20.10.2018 | 13:07
Ofurmennið Dagur
Borgarstjórinn í Reykjavík er æðsti yfirmaður starfsmanna Reykjavíkurborgar. Borgarstjóri er ráðinn af borgarstjórn og getur verið borgarfulltrúi. Sé hann borgarfulltrúi hefur hann skyldur sem slíkur einnig.
Borgarstjóri gegnir þremur meginhlutverkum. Hann er framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar, opinber fulltrúi Reykjavíkurborgar og pólitískur leiðtogi meirihlutans. Öllum þessum hlutverkum fylgja skyldur, bæði fastar og valkvæðar.
Borgarstjóri hefur rétt til setu á fundum nefnda sveitarfélagsins með málfrelsi og tillögurétt. Hann er prókúruhafi borgarsjóðs. Hann undirritar skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna borgarinnar, lántökur og aðrar skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykki borgarstjórnar þarf til. Borgarstjóra er heimilt með samþykki borgarstjórnar að veita öðrum starfsmönnum borgarinnar prókúru.
Borgarstjóri fer jafnframt með eignarhluta Reykjavíkurborgar í B-hluta fyrirtækjum. Hann er formaður almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins og er fulltrúi borgarinnar í SSH (Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu) og SHS (Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu).
Hvernig getur venjulegur maður sinnt öllum þessum störfum svo vel sé?
Svarið er: Hann getur það ekki
Á meðan venjulegt fólk veikist þá örmagnast ofurmennin. Ég hef auðvitað fulla samúð með Degi vegna þess hvernig komið er fyrir honum en á hina röndina þá má hann sjálfum sér um kenna. Það er enginn ómissandi ekki heldur hann. Auðvitað er hann límið í borgarstjórnarmeirihlutanum. Án hans fellur þessi meirihluti eins og spilaborg. En..so what! Það eru 20 aðrir kjörnir borgarfulltrúar sem bera jafna ábyrgð. Reykvíkingar eru vanir lélegum borgarstjórum. Dagur er engin undantekning. Ég get talið þá upp sem ekki stóðu undir væntingum. Villi, Ólafur F. Jón Gnarr og núna Dagur B. Allir þessir menn reyndu að sinna starfi sem þeir réðu ekki við og er allt of yfirgripsmikið. Er ekki allt í lagi þó Eyþór fái að spreyta sig?
Þórólfur og Egill réðu við starf borgarstjóra enda báru þeir ekki jafnframt ábyrgð sem kjörnir fulltrúar. Er ekki augljóst að það er hið eina rétta. Að borgarstjóri verði framvegis ráðinn á faglegum forsendum með meirihluta atkvæðum allra borgarfulltrúa og það verði þeirra fyrsta verk áður en þeir rotta sig saman í meirihlutasamstarf sem er ekkert annað en málamiðlun um vondar ákvarðanir
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.