraut þá verður samt í fyllingu tímans að byggja nýjan spítala á nýjum stað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband