Grunnur að nýju SALEK módeli

Það sem stendur upp úr varðandi þessa kjarasamningalotu er, að í fyrsta skipti í sögu ASÍ í 40 ár, var farið fram með kröfur um lífskjarajöfnun og hún varð að grunni þessa samkomulags. Þar rís hæst, að nú var í fyrsta sinni samið um krónutöluhækkun en ekki prósentuhækkanir eins og SA og ríkisstjórnin höfðu lagt upp með. Og nú var ríkisvaldið þvingað til að beita efnahagslegum stýritækjum til að verja almenning fyrir ábyrgðarleysi hins opinbera, atvinnulífsins og fjármálaveldisins, að velta öllum kostnaði vöru og þjónustu, út í verðlag.

Einnig var gerð róttæk atlaga að skattamódeli Bjarna Ben og hann þvingaður til að breyta upprunalegu tilboði sínu varðandi þriggja þrepa skattkerfið. Með þetta er hægt að vinna áfram.

Önnur atriði þessa samkomulags eru svo líka ákveðin viðurkenning stjórnvalda og forsvarsmanna SA, á því að kröfur verkalýðshreyfingarinnar voru í öllum atriðum réttmætar, hófstilltar og ábyrgar!  Höfum í huga að í fyrrahaust töluðu allir gegn kröfugerð Eflingar um krónutöluhækkanir lægstu taxta. Og Seðlabankinn og peningastefnunefndin og ríkisstjórnin og kjánarnir hjá SA spáðu hruni og óðaverðbólgu ef samið yrði um meira en 2.4% kjarabætur. Verkakonan í Eflingu mátti fá 6.500 krónur meðan milljón króna maðurinn fengi 24.000 krónur. Það var þeirra tilboð. Það var þeirra réttlæti!

Nú þurfa þeir aðilar að biðjast afsökunar.  Einnig leigupennar auðmanna, ritstjórar viðskiptablaða og talsmenn frjálshyggju, sem hata og óttast upprisu sósialískrar verkalýðsbaráttu, sem veit hvað hún vill og sem nýtur trausts þver öfugt við aðrar valdastofnanir samfélagsins.

Þessir samningar voru fyrst og fremst sigur verkalýðsins gegn auðvaldinu og leppum þeirra í ríkisstjórn. Og sýnir okkur að róttæk verkalýðsforysta hefur valdeflt sig í þessari lotu og kemur að borðinu sem jafnoki viðsemjenda sinna, ríkisins og SA.  Þetta var það sem Salek samkomulag Gylfa Arnbjörnssonar skorti. Þar átti bara ASÍ að þiggja það sem að þeim var rétt. Hirða molana með öðrum orðum. Núna kemur verkalýðshreyfingin með sína eigin tertuhnífa og leggur til nýja skiptingu á þjóðarkökunni sem leggst vonandi vel í alla.

Ný yfirstjórn Seðlabanka mun svo marka nýja hugsun í efnahagsstjórninni þar sem fjármagnseigendur munu í fyrsta sinn þurfa að axla samfélagslega ábyrgð þegar og ef kreppir að í efnahagslífinu. Það gerist við breytingu á vísitölu verðtryggingar og lækkun þessara brjálæðislegu stýrivaxta, sem haldið hefur atvinnulífi og heimilum í skrúfstykki efnahagslegrar ógnarstjórnar Seðlabankans undanfarin 40 ár.

Til hamingju Ísland!


mbl.is „Ættu að biðja okkur afsökunar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband