11.1.2019 | 03:45
Kerfið hvetur til brottkasts
Félag Skipsstjórnarmanna átelur Fiskistofu fyrir ákvörðun hennar um, að svipta Kleifabergið leyfi til fiskveiða í 12 vikur vegna þess að sannað þótti, að umtalsvert brottkast hefði átt sér stað á þessu skipi til fjölda ára. En skipstjórarnir segja líka:
Jafnvel þótt umgengni um auðlindina hafi tekið gríðarlegum breytingum til batnaðar með fullkomnari tækjum og búnaði þá er það og mun verða óhjákvæmilegur hluti af fiskveiðum á Íslandsmiðum að upp komi tilvik þar sem um brot er að ræða samhvæmt túlkun Fiskistofu.
Staðreyndin er sú að ef í áhöfnum allra skipa væri einn skipverji sem væri af sömu hvötum og heimildarmaður Kveiks að safna gögnum um brottkast sem hann kæmi síðan til stjórnenda Kveiks til að umfjöllunar þá liði ekki á löngu þar til fá skip ef, þá nokkurt væri að veiðum.
Og nú skulu menn sperra eyrun og hlusta! Þarna eru starfandi skipsstjórar á flotanum að viðurkenna að hafa fyrirskipað einhvers konar brottkast. Allir fyrir einn og einn fyrir alla. Og þeir eru bálreiðir vegna þess að einn úr áhöfn Kleifabergs klagaði. Og allir vita sem vilja vita að svona hefur þetta verið alla tíð. Og fiskveiðistjórnunarkerfið sjálft hvetur til brottkasts til að hámarka verðmæti þess takmarkaða afla sem má veiða. Það er staðreynd. Og vandlætingin hjá eftirlitsaðilum Fiskistofu og Hafró er einber hræsni.
Úrskurður Fiskistofu er um margt athyglisverður. Fyrir það fyrsta þá eru gögnin eldgömul og brotin fyrnd. Í öðru lagi þá er það fáránlegt að refsa "skipinu" fyrir brot sem útgerðarmaður og skipstjóri bera alla ábyrgð á. Hérna er greinilega verkefni fyrir löggjafann að taka á.
Þess vegna legg ég til, að alþingi fari nú yfir þessi mál enn og aftur og girði fyrir þessar endalausu heimildir sem í reglugerðunum felast. Góð löggjöf þarfnast ekki nánari (lesist geðþótta) útfærslu ráðherra hverju sinni. Lögin eiga að vera skír.
Fyrir brot á þeim ætti miklu frekar, að leggja sektir á útgerðina í stað þess, að svipta skip veiðileyfi eins og nú er mælt fyrir í reglum Fiskistofu.
Fordæmir viðbrögð Fiskistofu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.