22.3.2019 | 10:48
Kvótabörnin sem landið erfa og makrílinn eiga
Í stjórnmálum er gjarnan talað um smjörklípu, þegar athygli er viljandi beint að aukaatriði, til að koma í veg fyrir umfjöllun um stærri og afdrifaríkari ákvarðanir. Þannig átti að nota dóm Mannréttindadómstólsins til að fela afgreiðslu 3. orkupakkans. En þetta á ekki við um Kristján Þór Júlíusson kvótagreifaráðherra. Fyrir honum er hver dagur hrein guðsgjöf í þjónustu hans við kvótahirðina. Og hann virðist enga grein gera sér fyrir því, að flestum finnst hagsmunagæslan löngu komin yfir öll þjófamörk. Nýjasta afrekið hans er að kvótasetja makrílinn í þágu stórútgerðar á kostnað hundraða smábáta, sem gætu hafa styrkt sjávarbyggðir kringum landið með frjálsum veiðum eins og verið hefur hingað til. En Kristján Þór varðar ekkert um þjóðarhag. Hann er í vinnu hjá stórútgerðinni og hefur aðeins skyldum að gegna við Þorstein Má og Binna í Vinnslustöðinni.
Og hann er ekkert að fela þessa hagsmunagæslu. Hún blasir við öllum sem vilja vita.
En gjöfin á makrílkvótanum slær samt öll met í einkavinavæðingu náttúrugæða. Þar er Kristján að ráðstafa upp á sitt einsdæmi þúsund milljarða verðmætum til útgerða, sem öðluðust veiðireynslu með því að moka upp makríl í eigin verksmiðjur undanfarin 11 ár. Aðrir hafa ekki fengið að byggja upp aflareynslu en þeir sem eiga verksmiðjurnar. Og hvernig er þessi tilfærsla réttlætt? Jú það er hægt að rekja lið fyrir lið.
Í fyrsta lagi fara menn í mál við ríkið sem þeir vinna á öllum dómstigum. Þannig var Makríldómurinn notaður til að réttlæta kvótasetningu á makríl því klifað var á þeirri ógn, að dómurinn hafi skapað ríkinu milljarða skaðabótaábyrgð! Sem er náttúrulega ekkert nema þvæla því eitt er að ríkið hafi ekki farið að lögum þegar veiðifyrirkomulag var ákveðið og annað er hvernig menn ætla að sanna meintan skaða.
Með makríldóminn í höndunum er eftirleikurinn auðveldur. Munum að Kristján Þór er í vinnu hjá Binna svo hann verður að setja upp leikrit svo þetta vinstri sinnaða öfundar-lið láti blekkjast!
- Skipa hóp lögfræðinga og biðja þá að fara yfir 4 valkosti vegna makríldómsins. (Með því er hægt að kæfa allar gagnrýnisraddir um að þetta sé fyrirframpantað lögfræðiálit eins og þegar hann félkk Hagfræðistofnun Háskólans til að réttlæta ákvörðunina um hvalveiðar til 5 ára!)
- Þegar lögfræðiálitið liggur fyrir þá er tekið fram lagafrumvarp, sem skrifað var af Binna í Vinnslustöðinni og það lagt fram í ríkisstjórn til samþykktar og á samráðsgátt til málamynda!
- Síðasti þáttur leikritsins er svo samþykkt Alþingis (sem líka er bara sýndarmennska því Alþingi samþykkir alltaf það sem ríkisstjórnin leggur fram. Annars væru hér stjórnarslit í hvert skipti sem alþingi hlýddi ekki fyrirskipun ráðherra.)
Núna er málið klappað og klárt. Makrílkvótinn verður aldrei boðinn upp en menn sem fá kvóta mega braska með hann að vild. Þetta mun örugglega þýða mikla fækkun í flota smábáta þar sem úthald til makrílveiða er dýrt og göngumynstrið óáreiðanlegt. Þjóðhagsleg áhrif þessarar ákvörðunar verða neikvæð en það verður gert lítið úr því og menn munu bulla um hið dýrðlega fiskveiðistjórnarkerfi sem skilar milljarða hagnaði á hverju ári þó sá hagnaður renni ekki til þjóðarinnar fyrir afnotarétt af auðlindinni heldur í vasa kvótaeigenda og barna þeirra.
Flokkur: Sjávarútvegsmál | Breytt s.d. kl. 11:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.