Engin samstaða um Samstöðu

tvifari_lilju.jpgTilkynning Lilju Mósesdóttur um brotthvarf úr pólitík kemur ekki á óvart.  Hún hefur sýnt það svart á hvítu að hún hefur ekki þá hörku sem til þarf til að standa í fyrirsvari pólitískrar hreyfingar. Þetta hefur ekkert með hennar hugmyndir að gera.  Þær eru allrar athygli verðar.  En til að berjast fyrir nýjum hugmyndum þarf sterk bein.  Það vita allir. Sérstaklega þegar hugmyndirnar eru róttækar og ganga gegn hagsmunum rótgróinna hagsmunaklíka.  Mér vitanlega þá hefur fjórflokkurinn enga lausn á þeim vanda sem við okkur blasir vegna nauðasamninga slitastjórna föllnu bankanna, snjóhengjunnar og afnáms gjaldeyrishaftanna.  Þær lausnir sem felast í aðkomu AGS og Seðlabanka Evrópu undir yfirumsjón Más Guðmundssonar munu ekki þjóna hagsmunum almennings.  Þær munu þvert á móti tryggja skaðleysi kröfueigenda.  Á þetta hefur Lilja bent við litla hrifningu núverandi stjórnvalda.  Og því miður þá kann Lilja ekki að afla sér fylgismanna.  Hún er alltof mikill "fræðimaður".  Hún kann ekki á pólitíkina og skilur ekki hvernig systemið virkar.  Afleiðingin er flokkur í molum og fylgismenn í sárum eins og þessi bloggfærsla Rakelar Sigurgeirsdóttur ber átakanlegt vitni um.  Hvernig íslensku þjóðfélagi reiðir af er eingöngu undir almenningi þessa lands komið.  Ef meirihlutinn vill áfram fela fjórflokknum stjórn landsins þá blasir við okkur innlimun í ESB með öllu því sem fylgir þeirri ákvörðun.  Það er kannski ekkert það versta sem gæti skeð.  Miklu verra væri að verða bráð erlendra hrægammasjóða sem nú ógna fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í boði Sjálfstæðisflokksins.
mbl.is Gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Grundvallarmistök hjá Samstöðu!  Lilja kom með hugmyndafræðina og lausnirnar, en félagar hennar lögðu ekki til hitt sem þurfti; pólitíkina og baráttuviljann.

Mér sýnist að Lilja hafi dregið sína ályktun og ákvörðun út frá því.  

Kolbrún Hilmars, 22.12.2012 kl. 17:30

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Félagarnir voru uppteknir af að byggja kirkjuna og tóku ekki eftir að prédikarinn var löngu farinn!  Það voru mistök.  Nýju framboði er lífsspursmál að fylgi öflugur talsmaður.  Það voru mistök að leggja svona mikla áherzlu á aðkomu grasrótar í gegnum öll þessi undirfélög og kjördæmaklúbba.  Samstaða var byggð upp eins og stofnun en ekki fjöldahreyfing.  Og hver er þessi hulduformaður sem aldrei lætur heyra í sér?  Ekki einu sinni á bloggi.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.12.2012 kl. 17:45

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sjónarhorn ykkar á þetta ber því miður sorglegan vitnisburð um úrelta foringjahyggju, sem er bara alls ekki það sem nútímastjórnmálahreyfingin Samstaða gengur út á.

Á óvissu- og umbrotatímum er fátt hættulegra fyrir lýðræðið en "sterkir leiðtogar" sem stíga fram og þykjast bjóða töfralausnir (með öðrum orðum lýðskrum).

Þið eruð í rauninni að gagnrýna Lilju fyrir að vera ekki einræðisherra í sínum flokki. Fínt, ég þakka auðmjúklega fyrir það, vonandi mun fólk þá kjósa eftir því.

P.S. Varðandi meintan skort á pólitískum baráttuvilja hjá Samstöðu, hafið þið verið þáttakendur í því góða starfi sem þar fer fram? Eða hvaða forsendur eru eiginlega fyrir þessum fullyrðingum?

Guðmundur Ásgeirsson, 22.12.2012 kl. 18:00

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Guðmundur þú þarft ekkert að fara í vörn vegna hugmyndafræðinnar.  Ég held að hún sé vel boðleg.  Það er bara ekki nóg.  Athyglisbrestur kjósenda veldur því að meira þarf til að ný framboð nái fótfestu.  Þið hljótið að hafa áhyggjur af litlum áhuga meðal almennings og þó sérstaklega hjá fjölmiðlum.  Og hvernig ætlið þið að leiðrétta þann halla sem er á umfjölluninni?  Persónulega aðhyllist ég anarkisma en ég hef aldrei fundið hjá mér hvöt til að mynda félag um mínar skoðanir.  Reyndar hef ég megnustu óbeit á þeirri hjarðmennsku sem ríkir í þjóðfélaginu.  Stend fyrir utan þetta en áskil mér rétt til að hafa skoðanir

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.12.2012 kl. 18:22

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Guðmundur, þetta er rangt mat hjá þér.  Ég hefði einmitt búist við því að almennir félagsmenn Samstöðu hefðu tekið upp baráttu fyrir hugmyndafræði Lilju.  Ekki Lilju sem slíkri.

Þar sem ég tala hér aðeins sem "einhver kona" úti í bæ, og hef ekki verið þátttakandi í því góða starfi sem fram fer innanhúss hjá Samstöðu, er mér þá ekki frjálst að kvarta yfir því að þetta góða starf hafi ekki skilað sér utanhúss?

Kolbrún Hilmars, 23.12.2012 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband