Réttið upp hönd sem treystið Alþingi!

thingheimur.jpg36 Alþingismenn sátu á þingi þegar hrunið varð
 9 þingmenn áttu sæti í hrunstjórninni
27 þingmenn komu nýjir inn 2009, þar af runnu
23 beint inn i flokkakerfið

Aðeins 4 þingmenn sem nú sitja á þingi eru að vinna fyrir þjóðina. Hinir eru allir að vinna fyrir flokkana!

Fjárlaganefnd Alþingis ber mestu ábyrgð á því að icesave III var samþykkt með 44-16. Fjárlaganefnd er vanhæf til að fjalla um icesave vegna þess að í henni sitja 2 af ráðherrum hrunstjórnarinnar sem mesta ábyrgð báru á icesave klúðrinu. Þau Björgvin G. og Þorgerður K.

Finnst mönnum þetta í lagi?

Fjárlaganefnd - Aðalmenn

Ásbjörn Óttarsson          Sjálfstæðisflokki
Ásmundur Einar Daðason     Vinstri-grænum
Björgvin G. Sigurðsson     Samfylkingu
Björn Valur Gíslason       Vinstri-grænum varaformaður
Höskuldur Þórhallsson      Framsókn
Kristján Þór Júlíusson     Sjálfstæðisflokki
Oddný G. Harðardóttir      Samfylkingu formaður
Sigmundur Ernir Rúnarsson  Samfylkingu
Þorgerður K. Gunnarsdóttir Sjálfstæðisflokki
Þór Saari                  Hreyfingunni
Þuríður Backman            Vinstri-grænum 

Ég get sagt margt og mikið um þessa fulltrúa en vegna velsæmis ætla ég ekki að gera það. Hitt er samt morgunljóst að á Alþingi sitja ekki okkar hæfustu fulltrúar. Þess vegna vill þjóðin kjósa um Icesave.  Ef meiri sátt ríkti um Alþingi, þá væri staðan önnur. Það skyldu dindlar ríkisstjórnarinnar athuga.


Steingrímur J. er búinn að vera

Þótt stólinn sinn Steingrímur tigni
og striga sé kallaður kjaftur
Í helvíti fyrr held ég rigni
en hægt sé að kjósa hann aftur

Pólitíkin

Ólafur Sveinsson telur mig hægrisinnaðan í skoðunum. Þetta er einkennandi fyrir hina gamaldags flokkahugsun á Íslandi. Íslenzk pólitík er eins og haustréttir. Allt kapp er lagt á það að draga alla í dilka og síðan á bara að senda undanvillingana í sláturhúsið!. Ég hef aldrei rekist vel í hóp þess vegna hef ég aldrei fundið minn rétta dilk.  Ég kýs að taka afstöðu til málefna en ekki eftir einhverri pólitískri línu. Á meðan flestir rifust um icesave á þeim forsendum hvort ætti að borga eða ekki, þá var mín afstaða alltaf sú að þrotabúið og eigendur Landsbankans ættu skilyrðislaust að borga þessa kröfu en ekki ríkissjóður. Þetta hefur kannski ruglað einhvern í ríminu en mér finnst það rökrétt skoðun.  Núna, ef þjóðin hafnar ríkisábyrgðinni eins og allar líkur eru á, þá gefst kannski færi á að hugsa þetta mál upp á nýtt og út frá öðrum forsendum en ríkisábyrgð.  Á það var ég að benda hér í færslu í gær. Ég hef enga trú á að Bretar og Hollendingar sæki þetta mál fyrir dómstólum ef þeir geta fengið 90% eða meir út úr þrotabúinu á næstu 1-2 árum. Að icesave frágengnu þá er næsta stóra mál, sem snýr að þjóðinni þessi dæmalausa aðildarumsókn að ESB. Skoðanir manna á aðild fara þvert á flokkslínur, svo mér finnst vel koma til greina að hér verði myndaðar 2 stjórnmálafylkingar, aðildarsinna og sjálfstæðissinna. Þessi fjórflokkur er hvort sem er kominn að fótum fram. Hægri og vinstri skilgreiningar eiga ekki lengur við.  Breytum pólitíkinni og skríðum upp úr hjólförum flokkshugsunarinnar og förum að taka afstöðu til mála en ekki manna.  Þá fyrst verður hægt að breyta þessu staðnaða kerfi sérhagsmunanna

Landsbankalýðurinn

Garmar nú gegna armir
geyja því vonir deyja
vanda ei vaxin, brandi
veifar að hætti kveifa
Ýlfra sem óðir úlfar
örendið ekki spara
Bretar nú bráðum geta
banka á icesave hankað

Hraða verður uppgjöri þrotabús Landsbankans

Eins og margir hafa bent á er icesave krafa Breta og Hollendinga fyrst og fremt forgangskrafa í þrotabú Landsbankans.  Sem slík á hún ekki að bera vexti.  Þess vegna verður nú að leggja alla áherzlu á að hraða uppgjörinu og greiða út þessar kröfur sem fyrst. Hvernig að því verður staðið er aftur á móti mál íslenskra og breskra og hollenskra yfirvalda.  Næstu icesave viðræður ættu því með réttu að snúast um hvernig hraða megi starfi slitastjórnar og hvort Bretar geti ekki komið að því uppgjöri á einhvern hátt.  Þegar allt kemur til alls, þá starfaði Landsbankinn aðallega í Bretlandi og þar eru líka flestar eignir þrotabúsins.  Það er í hæsta máta óeðlilegt að íslenskir lögfræðingar geti dregið það í fjölda ára að ljúka hinu lögformlega ferli.

Aflétta verður trúnaði fyrst þjóðin á að ráða

Björn Valur Gíslason, pólitískur hlaupastrákur fjármálaráðherra, mætti galvaskur í Silfur Egils og varði ákvörðun þingsins og vísaði til trúnaðarupplýsinga sem aðeins fjárlaganefnd hefði haft aðgang að við afgreiðslu málsins.  Nú þegar forsetinn hefur vísað málinu til þjóðarinnar, þá hljótum við að gera þá sjálfsögðu kröfu, að fá þessar upplýsingar upp á borðið. Öðruvísi getum við ekki tekið upplýsta ákvörðun í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu.  Nú reynir á lýðræðið og stjórnskipunina alla.

Skotheldur forseti en ríkisstjórn í afneitun

Ólafur Ragnar Grímsson var sannfærandi í rökstuðningi sínum að vísa icesave III í dóm þjóðarinnar. Hann þorði að standa með þjóðinni, enda hefði hann verið ósamkvæmur sjálfum sér ef hann hefði staðfest lögin eftir svona langa umhugsun. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru í samræmi við væntingar. Jóhanna gat ekki leynt vonbrigðum sínum og byrjaði strax að kyrja sinn gamla söng um að hér muni allt fara í kalda kol og það sé forsetanum að kenna.  Steingrímur reyndi hins vegar að leggja pólitískt mat á stöðuna og þótt hann greindi vandann rétt, þá var hann ófær um að axla sína ábyrgð í beinni. Því Steingrímur benti réttilega á að hér er við völd ríkisstjórn sem er ófær um að ráða við verkefnin. En í staðinn fyrir að segja af sér og boða til kosninga þá kennir ríkisstjórnin forsetanum um, hvernig umheimurinn horfir til íslenskra stjórnvalda.  Sá lærdómur sem stjórnmálamenn og sérstaklega ríkisstjórnin á að draga af þessari ákvörðun forsetans, er að henni ber að hafa hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi í störfum sínum en ekki hagsmuni flokkanna og kerfisins eins og gert var í sambandi við afgreiðsluna á icesave III. Ef ríkisstjórninni tekst að sannfæra þjóðina um ágæti laganna þá verða lögin samþykkt. Ef hins vegar pólitíkusarnir fara í hanaslag og óhróðursherferð gegn forsetanum, þá mun þjóðin fella lögin og þar með fella þessa aumu ríkisstjórn

Hrafn Gunnlaugsson skorar á forsetann í beinni

Þetta var sterkur leikur hjá Hrafni.  Hann veit hve sjónvarp er sterkur miðill.
Og ég held það þurfi sérstök illmenni, sem ekki geta tekið undir orð Hrafns þegar hann sagði að þjóðinni getum við treyst en ekki þeim þingmönnum sem nú sitja á þingi.

Hvað gerir Ólafur?

Hann Ólafur ólguna skynjar
og óragur valdinu beitir
er ólögum staðfestu synjar
og sáttargjörð þjóðinni veitir

Tækifæri sem kemur ekki aftur

Laun í fiskvinnslu hér á landi hafa verið skammarlega lág í tugi ára. Þess vegna hafa Íslendingar ekki viljað starfa í greininni. Þetta notfæra kvótagreifar sér þegar þeir réttlæta að fiskvinnslan þurfi í auknum mæli að færast út á sjó. Og eins þegar þeir benda á að ekki fáist fólk til starfa í frystihúsum úti á landi. Í ljósi hins sögulega lága gengis er núna tækifæri til að leiðrétta þetta misvægi. Fiskiðn er virðingarvert starf.  Ekkert síður en aðrar iðngreinar. Verkalýðshreyfingin þarf að taka sér tak. Hún þarf að þora að standa með sínu fólki og bæta kjör þess. Í Færeyjum eru laun fiskverkafólks 330 þúsund á mánuði ef ég tók rétt eftir þegar Siggi Stormur ræddi við Paulsen, fréttaritara sinn í Færeyjum um daginn. Hér á Íslandi fá Pólverjarnir sem vinna þessi störf fyrir okkur. undir 200 þúsund á mánuði.  Ekki furða þótt Íslendingar líti ekki við þessum smánarlaunum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband