21.2.2013 | 05:39
Um siðferði sjálfstæðismanna
Enn á ný er siðferði sjálfstæðismanna orðið að umræðuefni í samfélaginu. Nú er það vegna kortamisferlis á meðal starfsmanna stúdentaráðs og þar sérstaklega nefndur til sögunnar Heimir nokkur Hannesson, 24 ára stjórnmálafræðinemi og fyrrverandi frambjóðandi til forustu í SUS. Heimi finnst að sér vegið í umfjöllun um þetta mál í fjölmiðlum eins og lesa má hér og hefur í framhaldinu stefnt ritstjórn Smugunnar og fleiri aðilum eins og lesa má um hér.
Nú ætla ég ekki að kveða upp úr um sekt eða sýknu í þessu sérstaka máli en vekja athygli á þeim afsökunum sem alltaf eru gefnar, þegar upp um þessa gullskeiðadrengi kemst. En það eru orð eins og mistök og alltaf á ábyrgð einhvers annars. Heimir Hannesson skellir allri skuld á framkvæmdastjóra Stúdentaráðs og segir hann hafa gerst sekan um þau mistök að borga reikning sem hafi verið stílaður persónulega á Heimi Hannesson, en sendur fyrir mistök til stúdentaráðs af N1. En hann sleppir því að geta um þann ávinning sem hann hafði persónulega af þessum mistökum uns upp um þau komst. Enda eru efnahags og skattalagabrot ekki saknæm hjá þessu forréttindafólki nema upp um það komist. þá eru afleiðingarnar í hæsta lagi óheppilegar og undantekningarlaust einhverjum öðrum að kenna. Og alltaf skal þetta tengjast Sjálfstæðisflokknum. Við þekkjum raðafbrot útrásardólganna sem tengjast Sjálfstæðisflokknum. Mútumál Guðlaugs Þórs, fjármálabrask tengt Jónmundi Guðmarssyni, vafningsmál Bjarna Ben og fjárdráttinn hjá norrænum íhaldsmönnum sem tengdist skrifstofu Sjálfstæðisflokksins beint og þeirra fjárreiðum. Að ógleymdum smámálum eins og stjórnarháttum siðfræðingsins í VR og aðkomu hans að ráðningu ástkonu sinnar í feitt embætti þar. Listinn er ótæmandi. Siðferðið er brogað.
Allt er þetta með miklum eindæmum en þjóðin er orðin ónæm. Spillingin svo opin og gagnsæ, að menn segja bara, "þetta er nú bara sjálfstæðismaður" eins og það sé ígildi syndaaflausnar. En þetta er ekki í lagi. Við þurfum að taka til í þessu þjóðfélagi. Litlu dekruðu strákarnir í Sjálfstæðisflokknum eiga að lúta sömu siðferðisgildum og við hin. Það á enginn að komast upp með að brjóta lög og sleppa með því að einhver annar hafi gert mistök og óheppilegt að upp um þá hafi komist.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:57 | Facebook
Athugasemdir
Æ, það er svo dæmigert fyrir þetta vinstra lið að halda uppi stjórnarandstöðuandstöðu og beina spjótum sínum að fólki úti í bæ. Helst börnum. Er ekki kominn tími á annan samstöðufund á Ingólfstorgi?
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 21.2.2013 kl. 08:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.