Er Stjórnarskráin jaðarmál?

Annað hvort eru menn enn að melta þessar 3 breytingar sem hugmyndir eru uppi um að gera á stjórnarskránni eða að það er bara enginn áhugi fyrir þessu máli!  En það er víst lögmál að þeim mun ómerkilegri sem mál eru, þeim mun meiri umræðu fá þau.  Og þetta er í réttu hlutfalli við gáfnafar landmanna eða öllu heldur hjarðhugsunina sem lætur stjórnast af trendum á samfélagsmiðlunum.

Þessu verðum við að breyta. Við megum ekki láta fámenna hópa stjórnmálamanna, embættismanna og fræðimanna standa í vegi fyrir þeim lýðræðisumbótum sem kallað var eftir árið 2009 og sem leiddi af sér skipan á fulltrúum í stjórnlagaráðið alræmda, eftir tilræði Hæstaréttar til að ónýta kosninguna til stjórnlagaþings.

Öllum sem hafa velt fyrir sér stjórnskipuninni hér á landi, óháð stjórnmálahagsmunum, er ljóst, að henni þarf að breyta í grundvallaratriðum. Það er ekki hægt að sætta sig við að vilji meirihluta kjósenda, eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýju stjórnarskrána, sé hunsaður af stjórnarherrum sem njóta í raun aðeins rúmlega 30% trausts kjósenda samkvæmt síendurteknum könnunum.

Í þessu ljósi er svo sem ekki margt sem þarf að segja um þessar 3 breytingatillögur sem litu dagsins ljós í fyrradag eftir rúmlega 2 ára yfirlegu tuga manna úr þingflokkum, ráðuneytum og frá fræðasamfélaginu. Þessar tillögur breyta í raun litlu og engin þörf á að bæta þeim við núverandi stjórnarskrá. Stjórnarskrána á ekki að skrifa á lagatæknimáli sem enginn skilur. Sú frumhugsun var greinilega sniðgengin við samsuðuna á þessum 3 frumvörpum.  Að það þurfi til dæmis að lesa í gegnum nokkrar blaðsíður af fylgiskjölum til að sjá að merkingin þjóðareign þýðir alls ekki endilega að þjóðin eigi fiskinn heldur eins og segir í skýringagrein 3.1.2 :

Í 2. málsl. 2. mgr. hinnar nýju greinar er áréttað að enginn geti fengið þau gæði sem teljast til þjóðareignar eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei megi selja þau eða veðsetja. Tekið skal fram að ákvæðið mun ekki sjálfkrafa raska þeim óbeinu eignarréttindum sem kunna að felast í afnota- eða hagnýtingarrétti sem þegar kann að hafa verið stofnað til gagnvart landsréttindum og auðlindum sem samkvæmt frumvarpinu munu teljast í þjóðareign, sbr. það sem segir um réttarvernd slíkra heimilda í köflum 4.5 og 4.6.

Er boðlegt að leggja svona fram við þjóðina?  Og ég er líka á móti þessari útfærslu á þjóðaratkvæðagreiðsluréttinum. Hvernig geta menn litið fram hjá icesave þjóðaratkvæðagreiðslunni og sett inn fyrirvara eins og þennan?:

Fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni og lög sem sett eru til að fram-fylgja þjóðréttarskuldbindingum verða ekki borin undir þjóðina samkvæmt þessari máls-grein.

Samkvæmt þessu verður ekki hægt að hafna næstu nauðasamningum eða aflátssamningum sem einhverjum brjálæðingum í ríkisstjórn Íslands, dettur í hug að binda þjóðina með í framtíðinni  Svona er náttúrulega ekki boðlegt. Þjóðinni er vel treystandi fyrir öllum sínum ákvörðunum hvers eðlis sem þær eru og því eru allir fyrirvarar óþarfir.

Og til að jarða allt jafn snyrtilega þá sé ég ekki hvar þessi almenna viljayfirlýsing um náttúru og umhverfi á heima í Stjórnarskránni.  Fyrst Stjórnarskráin er grundvöllur að allri annarri löggjöf þá þarf hún ekki að innihalda svona marklausa frasa:

Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvílir sameiginlega á öllum og skal verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stuðlað skal að því að fjölbreytni náttúrunnar sé viðhaldið og vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður.
Allir skulu njóta heilnæms umhverfis. Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Ganga skal vel um náttúruna og virða hagsmuni landeigenda og annarra rétthafa. Mælt skal nánar fyrir í lögum um inntak og afmörkun almannaréttar.
Í lögum skal mælt fyrir um rétt almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það svo og til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið.

Hverjir voru að biðja um svona ákvæði í Stjórnarskrána?  Ef hér hefði verið lagt til bann við mengun og bann við sölu á landi eða landsréttindum til útlendinga þá hefði það verið eitthvað til að ræða í alvöru en þessa marklausu viðbót getum við slegið útaf borðinu án frekari umræðu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband