16.3.2016 | 01:50
Sigmundur er sterki aðilinn í ríkisstjórninni
Þótt margir tali eins og Bjarni Ben sé sterki ráðherrann í ríkisstjórninni þá er það ekki svo í raun. Þrátt fyrir að hafa ekkert uppeldisbakland í Framsóknarflokknum þá hefur Sigmundi tekist að styrkja sig verulega í sessi og er orðinn óumdeildur húsbóndi á framsóknarheimilinu. Honum hefur á 2 árum, tekist að flykkja öllum flokksmönnum og þingmönnunum, á bak við sig í öllum helstu málum. Það er aðeins á færi sterkra leiðtoga. Meira að segja gamla settið, Páll á Höllustöðum og Sigrún kona hans fylgja hinum unga foringja eins og spök lömb. Og þegar mál eru skoðuð þá talar Framsókn máli almennings í landinu í 4 af 5 helztu ágreiningsmálum ríkisstjórnarinnar meðan Sjálfstæðismenn draga taum sérhagsmuna í sömu 4 af 5. Þannig að ef Framsókn slítur þessu stjórnarsamstarfi þá munu þeir koma til með að ráða því hvaða mál verða á dagskrá í næstu kosningum. Þetta vilja sjálfstæðismenn alls ekki og þess vegna getur Sigmundur í raun beygt þá til hlýðni í þeim málum sem hann telur mikilvægust.
Máttleysisleg viðbrögð Kristjáns Þórs sanna þetta. Ef sjálfstæðisflokkurinn hefði raunverulegan styrk þá gæti Sigmundur ekki hlutast til um málefni heilbrigðisráðherra með þeim hætti sem hann hefur gert og komist upp með. Fyrst Bjarni lúffaði í gær þá mun Sigmundur sækja það með meiri þunga að framkvæmdaáform við Hringbraut verði endurmetin með það fyrir augum að nýju sjúkrahúsi verði fundinn annar og betri staður. Til dæmis á Vífilstöðum. Annars væri hann ekki að taka á móti dönsku arkitektunum sem hafa boðið fram krafta sína.
Og ég trúi að hann geti náð breiðri sátt um þessi nýju áform. Sífellt fleiri eru nú að opna augun fyrir því að endurskoða þessi áform á landspítalalóðinni. Til dæmis er hægt að byggja strax við Borgarspítalann gamla þá meðferðaraðstöðu sem brýnust er og hrófla í leiðinni upp húsi fyrir jáeindaskannann hans Kára. Sjúkrahótelið er ekki forgangsmál eins og sumir segja. Að byggja sjúkrahótel er bara bókhaldsbrella til að spítalinn fái meira til sín af fjárlögum. Það má bíða eða jafnvel sleppa því alveg. Í fyrsta flokks spítala er fólki hjúkrað til heilsu á sjálfu sjúkrahúsinu en ekki sent út í bæ nánast beint af skurðstofunni.
Og endurmat þarf ekki að þíða seinkun ef rétt er staðið að málum. Þetta er hægt að gera núna strax.
1. Byggja við og ofan á sjúkrahúsið í Fossvogi
2. Fara í nauðsynlegar endurbætur á húsakosti við Hringbraut
Samhliða þessu verði farið í hraðhönnun á nýjum spítala í samvinnu við dönsku arkitektana og gerð framkvæmdaáætlun sem tryggi að það sjúkrahús geti risið á 6-8 árum. Með því að byggja á Vífilstöðum er hægt að byggja bara það sem þarf miðað við áætlanir til næstu 10 ára og halda öllu opnu varðandi stækkunarmöguleika. Ef menn halda áfram ruglinu við Hringbraut þá verður samt í fyllingu tímans að byggja nýjan spítala á nýjum stað.
14.3.2016 | 22:19
Ragnheiður Elín
Í ráðuneytinu
Til vinnu mætir verklaus frú
völt í sessi.
Hennar eina ósk er sú
að ekki hvessi
Aðferðin sem enn er beitt
einkum í orði
að ólokið sé ekki neitt
á Ellu borði
því hennar liðs ei leitað er
né lausnir falið
að ennþá sitji Elín hér
er alveg galið.
Tækifærisvísur | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2016 | 16:37
Sjálfstæðismenn vilja Geirsgötu aftur í stokk
Ráðlaus vilja veg í stokk
þó vanda leysi ekki
Vitlausari veit ei flokk
né verri fól ég þekki
Tækifærisvísur | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2016 | 15:58
Ómerkileg stimpilstofnun fyrir ráðuneytin
Þetta svokallaða samkeppniseftirlit hefir fyrir löngu fyrirgert trausti sínu. Þetta veit forstjórinn og er því hættur öllu eftirliti. Núna stimplar hann bara þau eyðublöð sem ráðuneytin senda honum.
Ætli enginn hafi spurt útí stöðu tryggingarsjóðs innistæðueigenda og hvort eignarhald ríkisins í bönkunum feli ekki í sér aukna áhættu nú þegar áformað er að aflétta höftum og við erum ennþá með hæstu stýrivexti í heimi?
![]() |
Heimila yfirtöku á Íslandsbanka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.3.2016 | 13:47
Nýtt hlutverk sjúkrahúss í Fossvogi
Í síðasta pistli varpaði ég fram hugmynd um, að sameining Landspítala og Borgarspítala yrðu látnar ganga til baka. Við það myndu ýmis tækifæri til bættrar heilsugæslu opnast. Þrátt fyrir einhvern hagræðingar ávinning í yfirstjórninni þá hefur sameining þessara tveggja stærstu spítala þjóðarinnar dregið úr gæðum þjónustunnar og það hlýtur að vera áhyggjuefni. Hvernig tökum við á því? Jú við látum sameininguna ganga til baka.
Ég tek það fram að hér er um algera leikmannsþanka að ræða. En ég er heldur ekki að fjalla um læknisfræði heldur pólitíska stefnumótun, svo ekki blanda því saman.
Fyrir það fyrsta þá er ég á móti miðlægum risaspítala á kostnað sjúkraþjónustu í dreifbýlinu. Ég vil að nú þegar verði heilbrigðisþjónustu úti á landi komið í sama horf og var fyrir áherslubreytinguna, sem varð þegar ákveðið var að hér skyldi bara vera eitt aðalsjúkrahús sem þjóna skyldi öllu landinu. Þessi miðstýrða hugsun er kannski hagfræðilega réttlætanleg en pólitískt séð þýðir hún svo mikla byggðaröskun með tilheyrandi óhagræði að hún er ekki verjandi. Og það að stærsta sveitarfélagið á landinu hafi bara hætt að reka sjúkrahús bara með einu pennastriki var gerræði af verstu sort og hreinlaga beint gegn landsbyggðinni svo sá draugur sé nú enn og aftur endurvakinn.
Með því að draga þá ákvörðun til baka og skilgreina Borgarspítalann upp á nýtt, sem landshlutasjúkrahús, skapast sóknarfæri í öflugri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Samfara því þyrfti að finna sérþjónustunni sem nú er rekin í Fossvogi nýjan stað. Enda ekki hlutverk almenns sjúkrahúss að vera öldrunar og líknardeild fyrir gamalt fólk eða sem sérstök heyrnalækningardeild o.s.frv. Það er vel hægt að koma ýmsum sérgreinalækningum alfarið undir einkarekstur svipað og nú þegar er gert. Til að mynda hjá Læknastöðinni í Glæsibæ. Og auðvitað á að sinna gamla fólkinu á sérhæfðri þjónustustofnun, en ekki á almennri legudeild í ofnýttum spítala. Þannig að breytt rekstrarfyrirkomulag er bara spurning um pólitíska ákvörðun en ekki spurning um pening eða tæki eða nýbyggingar.
Fossvogsspítali ætti að vera forgangsmál stjórnmálaafls sem vill styrkja sig í sessi í borginni. Hverjir sjá það? Eða má ekki lengur hugsa útfyrir kassann í pólitíkinni. Snýst hún aðeins um dægurmál og sparðatíning?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2016 | 13:02
Stærsta hagsmunamál þjóðarinnar
Bygging nýs spítala er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar á 21. öldinni. Í raun hefur lítið gerst í þessu máli síðustu 16 ár vegna þess að það hefur ekki verið pólitískur einhugur um staðsetninguna. Menn hafa kastað á milli alls konar hugmyndum en sérhagsmunir hafa á endanum alltaf komið í veg fyrir að bezta lausnin yrði fyrir valinu. Núna virðist stærsti hagsmunahópurinn, sem samanstendur af læknum og yfirstjórn spítalans ætla að þrýsta í gegn áformum um að byggja á versta hugsanlega staðnum sem er Hringbrautin.
Og það gera menn undir því yfirskyni að hægt verði að nýta gömlu byggingarnar áfram og nálægðin við HÍ sé forsenda fyrir öflugu háskólasjúkrahúsi án þess að rökstyðja það neitt nánar. Þegar nánar er að gætt þá standast þessi rök ekki skoðun. Gömlu byggingarnar við Hringbraut eru of illa farnar til að þjóna áfram sem öruggt húsnæði fyrir sjúkrahússtarfsemi nema hreinlega að endurbæta þær frá grunni og með því að flytja sjúkrahússtarfsemina úr miðborginni þá léttir á umferðinni sjálfkrafa sem auðvelda svo aftur læknum að stunda jöfnum höndum kennslu og lækningar og rannsóknir.
En þótt byggingar við Hringbraut séu ekki lengur hæfar til sjúkrahússtarfsemi þýðir ekki að þar sé ekki hægt að reka þar aðra starfsemi og verðmæti þeirra mun því halda sér og verðmæti lóðanna stendur alltaf fyrir sínu. Hvort þar verði einhverntíma rekin gistiþjónusta skiptir ekki höfuðmáli. Fjárfestar munu eflaust sjá þar ýmis tækifæri. Því gamli landsspítalinn er fallegt og virðulegt hús eins og hann er núna. Ef haldið verður áfram uppbyggingunni samkvæmt skipulagi þá er búið að eyðileggja aðalbygginguna inni í miðjum steinsteypukumböldum.
Þá komum við að því sem snýr að borginni. Vitað er að öll áform um aðra staðsetningu en við Hringbraut hafa alltaf mætt mestri mótspyrnu hjá borgaryfirvöldum Reykjavíkur. Þau þykjast hafa tryggt loforð frá ríkinu um uppbyggingu sameinaðs Landaspítala við Hringbraut við sameiningu Borgarspítalans og Landsspítalans árið 2000. Á þessu samkomulagi hafa svo pólitíkusar hangið eins og hundar/tíkur á roði alla tíð síðan. En afleiðingar þessarar sameiningar hafa ekki mér vitanlega verið metnar. Hvernig væri til dæmis að láta þessa sameiningu ganga til baka? Þá væri komin upp gerbreytt staða. Þá myndu borgaryfirvöld verða að byggja aftur upp Borgarspítalann í Fossvogi sem er bara hið besta mál. En ríkið gæti í staðinn farið með Landspítalann og byggt hann frá grunni á bezta stað miðað við þróun íbúðabyggðar á suðvesturhorninu og þróun samgangna á landi og lofti.
Það er einfaldlegar rangt að læknar á Landspítalanum séu mikið að skipta sér af á meðan stefnumótun til framtíðar er ekki fullmótuð. Hvorki lækningastjórinn né forstjórinn. Vandamálin í rekstri stofnunarinnar eru víst ærin þótt þeir séu ekki líka að skipta sér af staðarvali og byggingartæknivandamálum. Því þetta eru mennirnir sem báru líka ábyrgðina á því að láta núverandi húsakost grotna niður á sinni vakt.
Að tala um að framkvæmdum muni seinka um 8-10 ár er bull. Yfirvöld í Garðabæ bjóðast til að setja málið í flýtiframkvæmd og það liggur fyrir að ýmis greiningar og hönnunarvinna sem þegar hefur verið unnin getur vel nýzt þótt staðarvali sé breytt. Þessvegna er miklu líklegra að framkvæmdir á nýjum stað gangi fljótar fyrir sig á Vífilsstöðum heldur en við Hringbraut.
Forsætisráðherra hefur varpað boltanum til heilbrigðisráðherra með því að birta greinina sína opinberlega fyrir helgi. Það má segja að með því hafi hann hreinlega tekið valdið af samstarfsráðherranum sem er yfir þessum málaflokki. Það er örugglega þannig og því standa nú öll spjót á Kristjáni Þór sem til þessa hefur kosið að tjá sig ekki. En allir bíða og ekki síst forstjóri LSH, því Páll hefur sett starf sitt að veði að Kristján Þór standi með þeim sem ætla hvað sem það kostar að sprengja upp nýja steypukumbalda á alltof lítilli lóð í göngufæri við Háskóla Íslands
Þetta er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Stærra en nokkur einn ráðherra eða embættismaður. Skynjar Kristján Þór það og hjá hverjum mun hann leita ráða. Víst er að margir bíða í ofvæni eftir niðurstöðu. Gallinn er bara að þetta þolir enga bið
![]() |
Bið eftir nýjum spítala yrði enn lengri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.3.2016 | 16:52
Et tu, Stefán Ólafsson?
Þessi barátta mín gegn rangri hugtakanotkun fer nú að verða hálfgerð eyðimerkurganga þegar fræðimaður og prófessor, sem sannanlega veit betur kýs að kalla einokun og fákeppni, sem hér hefur viðgengist í skjóli þrískiptingar helstu markaða, samkeppni.
Innkoma Varðar á þennan markað má í besta falli kalla röskun á fákeppnisstöðu hinna þriggja stóru. Það er engin framtíðarlausn á þessum vanda sem fákeppnin skapar, að flytja viðskiptin tímabundið eitthvað annað. Það verður að sníða löggjöfina að þeim aðstæðum sem hér ríkja og setja þessu græðgisliði strangar leikreglur. Ef menn ætla að viðhalda loddaraskapnum áfram með dyggri aðstoð fræðimanna og fjölmiðlafólks þá er ekki eingöngu við löggjafann að sakast. Þá er vandamálið miklu stærra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2016 | 15:52
Eitthvað fyrir pírata
Ég er ekki sammála þeim sem segja að pírata skorti stefnumál. Hitt er rétt að þeirra vinna hefur um of farið fram underground á netinu. Og fréttaflutningur helst sá einn sem snýr að persónulegum ágreiningi þingmanna. En þann fréttaflutning ber að taka með fyrirvara í ljósi þess hverjir eiga og reka fjölmiðlana.
En nú er komið upp mál sem almenningur getur skilið og tekið afstöðu til og sem smellpassar inní hugmyndafræði Pírata. Þetta varðar höfundarrétt, sem málfræðingar holunnar í Árnastofnun telja sig eiga og þurfa að verja gegn vondum útlendingum sem vilja læra málið.
Lesið allt um þetta á síðunni tala.is og sýnið stuðning í verki.
Þessi vefur er lokaður ótímabundið þar sem hann uppfyllir ekki skilmála.
Því leggjum við til að þessi gögn verði opnuð undir creative commons leyfinu.
12.3.2016 | 15:05
Að sleikja rétta rassinn
Þeir sem bítast um innlenda dagskrárgerð fá nú að kenna á markaðsráðandi stöðu RÚV. Rúv ræður því hver lifir og hver deyr á þeim markaði. Nú hefur Skarphéðinn Guðmundsson ákveðið að slátra Stórveldi Huga Halldórssonar. Á sama tíma sér maður ný fyrirtæki koma inn hjá RÚV, sem litlar upplýsingar finnast um en hafa það sameiginlegt að setja þennan ríkisstarfsmann, Skarphéðinn Guðmundsson á creditlista framleiðslu sinna. Þetta heitir á götumáli að sleikja rétta rassgatið. Það eina sem Skarphéðinn leggur til er dagskrárvald RÚV sem stærsta kaupandans á markaðinum. Þetta er í mínum Huga argasta spilling.
RÚV þarf að taka á þessum málum og uppræta þessi vinnubrögð strax. Dagskrástjórinn á ekki að vera á creditlista sjónvarpsþáttar frekar en Laufey Guðjónsdóttir á að vera á creditlista kvikmynda sem Kvikmyndasjóður styrkir. Laufey eins og Skarphéðinn, er bara ríkisstarfsmaður að vinna í almannaþágu. Nú þarf Magnús sjónvarpsstjóri að ganga í þetta mál. Uppræta þarf áralanga spillingu sem innleidd var undir stjórn Páls Magnússonar og sem þetta er angi af. Í leiðinni þarf að rannsaka tengsl Þórhalls Gunnarssonar við dagskrádeildina.
Sérstaklega væri áhugavert að fá upplýsingar um kvikmyndafyrirtækið Task 4 Media og Eirík Böðvarsson og samstarf þeirra við RÚV. En Task 4 media virðist hafa setið eitt að verkefnum hjá RÚV síðustu 2 ár. Eru þetta starfsmenn RÚV sem verið er að hygla sérstaklega eða eru einhver annarleg sjónarmið sem ráða á bak við tjöldin?
Almenningur á rétt á upplýsingum um fjármál þessa fyrirtækis. Ég er sannfærður um að þar er ennþá pottur brotinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2016 | 08:19
Og þjóðarbúinu blæðir
Flestir sem til þekkja og eru ekki undir hæl ráðuneytisins og Fiskistofu telja að Hafrannsóknastofnun hafi brugðist í öllu, sem viðkemur veiðiráðgjöf undanfarin 30 ár. Sömu menn telja aðferðafræði stofnunarinnar ekkert eiga skylt við raunveruleg vísindi. Hvernig getur það flokkast sem raunvísindi, að búa til líkan í tölvu og mata það með gögnum úr talningarleiðöngrum vor og hausts og búa síðan til formúlu úr samanburðartölunum og kalla hana aflareglu?! Alvöru vísindamenn myndu aldrei viðhafa svona vinnubrögð og þaðan af síður flokka það sem vísindi. Vegna þess einfaldlega að fiskurinn í sjónum er á hreyfingu og stærsti áhrifavaldur á vöxt og viðkomu fiskstofna eru ekki veiðar. Náttúran er besti veiðiráðgjafinn. Allt frá því að erlend veiðiskip hófu að veiða á íslenskum fiskimiðum, og fram til 1983,fór afli vaxandi, uns hann náði jafnstöðu, sem var 400-500 þúsund tonn af botnfiski á ári. Þessi jafnstöðuafli var einfaldlega afrakstursgeta fiskstofnanna með tilliti til fæðu, veiði, umhverfisþátta (hitastigs og áhrifa frá eldgosum o.fl) og síðast en ekki síst afráns stofnsins sjálfs. En afránið hefur alltaf verið innbyggður sveiflujafnari og skilað miklu betri árangri en allar friðunaraðgerðir Hafrannsóknarstofnunarinnar í gegnum árin. Því friðun og veiðistýring sem elur upp stórfisk á tímum þegar skilyrði í sjónum eru góð, eru inngrip í náttúruna sem eru bara til bölvunar. Enda tókst fiskifræðingunum á Hafró næstum að ganga af þorskstofninum dauðum árið 2006. Þá var svo komið eftir 20 ára veiðistýringu að hrygningarstofninn hafði minnkað um 1 milljón tonna frá því sem var í upphafi kvótakerfisins.
Almenn skynsemi og áratugareynsla af fiskveiðum segir mér, að ástæðan fyrir þessum áföllum hjá þorskinum sérstaklega, var af völdum friðunar, of lítilla kvóta með tilheyrandi brottkasti og síðan vaxandi ágengd hvala og síðast en ekki síst afráni þorsksins sjálfs á ungviðinu sem stafaði af versnandi fæðuskilyrðum á þessum árum.
Að stofninn hafi hjarnað við og sé núna í góðu jafnvægi er ekki Hafrannsóknarstofnun og þeirra gervivísinda að þakka, heldur þvert á móti þrátt fyrir kolranga veiðiráðgjöf þá eru bara umhverfisskilyrðin í hafinu með besta móti. Nóg af æti, hitastig kjörið og aðeins 50% sóknarnýting. Við þessi skilyrði þá hljóta stofnarnir að sækja í náttúrulegt jafnvægi. Og það mun gerast þrátt fyrir ranga aðferðafræði sem heilaþvegin stjórnmálastétt heldur áfram að trúa á í blindni.
Ráðamenn sem halda áfram að trúa því að veiðiráðgjöf Hafró byggi á vísindum, munu halda áfram að skaða þjóðfélagið með því að verja kvótakerfið og sjálftöku kvótagreifanna úr matarkistunni í sjónum. Ég ætla ekki að kalla fiskinn auðlind. Því það er hann ekki í skilningi takmarkaðra gæða af náttúrunnar völdum. Fiskurinn er bara eins og hver önnur hlunnindi sem ber að nýta til hagssældar fyrir alla en ekki bara 2% ríkustu Íslendinganna úr stórútgerðarstéttinni.
![]() |
Bestu vísindin eru hjá Hafró |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)