Afnám kvótakerfisins er eina lausnin

Engin sátt ríkir á neinum vígstöðvum um fyrirkomulag fiskveiða á íslandi. Þessu veldur kvótakerfið og þessi arfavitlausa umræða um auðlindaskatt á kvótann.  Menn eru löngu búnir að missa sjónar á grundvelli byggðar í landinu.  Þessum grundvelli var á einni nóttu kippt undan þúsundum manna þegar kvótalögin voru samþykkt. Núna 28 árum seinna, HEFUR STÖRFUM Í SJÁVARÚTVEGI FÆKKAÐ UM 10000,  ATVINNA OG ÞJÓNUSTA DREGIST SAMAN OG BÚSETUSKILYRÐI ALMENNT VERSNAÐ. 

Mikil byggðaröskun hefur orðið og mikil fjármagns tilfærsla úr sjávarútvegi yfir í fjármagnsbrask á vegum eigendanna. En verstu afleiðingarnar eru samt vonleysið um að þetta verði nokkuru sinni lagað.  Ástæðan er skilningsleysi stjórnvalda og aðgerðarleysi gegn samsöfnun valds í sambandi við uppkaup á kvóta og sameiningu fyrirtækja í sjávarútvegi á síðustu 15 árum.Þessi samansöfnun aflaheimilda hefur fært eigendum 10 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna gífurleg völd í þjóðfélaginu. Og það sem verra er, þessir menn kunna ekki með þau að fara. Við sjáum hvernig Þorsteinn Már heldur Eyjafjarðarsvæðinu í helgreipum atvinnukúgunar. Við sjáum hvernig Guðmundur í Brim hagar sér eins og argasti umbreytingafjárfestir þegar hann sölsar undir sig kvóta og braskar með hann.  Þessi maður á engan rétt. Hann byggir auð sinn á því að hafa sölsað undir sig þrotabú stærsta sjávarútvegsfyrirtækis á Vestförðum, Básafells. Það var þjófnaður fyrir opnum tjöldum og framinn með fulltingi stjórnvalda. Vestfirðingarnir trúðu ekki að kvótinn væri kominn til að vera.  Þeir áttuðu sig ekki á verðmæti kvótans fyrr en löngu seinna.  Enn í dag fær Guðmundur í Brim að auka við eign sína í kvóta og nú með því að eignast ráðandi hlut í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Hvenær er nóg nóg? Það er löngu tímabært að samkeppnisyfirvöld skipti upp þessum stóru fyrirtækjum. Þau fara gegn almannahagsmunum. Eru samkeppnishamlandi og hafa gengið sóðalega um fiskimiðin í skjóli nýtingar einkaréttar.

Núna er loksins að rofa til í hausi fiskifræðinga á Hafró og þeir eru farnir að viðurkenna reikniskekkjur upp á hundruð þúsunda tonna. Í netarallinu sem nú stendur yfir er að finnast stórfiskur sem var ekki til í bókhaldi stofnunarinnar. Núna er lag til að afnema kvótakerfið með einni atkvæðagreiðslu á þingi.

Til þess að sátt náist um fiskveiðistjórnunina þarf að afnema kvótakerfið og alla þá mismunun og spillingu og sóun sem því hefur fylgt. Almenningur þarf að hætta þessu gaspri um auðlindaskatt á kvótann.  Með slíku tali eru þeir óbeint að ganga erinda kvótagreifanna og styrkja eignarhald þeirra á fiskinum í hafinu.  Og þetta fyrirkomulag hentar líka spilltum stjórnmálamönnum sem vilja nú fá að braska með kvótann. því allar þessar hugmyndir um sölu veiðileyfa er ekkert nema brask. Nema að núna vilja pólitíkusar hafa puttana í braskinu. Jón Bjarnason vill bara efla völd ráðherra í sambandi við þessar svokölluðu umbætur sem hann hefur innleitt. Þær eru náttúrulega engar umbætur heldur spilling undir yfirvarpi jöfnunar.  Þetta þarf allt að afnema. 

Ef fólk bara áttar sig á öllu því sem við náum til baka við afnám kvótakerfisins þá hætta menn að styðja þessar arfavitlausu fyrningarleið Samfylkingar og Vinstri grænna. Kvótinn var settur á af illri nauðsyn skulum við segja, nú er ekki lengur þörf á slíku kerfi og því  á að leggja það niður. Við þá lagasetningu skapast engin skaðabótaskylda eins og hugsanlegt er við fyrningarleiðina.

Og auðvitað verður hægt að setja ný lög sem tryggja hagkvæma nýtingu þeirra hlunninda sem eru í hafinu.  ÞAÐ EFAST ENGINN UM ÞANN RÉTT LÖGGJAFANS.

 


Ólína ber af sér sakir

Áður en orðið um biður
þú ættir að róa þig niður
og vita hvað fyrir þér vakir
ef viljirðu ber' af þér sakir

Því Alþingi sæmd sín´og sóma
sækir í bjöllunnar óma
og Ásta mun gefa þér gætur
gleymd´ekki hvernig hún lætur


Af óförum Vinstri Grænna

Skipst hefur á skin og skúr
og skammlíf trúarvissan
Farin eru flokknum úr
folaldið og hryssan

Gamall flokkur á ónýtri kennitölu

Þá sjaldan að Framsóknarflokkinn ber á góma, dettur mér alltaf í hug old people.  Þegar haldin eru flokksþing eða aðrar samkomur og sýnt frá í sjónvarpi þá eru alltaf í forgrunni fólk eins og Páll frá Höllustöðum og Sigrún Magnúsdóttir eða þá Alfreð Þorsteinsson. Verra getur það varla orðið!
Tilvistarkreppa Framsóknarmanna felst í fortíðinni. Halldór Ásgrímsson, Finnur Ingólfsson, ólafur Ólafsson og Valgerður frá Lómatjörn eyðilögðu ímynd Framsóknarflokksins og enginn ímyndarfræðingur getur lappað upp á hana næstu 100 árin. Björn Ingi Hrafnsson og Óskar Bergsson bera líka báðir mikla ábyrgð á þeim spillingarstimpli sem lengi hefur loðað við flokkinn. Slíkt verðuir alltaf rifjað upp svo lengi sem þessi flokkur verður til. Andlitslyftingin sem fólst í endurnýjun forystunnar og þingmannanna skiptir engu. Sigmundur Davíð er þrátt fyrir allt sonur pabba síns og fulltrúi peningaaflanna og þar með spillingaraflanna í eigendafélagi Framsóknarflokksins. Þeirra sömu og myndirnar birtast af í fjölmiðlum. Guðmundur Steingrímsson á enga framtíð. Við ætlum ekki að innleiða kóngaveldi í íslenska pólitík þar sem sonur tekur við af föður. Konurnar í Framsókn láta það aldrei gerast. Fyrir Guðmundi liggur að gerast LAGAAFGREIÐSLUMAÐUR HJÁ SAMFYLKINGUNNI OG MUN HANN FYLLA STÓRAN HÓP HÆFILEIKALÍTILLA MEÐALMANNA ÞAR Á BÆ.  En hvað verður þá um Framsókn?  Eina leiðin sem ég sé fyrir hæfileikaríkt hugsjónafólk eins og Eygló Harðardóttur, er að segja skilið við flokkinn og stofna nýjan flokk á nýrri kennitölu. Flokk sem byggði á framtíðinni án þess að vera þjakaður af draugum fortíðar. Eygló hefur það sem til þarf. Hennar er valið.

Jón Baldvin drap jafnaðarstefnuna

Sagt hefur verið að í draumi sérhvers manns sé fall hans falið. þetta hefur sannast á Jóni Baldvini Hannibalssyni. Hann ól með sér draum um sameiningu vinstri manna og stóran jafnaðarmannaflokk.  Jón Baldvin er guðfaðir Samfylkingarinnar.  það sem Jón Baldvin áttaði sig ekki á var að vinstri menn eru í eðli sínu sundurleitur hópur besser wissera sem hver hefur sínar eigin hugmyndir um fyrirmyndarríkið. Enda kom það strax í ljós að Steingrímur J. klauf sig út og stofnaði sinn eigin sértrúarsöfnuð og kenndi hann við grænu umhverfisvakninguna.  Restin stofnaði síðan regnhlífarsamtökin Samfylkinguna utan um gamla krataflokkinn, kvennahreyfinguna og þjóðviljaflokk Jóhönnu Sigurðardóttur. Þessir valdahópar hafa síðan tekist á allt til þessa dags. Í þessum átökum hefur krataarmurinn látið í minnipokann fyrir kvennahreyfingunni sem tók höndum saman við frjálshyggjuarm óánægðra sjálfstæðismanna undir forystu Ingibjargar Sólrúnar. Þessi klíka sem tilheyrir öll vinstri elítunni ræður núna öllu í Samfylkingunni. Þeirra pólitík snýst ekki um hugsjónir. þeirra pólitík snýst um völd og til að komast til valda eru öll meðöl leyfileg. Baktjaldamakk, mútur, hótanir og hræðsluáróður eru þeirra pólitísku vopn. Kerlingarnar í Samfylkingunni eiga ekkert erindi í ríkisstjórn eða sem forsetar Alþingis. Hroki og heimska er það sem einkennir núverandi forystu Samfylkingar. Jón Baldvin hlýtur að harma örlög Alþýðuflokksins.  En spænska rauðvínið ku víst vera bæði ódýrt og gott. Kannski að það slái á sektarkenndina!

Af Guðbergi, Halldóri Laxness og Sjálfstæðu fólki

Guðbergur Bergsson gerir lítið úr Íslendingum þegar hann hæðist að einangrun landsins. Guðbergur er heimsborgari og dvelur langdvölum erlendis. Hann má gjarnan hafa þessa skoðun fyrir sig.  Halldór Laxness var líka heimsborgari en hann skildi þó þjóðarsálina betur en flestir aðrir. Á meðan Guðbergur Bergsson telur það eftirsóknarverðast fyrir Íslendinga að sitja á spænskum eða frönskum kaffihúsum og teiga að sér evrópska heimsmenningu þá vissi Halldór Laxness að fyrir Íslendinginn er meiri fullnægja fólgin í að sitja á sinni eigin þúfu og erja sína eigin jörð. Það eru margir sem gera lítið úr þúfnakollahugsunarhætti Íslendinga og vísa gjarnan til Bjarts í Sumarhúsum máli sínu til stuðnings. En þeir hinu sömu skilja ekki þjóðareðlið á sama hátt og Halldór Laxness þegar hann skrifaði meistaraverkið Sjálfstætt fólk. Íslandsklukkan vakti marga til umhugsunar um þjóðleg gildi. Sjálfstætt fólk er miklu magnaðra verk og hefur aldrei átt betra erindi við þjóðarsálina en einmitt núna.  Ég hélt ég hefði lesið að til stæði að setja þetta verk aftur á fjalir Þjóðleikhússins næsta haust en finn engar upplýsingar um það á netinu. Vonandi verður það samt gert því boðskapurinn mun hafa meiri áhrif en 1000 spunaræður.  Sérstaklega fyrir þá sem á annað borð láta sig varða þau gildi sem þjóðin  byggir tilveru sína á. Því öfugt við það sem Evróputrúboðar predika, þá er ekki ánægja og vellíðun mæld með hagvexti eða lágum vöxtum og lágu matarverði. Ánægjan er miklu frekar fólgin í að rækta það sem íslenskt er. Standa á eigin fótum í friði við náttúruna. Evróputrúboðana skortir þessa reynslu. Vinstri - Elítan fyrirlítur brauðstritið. Þeir hafa aldrei upplifað að leggjast þreyttir til svefns að loknu góðu dagsverki. Fyrir þeim er hver dagur öðrum líkur. Grá tilvera tilgangsleysis. Og þeirra lífslygi felst í blekkingunni um eitthvað annað og betra handan sjóndeildarhringsins. Kíkjum frekar í eigin barm og leitum. Því innra með öllum Íslendingum er lítill Bjartur í Sumarhúsum og bíður eftir að koma fram Wink

Vantraustið á Jóhönnu, Árna Pál, Össur og Steingrím

Mikið var ég sammála stöllunum og skáldkonunum, Margréti Tryggvadóttur og Birgittu Jónsdóttur, sem fluttu sömu ræðuna við vantrausts umræðuna. Ég veit ekki hvort margir tóku eftir því að sama ræðan var flutt af þeim báðum því bloggkór samfylkingar hefur verið svo upptekinn af að blogga um ömurlegan málflutning Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég gat líka tekið undir allt sem Þór Saari benti á.  Um það hef ég bloggað og bent á í gagnrýni minni á þessa þjóðhættulegu stefnu sem fylgt hefur verið og þröngvað upp á þing og þjóð af hrunverjum Samfylkingarinnar og bakkað upp af eigendafélagi VG.  Í því ljósi fagnaði ég þessu vantrausti sem borið var fram. Vantraustið snérist um að koma þeim sem bera ábyrgð á helferðinni frá völdum. Vantraustið snérist ekki um að koma Sjálfstæðismönnum til valda.  En á því klifaði spunakór Samfylkingar og hirðmanna Steingríms J í þingræðum í gær.  Það var greinilegt að þegar kattasmölun Jóhönnu var lokið þá var gefin út lína til nýliðanna í SF og VG um hvernig málsvörn skyldi hagað.  Og það er skrýtið hvernig hótanir og hræðsluáróður Steingríms og Jóhönnu virkar á eigin samflokksmenn!  Á þetta fólk enga sómakennd?  Skilur það ekki að ríkisstjórn á að sitja í umboði þjóðarinnar?  Þjóðin hefur samþykkt vantraust á þessa ríkisstjórn. Og ekki bara einu sinni, heldur tvisvar.  Og þjóðin samþykkti vantraust á Sjálfstæðisflokkinn í síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þessir 44 alþingismenn sem stóðu að samþykkt icesave III sitja ekki lengur í umboði þjóðarinnar.  Jóhanna og Steingrímur halda að þau sitji í umboði þingsins!!  Þetta fólk hefur ekkert lært.

Árni Þór er samt kelling

Illa núna á mér líst
auma vinstri græna
Manngildið þeir meta víst
með hverju þeir spræna

Lobbi og Egill

Þéttur Lobbi leyfir sér
að lítillækka Egil
En hvor er hvor er hulið mér
hann ætti að líta í spegil

Ekki aðeins rautt spjald heldur rekin í sturtu

Íslenska þjóðin hafnaði icesave lögum ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Þau úrslit voru áfellisdómur og vantraust á ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms.  Ekki bara rautt spjald heldur voru þau skötuhjú rekin af vellinum og í sturtu.  Þess vegna kemur það ekki til greina að þetta fólk standi í fararbroddi fyrir vörn Íslands gagnvart áliti ESA. Og þvert ofan í lygaspunann í Össuri Skarphéðinssyni þá eru icesave og umsóknaraðildin að ESB tengd órjúfandi böndum. það er móðgun við heilbrigða skynsemi að halda öðru fram.  Þeir sem enn vilja halda áfram með aðildarferlið geta ekki varið hagsmuni Íslands gagnvart ESA. Það eina sem getur mögulega bjargað þessari ríkisstjórn er ef Jóhanna og Steingrímur ná að þvo af sér ESB óværuna í sturtunni. Uppstokkun lífeyrissjóðakerfisins og afnám verðtryggingar ásamt upptöku nýs gjaldmiðils er það sem þarf að vinna að. Íslensk nýkróna, skammstafað NÍSK, getur orðið grundvöllur að heilbrigðu efnahagslífi þar sem engum leyfist að fela illa fengið fé í skattaskjólum erlendis. Hér eru skilyrði til sóknar að því tilskyldu að við afnemum kvótakerfið og stóraukum veiðar. Réttlátt umgjörð sem tryggir gjaldeyrisskil í atvinnulífinu skiptir öllu máli. Þetta tvöfalda svika og undanskotskerfi sem núna ríkir skaðar allt samfélagið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband