28.2.2019 | 23:23
Hvað er að frétta af Siðanefnd Alþingis?
Af hverju skyldi nú traust til Alþingis mælast svona lágt? Allt undir 50% er óásættanlegt fyrir kjörna fulltrúa þjóðarinnar. Gæti verið að skýringin á tortryggninni sé vegna sjálftöku þingmanna eða vegna fyllirísrauss Miðflokksins á Klausturbar eða vegna vandræðagangs forseta þingsins á að tækla það mál? Eða kannski vegna alls þessa?
Eitt er víst að alþingi er ekkert að gera í því að efla traust almennings gagnvart störfum þess. Enda er stjórnarskráin í gíslingu flokkanna. Afleiðingarnar eru að lýðræði er fótumtroðið. Þrígreining valds er hér bara að nafninu til og sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu er akkúrat jafn mikið og 12. ráðherrann, sem er titlaður forseti Alþingis, leyfir. Og 12. ráðherrann er skipaður í embættið af ríkisstjórn hverju sinni til þess að sjá um að þingið sé aðeins afgreiðslustofnun mála sem koma frá ríkisstjórninni. Þetta sætta þingmenn sig við vegna þess að þeir fá vel borgað fyrir litla vinnu og enga ábyrgð. Enda harðneita þeir að segja af sér þingmennsku þótt almenningur krefjist þess og siðareglur ætlist beinlínis til þess.
Ég veit ekki hvað almenningur getur gert til að þrýsta á um nýja stjórnarskrá. Ég held að það þurfi alvöru þjóðargjaldþrot eða hersetu erlends ríkis. En stjórnmálamenn eru löngu komnir fram yfir síðasta söludag. Þeir geta haldið sínar skrípakosningar og haldið áfram bullinu og þvaðrinu og lyginni og ráðið sér rándýra PR þjóna, en allt er þetta sýndarmennska. Pólitík á Íslandi hefur aldrei snúist um almannahag og að þjóna umbjóðendum. Þetta fólk sem kemst á framboðslista er þar af einni ástæðu og aðeins einni. Það er öruggt að það gerir ekkert nema styðja við hagsmuni elítunnar og þeirra sem hafa tekið allt fémætt hér á landi til eigin nota. Kannski bæta þeir samt við nýrri grein í gömlu stjórnarskrána og hún mun hljóða svona:
Allar auðlindir skulu vera í einkaeigu. Auðmenn skulu undanþegnir öllum sköttum hér á landi gegn því að þeir haldi áfram að kaupa upp innviði landsins svo sem; Vegi, fjarskiptanet, flugvelli, ferðamannastaði, alla veitustarfsemi og orkuframleiðslu. Einnig skulu auðmenn fá einkarétt á heilsutengdri ferðaþjónustustarfsemi og rekstur sjúkrahótels verður um alla framtíð í höndum Ásdísar Höllu og fjölskyldu hennar.
Traust til Alþingis minnkar mjög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.3.2019 kl. 11:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.