Með heimskulegri þingmálum

Björt Framtíð vill auðvelda erlendum ríkjum að njósna um Alþingi.  Þingsályktun um að Alþingi nýti sér samfélagsmiðla til að auka upplýsingaflæði er þjóðhættuleg og greinilegt að þetta fólk hefur ekki mikinn skilning á hættum internetsins.

Í staðinn fyrir að hvetja til aukinnar notkunar ættu yfirvöld að hvetja til þess að opinberir aðilar og stofnanir setji reglur sem banni notkun og aðgang að þessum miðlum í vinnunni.  Hvað fólk gerir í eigin tíma kemur engum við en það er orðið brýnt að aðilar vinnumarkaðarins taki þetta sérstaklega fyrir.  Ég er viss um að afköst myndu stóraukast og þar með framleiðni ef fyrirtæki myndu banna aðgang að Facebook í vinnunni. Og það myndi draga úr yfirvinnu því það gefur auga leið að þau verk sem sitja á hakanum vegna fésbókarsýki verður að vinna utan hefðbundins vinnutíma.

Og svo er eins og þetta fólk í Bjartri Framtíð átti sig ekki á því að facebook, twitter og youtube eru erlendar gagnaveitur og allt sem þar er sett inn er sýnilegt öllum heiminum en ekki bara einhverjum þröngum kunningjahóp.  Og það ættu menn að þekkja að þegar eitthvað er orðið hluti af tilverunni þá veldur sérhver truflun á þeim veruleika miklum óróa.  Um daginn þegar fésbókin lá niðri skapaðist glundroði hjá þeim hluta þjóðarinnar sem er orðin háð þessum miðli.  Er þá ekki nær að einhver fari af stað með íslenskan samfélagsvef?  Vef sem væri bara aðgengilegur þeim sem hafa íslenska IP tölu. Það er eina rökrétta svarið við njósnum stórfyrirtækja á netinu.

Það eina sem er  nýtilegt úr tillögu Bjartrar Framtíðar er að Alþingi móti stefnu um notkun íslenskra stofnana á samfélagsmiðlum með það fyrir augum að draga stórlega úr notkun opinberra aðila á þessum miðlum í nafni þeirra stofnana sem þeir vinna hjá.


mbl.is Alþingi verði sýnilegra á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað verður nú um aumingjana?

Jón Gnarr lofaði alls konar fyrir aumingja og stóð við það.

En hvað verður nú um Dag og Björk og Oddnýju og alla hina aumingjana?

Rónarnir redda sér eins og venjulega enda fengu þeir ekkert hjá Jóni.


Húmorslaus Júlíus Vífill

Jón Gnarr talar um heimsmet í skuldaniðurgreiðslu hjá borginni og er að gera gys að Sigmundi Davíð en Júlíus Vífill fattar ekki grínið og fer að röfla um skuldasöfnun. Það er engin furða þótt Besti Flokkurinn hafi mesta fylgið.

Stríðshrjáða Ísland og kínverska heimsveldið

Á Íslandi geysaði efnahagsstríð í kjölfar hrunsins en afleiðingarnar samt ekki ósvipaðar og þar sem hefðbundin átök verða. Þegar stríð geysa er samgöngukerfið yfirleitt það fyrsta sem er eyðilagt.  Því næst aðrir innviðir, eins og skólar og sjúkrahús og að síðustu eru stjórnvöld neydd til hlýðni.  Hér gerðist þetta í öfugri röð. 

Infrastrúktúrinn hér á landi hefur stórlega látið á sjá.  Margir vöruðu við aðkomu AGS að endurreisn fjármálakerfisins og spádómar þeirra sem það gerðu hafa gengið eftir. Fjármálakerfið var endurreist á kostnað skattborgara og fasteignaeigenda á meðan innviðirnir voru fjársveltir.  Afleiðingin varð atgervisflótti og og í dag sitjum við uppi með ónýtt heilbrigðiskerfi og ónýtt vegakerfi og grunnþjónustu af svo skornum skammti víða á landsbyggðinni að í raun ætti að lýsa yfir neyðarástandi ef hér væru ábyrgir aðilar við völd.  En fjármálakerfið er í góðu lagi!  Þökk sé AGS og Steingrími J.!

Ég nefni sérstaklega 2 stoðir , heilbrigðiskerfið og vegakerfið vegna þess að það þurfti ekkert að eyðileggja þessa innviði eins og gert var.  Ef við hefðum haft stjórnendur yfir þessum stofnunum með andlegt atgervi til að verja þær þá hefðu stjórnvöld verið neydd til meiri ábyrgðar. 

Hvað var Landlæknir að hugsa og hvað er Vegamálastjóri að hugsa?

Landlæknir hlýtur að segja af sér því hans er ábyrgðin og einkis annars.  Og Vegamálastjóri sem lætur vegakerfið grotna niður með óheftum þungaflutningum er ekki starfi sínu vaxinn.  Hann á líka að segja af sér. (Alveg óháð Gálgahrauns-skandalnum)

Í raun þurfum við nýja Marshall aðstoð ef vel ætti að vera en hver vill svo sem hjálpa okkur!  Við sem leyfðum útrásarvíkingum að valsa um rænandi og ruplandi, eigum okkur ekki marga bandamenn.  Þetta vita kínverjar og hamra járnið með auknum þrýstingi. Hverju sætir þessi aukni áhugi Kínverja?  Er einhver sem trúir því að það séu bara norðurljósin og þessi frábæra þjóð sem hér býr? 

Kemur næsta Marshall aðstoð frá Kína?
mbl.is Eðlilegt að nýta áhuga Kínverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Félagsvísindastofnun

Margir hváðu við þegar fyrirbærið Sundstofu bar á góma í umræðunni í gær.  Ég hélt eins og fleiri að um væri að ræða enn eina eftirlitsstofnun stjórnvalda en svo reyndist ekki  vera.  Fyrirbærið er sagt vera ein af undirstofnunum Félagsvísindastofnunar Háskólans en við leit á þeim vef er hvergi minnst á þetta fyrirbæri.  Hvernig stendur á því?

 
Hvað nákvæmlega er hér á ferðinni er því jafn mikið á huldu og áður.  En ef þessi stofnun er til marks um hvernig Háskólinn stendur að rannsóknum og fræðastarfi þá er það mín skoðun að þar skorti metnað og þeir hljóti að geta fundið eitthvað þarfara fyrir nemendur að rannsaka en ekki síst eitthvað sem nýtist þjóðfélaginu.  Því þjóðfélagslegt gildi náms hefur minnkað með auknu framboði námsbrauta og 2. flokks háskóla.
Er það svona sem erlendir háskólar haga rannsóknum og kennslu?  Ég bara spyr..
 
Síðustu fréttir af því hvernig málum er fyrir komið innan þessarar stofnunar, sem er Háskóli Íslands er ekki traustvekjandi.  Heil deild undir handleiðslu sálfræðiteymis á meðan aðrar (kynjafræðideild) stunda neteinelti og frjálshyggjupostular standa fyrir afvegaleiðingu og sögufölsunum.  Og allt virðist þetta eiga upptök innan Félagsvísindastofnunar!  Hversu langt er hægt að ganga í nafni rannsókna og fræða!
 
 

 


Frá Laugardagskvöldi til Sunnudagsmorguns

Margir þekkja af eigin reynslu að stemningin breytist frá laugardagskvöldi til sunnudagsmorguns. Enda er lífið ekki eintóm gleðilæti. Sá Gísli sem  birtist okkur á skjánum í þættinum Sunnudagsmorgunn er ekki sami glaði Gísli og við munum úr skemmtiþættinum hans Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Og það er greinilegt á líkamstjáningunni að Gísli er ekki ánægður með að hafa verið kippt út úr borgarpólitíkinni þvert á vilja sinn.

En flokkurinn vildi að Gísli viki og bæði Páll Magnússon og Gísli Marteinn vita betur en fara gegn vilja flokksins. Afleiðingin birtist landsmönnum í lélegu sjónvarpi sem þar að auki er allt of dýrt. Því það þarf enginn að efast um að RUV hefur verið látið tryggja Gísla Marteini sambærilegar tekjur og hann hafði sem borgarfulltrúi og kannski fær hann bónus í sárabætur fyrir að hafa hugsanlega orðið af borgarstjórastólnum.

Svona baktjaldamakk þar sem hulduher Sjálfstæðisflokksins ráðstafar skattfé almennings til að tryggja frið í eigin flokki minnir á fyrri tíma. Og rök Illuga fyrir að setja RUV aftur á auglýsingamarkað til að búa til svigrúm fyrir hærri fjárveitingum í skólakerfið er ekki það sem almenningur vill.  Almenningur vill ekki vera þvingaður í nauðungaráskrift að miðli sem býður upp á jafn lélegt sjónvarp og RUV gerir.  Og ef það á líka að þvinga menn til að horfa á auglýsingar og kostaða dagskrá þá er enginn munur orðinn á RUV og hinum ákskriftastöðvunum nema sá að dagskrá RUV er sýnd í opinni dagskrá en hin ekki.  Og þá er nauðungaráskriftin ekkert annað en óréttlátur skattur sem þar að auki skerðir frjálsa samkeppni á afþreyingamarkaðinum.

Almenningur vill viðskipti við efnisveitur eins og Netflix. Því fyrr sem menn átta sig á því þeim mun meiri friður mun skapast um ríkisútvarpið.


mbl.is Gagnvirkur Gísli Marteinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitleysingar sem minna alltaf á sig

Það er sjálfsagt rétt hjá Andra Geir, að það er lítill skortur á vitleysingum sem vilja stjórna á íslandi.  Og að þeir skuli sífellt vera að minna á sig er gott.  Því ef þeir gerðu það ekki með reglulegu millibili gæti maður jafnvel farið að vera sammála þeim.

Einn þessara snillinga er Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Í frétt á Vísi er vitnað í rökstuðning þingmannsins fyrir að telja sig óbundinn af niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Helztu rökin segir Brynjar vera þau að stjórnlagaráð hafa verið skipað af pólitískum meirihluta Alþingis og að tillögur ráðsins beri keim af því. Einnig segir hann þjóðaratkvæðagreiðsluna hafa verið ráðgefandi og því ekki skuldbindandi fyrir hann, „hvorki af siðferðilegum né pólitískum ástæðum.“

Ég verð nú að segja við Brynjar, að þessi rök eru óboðleg því hann hlýtur að vita betur.  Stjórnlagaráð var skipað sömu mönnum að einum undanteknum, sem hlutu kosningu í löglegum kosningum til stjórnlagaráðs.  Það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi látið Hæstarétt lýsa kosningarnar ólöglegar , gerir þær ekki ólöglegar per se. Það er aðeins staðfesting á skrípadómstóli sjálfstæðisflokksins.  Þess vegna voru fulltrúarnir ekki pólitískt valdir og einnig á hann að vita að engin þjóðaratkvæðagreiðsla má vera bindandi samkvæmt núgildandi stjórnarskrá.  Þær eru allar ráðgefandi.

En að tilgreina þessar 2 ástæður og nota þær til að réttlæta afstöðu sína til spurninga SaNS og Stjórnarskrárfélagsins,  sýnir bara hvern vitleysing maðurinn hefur að geyma.  Svo takk Brynjar fyrir að minna á þig.


Mun Jóhannes Reykdal biðjast afsökunar?

Í gær skrifaði ég færslu og kvartaði yfir rofi á útsendingu seinni hluta myndarinnar The Tour - The Legend Of The Race. Í athugasemd við þessa færslu skrifar útsendingarstjóri RUV, Jóhannes Reykdal, eftirfarandi:

Fyrirgefðu...hvað í andskotanum ertu að tala um?
Veit ekki betur en að tour de france hafi spilast eðlilega. Bæði fyrri og seinni þáttur. Það enda ekkert allir þættir á kreditlista

Nú má ætla að útsendingarstjóri viti betur en aumingi útí bæ hvernig myndir enda sem sýndar eru hjá RUV. Ekki aðeins einu sinni heldur endursýndar líka og því ætti ég að taka snuprunum þegjandi og  vera ekki að gagnrýna stofnun sem telur sjálfa sig yfir alla gagnrýni hafin.  En ég þarf yfirleitt að láta segja mér lygar tvisvar sinnum áður en ég trúi þeim svo ég lagðist í smá rannsókn á þessari staðhæfingu Jóhannesar Reykdal, að útsendingin hafi verið í lagi og myndin átt að enda í miðju orði þularins og án kredit lista í lokin. Og útsendingarstjóra til háðungar þá verð ég að upplýsa alþjóð um að drengurinn fór með staðlausa stafi. Því það vantar meira en 1 mínútu á myndina og þar af eru 55 sekúndur af kredit lista.

Síðasta setning þularins sem ekki heyrist í útsendingu RÚV hefst á þessum orðum:"The tour will always be the fun first and foremost by the men and champions....."

Þetta geta menn staðfest með því að ná í þessa heimildamynd á ótiltekinni síðu á netinu. Held að RUV þurfi í framhaldinu að endurskoða verkferla eða alla vega taka mark á athugasemdum áður en þeir afgreiða þær sem bull og vitleysu.  Þetta er nú Ríkisútvarp allra landsmanna en ekki RÚV allra starfsmanna!


Ríkislögreglustjóri valdsins

Þegar ríkislögreglustjóri fyrirskipar aukna hörku gegn löglegum mótmælum þá er hann ekki að framfylgja embættisskyldum.  Þvert á móti er hann að framfylgja skipunum að ofan.  Núverandi stjórnvöld hafa áhyggjur af ólgu í þjóðfélaginu og þau hafa fyrirskipað lögreglu að mæta þessari ólgu af fullri hörku og kæfa alla andstöðu í fæðingu.  Þess vegna er ráðist gegn friðsömum mótmælendum öðrum til viðvörunar.

Aðgerðirnar gegn hælisleytendum voru af sama toga. Sýna hver valdið hefur.  Skítt með öll mannréttindi.  Ég spái róstum í haust og vetur.


mbl.is Ómar Ragnarsson meðal handtekinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tökum upp hráefnisgjald í stað auðlindaskatts

Auðlindaskattur í sjávarútvegi gengur ekki upp.  Þeim mun fyrr sem við hættum að tala um fiskinn sem einhverja auðlind þeim mun fyrr getum við farið að innheimta sanngjarnt afgjald fyrir réttinn til að nytja þessi hlunnindi.  Ég hef alla tíð gagnrýnt allt þetta auðlindatal og tilraunir til að setja hér á auðlindaskatt í sjávarútvegi enda hefur komið á daginn að skattheimtan stríðir gegn öllum reglum frjáls atvinnurekstrar.  Á sama tíma áfellast flestir afnám þessarar skattheimtu og vilja að þeir sem veiða fisk borgi fyrir það.  Hvað er þá eðlilegra eða réttlátara en ríkið innheimti hráefnisgjald fyrir hvert veitt kíló af fiski sem selt er á markaði.  Þetta væri gjaldtaka en ekki skattur og allir borguðu sama óháð rekstri eða afkomu.  Ekkert vit er í skattheimtu sem umbunar skuldsetningu eins og inntak auðlindaskattsins var.  En umfram allt þá mun svona gjald skila margfalt hærri tekjum í ríkissjóð en bæði veiðigjaldið og sérstaka veiðigjaldið gerir í dag.  Og þessi aðferð kemst næst því að bjóða aflaheimildir upp á markaði sem aldrei verður þó gert.  En ef þær aðstæður sköpuðust að menn tækju upp uppboðsmarkað með aflaheimildir í stað ókeypis úthlutunar eins og er í dag þá mun sú breyting engin áhrif hafa á innheimtu hráefnisgjaldsins heldur yrði um hreina viðbót að ræða í vasa eigandans, sem er ríkið fyrir hönd þjóðarinnar.

Allir eru sammála um að útgerðin eigi að greiða fyrir nýtingarréttinn og við verðum að vera raunhæf varðandi þessa gjaldtöku.  Þess vegna er mikilvægt að Alþingi móti reglur um gjaldtöku og þessi hugmynd mín er innlegg í þá sátt.  Við verðum að koma í veg fyrir að handbendi kvótaræningjanna verði fyrri til og samþykki framhald á núverandi veiðigjaldi sem er bara hlægilegt.

15% af markaðsverði er sanngjarnt gjald. Miðað við verðmætið í fyrra sem var um 160 milljarðar upp úr sjó, þá erum við að tala um 24 milljarða.  Það munar um minna.


mbl.is Stjórnin hafnaði milljarða tekjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband