18.2.2019 | 18:47
Minjastofnun þarf á Salómonsdómi að halda
Hvernig svo sem Lilja Alfreðsdóttir dæmir í þessu fordæmalausa klúðri Minjastofnunar, varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir á Landsímareit, þá er ljóst að trúverðugleiki forstjóra Minjastofnunar er stórlega laskaður svo og óhlutlægni skipulagsyfirvalds Reykjavíkurborgar.
Minjastofnun hefði verið í lófa lagið að banna uppgröft og flutning á mannvistarleifum á Landsímalóðinni. Þar með hefði vanhelgun þessa forna grafreits aldrei orðið með þeim hætti sem lóðabraskararnir eru svo duglegir að nýta sér í þessari deilu. Það skrifast alfarið á forstjóra Minjastofnunar. Ef svo ólíklega vill til að skyndifriðunin verði samþykkt þá dugir ekkert minna en að þessum beinum sem voru fjarlægð af Völu "grafarræningja" verði komið fyrir í sem næst upprunalegri mynd og reistir verði minnisvarðar því fólki til heiðurs.
Öll eigum við skilið smá virðingu. Líka þeir sem hvíldu í ómerktu gröfunum á Landsímalóðinni. Þegar aflagðir kirkjugarðar verða almenningsgarðar þýðir það ekki að legsteinar séu fjarlægðir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.2.2019 | 17:47
Prinsipmál að mótmæla yfirgangi
Nú fá semsagt eigendur laxveiðihlunninda smá sárabætur fyrir, að ekki var fallist á kröfur þeirra vegna sjókvíaeldis á norskum laxi. Það hlýtur að vera skýringin á þessu fyrirhugaða banni við álaveiðum. Því hvorki eru það vistfræðileg rök eða ofveiði sem réttlæta þetta inngrip.
Hér er umsögnin sem ég setti inn á samráðsgáttina:
"Ég mótmæli harðlega þeim hroðvirknislegu vinnubrögðum sem birtast hér í þessari svokölluðu samráðsgátt.
Sú litla þekking sem þó var til hér á landi um íslenzka álinn virðist hafa farið forgörðum við samruna Hafrannsóknarstofnunarinnar og Veiðimálastofnunarinnar 2016. Þau trúarbrögð sem virðast gegnumgangandi hjá ICES og Hafró, að veiðar mannsins séu afgerandi þættir í nýliðun og stofnstærðum hinna ýmsu fiskstofna á norðurslóðum styðjast ekki við neinar vísindalegar rannsóknir. Í umsögn Hafrannsóknarstofnunar er þetta viðurkennt en samt er mælt með alfriðun vegna lélegrar nýliðunar!
Þegar svona er staðið að ráðgjöf hljóta að vakna efasemdir um vísindalega nálgun þessarar stofnunar sem á samkvæmt lögum að vera stjórnvöldum til ráðgjafar.
Af þessum ástæðum einum hlýtur ráðuneytið að hafna þessum tilmælum ICES um alfriðun íslenzka álastofnsins.
Bjarni Jónsson fiskifræðingur veit sennilega meira um íslenzka álinn en allir fræðingar Hafró til samans. Kannski að ráherrann leitaði eftir áliti hans og svo ekki sé minnst á þá bændur sem hafa smá nytjar af þessum veiðum. Ef staðið yrði rétt að málum gætu einmitt veiðar aukið þekkingu á þessum stofni sem er mjög verðmæt matvara í Asíu.
Hafrannsóknir eru í skötulíki og ráðgjöfin óvísindaleg. Legg til að ráðuneytið láti gera stjórnsýsluúttekt á Hafrannsóknarstofnun líkt og gert var með Fiskistofu. Fiskveiðar gætu staðið undir miklu stærri hluta af útgjöldum ríkisins en nú er, bara ef veiðiráðgjöfin byggði á raunverulegri stofnstærð en ekki uppdiktaðri aflareglu."
Stjórnvöld stefna að banni á álaveiðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.2.2019 | 00:24
Hafrannsóknir á þurru landi
Hlutverk Hafrannsóknarstofnunar hefur undanfarin 30 ár, að langmestu snúist um að þjóna útgerðinni. Það hefur stofnunin gert með tvennum hætti. Annars vegar með stofnstærðarmælingum og hins vegar með árvissum loðnuleitarleiðöngrum. Hvað þetta tvennt kemur hafrannsóknum við verða fræðingarnir að svara. En eitt er víst, að þær breytingar sem við sjáum, að eru að verða í hafinu munu koma fiskifræðingum Hafrannsóknarstofnunarinnar hlutfallslega meira á óvart en öllum öðrum.
Fiskifræðingar sem í 30 ár hafa predikað sjálfbærar fiskveiðar, sem byggðar eru á uppdiktaðri aflareglu, skilja ekki hvað er að gerast í vistkerfum undirdjúpanna. Enda hafa þeir engan áhuga á að kynna sér það. Þeirra vitneskja snýst um vísitölur og veiðiráðgjöf.
Við þurfum nýja hafrannsóknastofnun, sem starfar algerlega á vísindalegum grunni óháð pólitískum fyrirskipunum feitra þjóna útgerðarauðvaldsins. Hafrannsóknastofnun sem gerir rannsóknir og metur niðurstöður en les ekki bara um erlendar rannsóknir í blöðunum.
Súrnun og hlýnun eru ekki góð blanda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjávarútvegsmál | Breytt s.d. kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2019 | 20:50
Viðkvæði III
Viðkvæði er færsluflokkur þar sem ég safna saman tækifærisvísum sem ég skrifa á annarra manna blogg. Aðallega er ég samt að kveðast á við Sæmund Bjarnason.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.12.2018 kl. 02:01
Í staðinn fyrir Steina Briem
stoltur Laxdal yrkir.
Ekki fagurt andans flím
og ekki mig hann styrkir.
Gleðilega jól
Sæmundur Bjarnason, 19.12.2018 kl. 00:22
Þótt bloggvinirnir bregðist þeim
sem bakpokavit reiðir.
Alltaf kemur Áslaug heim
og ofan á hann breiðir
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 21.12.2018 kl. 15:28
Bloggvinir ei bregðast mér
né bögu-Hannes svinni.
Laxdalinn að leika sér
í leirgerðinni minni.
Sæmundur Bjarnason, 23.12.2018 kl. 21:20
Sæll er með sínu hyski
sáttur við lífskjör sín.
En fúlsar við kæstum fiski
fái hann brennivín.
Vantaði rímorðið í aðra línu. Smá fljótfærni.
Gleðileg jól
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.12.2018 kl. 13:40
Sææll er hann með sína þrá
saknar víns í fötu.
Ekki vill hann ólmur fá
úldna, kæsta skötu.
Einhverntíma ætla ég að yrkjs kvæði
fái ég bara bæði
brennivín og næði.
Gleðileg jól!!
Sæmundur Bjarnason, 24.12.2018 kl. 14:49
Ætlar að bind inn bloggin sín
og bæta við "einhverjum myndum"
og hafana eins og Hagalín
helzt í tíu bindum.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.12.2018 kl. 20:40
Hagalínssaga var helvíti góð
hjá honum gott að vera.
Eltir mig jafnan sú andans glóð
af samt má kannski skera.
Sæmundur Bjarnason, 29.12.2018 kl. 15:20
Hér þó skorti geri skil
og skáki fréttaskvaldri
hann vill bara búa til
barn á gamalsaldri
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 1.1.2019 kl. 14:47
Ekki skortir andann hér,
allt á gamalsaldri.
Ljóðmælandinn Laxdel er
langbestur i skvaldri.
Sæmundur Bjarnason, 1.1.2019 kl. 17:36
Ekkert er sem margir muna
myglað brauðið vort
Búinn að leysa lífsgátuna
-lausnin er kreditkort!
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.1.2019 kl. 16:14
Kreditkortið snjalla
kætir flestra lund.
Verndar okkur varla
vill þó reyna um stund.
Sæmundur Bjarnason, 2.1.2019 kl. 16:33
Múrar eru margvíslegir
mæla þeim því sumir bót
Tolla skyldir vorir vegir
verða eftir áramót
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 6.1.2019 kl. 17:09
Margvíslegt er múrverkið
manna þrengist hagur.
Trumps nú skýrist skapferlið.
Skyldi kominn dagur?
Sæmundur Bjarnason, 6.1.2019 kl. 22:06
Það grömum augum gjarnan lít
sem gerir okkur gráhærð.
Þeir þekkja ekki skít frá skít,
sem skrifuðu þessa ófærð
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.1.2019 kl. 16:23
Ófærð núna enga lít
allan snjó þeir tóku.
Þekkja ekki skít frá skít
skrifararnir klóku.
Sæmundur Bjarnason, 12.1.2019 kl. 21:19
Hemur skjálfta í eigin skinni
skrifar blogg og um það yrkir.
Flettir upp í fésbókinni
frostið bítur - dagar myrkir.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.1.2019 kl. 13:48
Skelfur hann í skinni sínu
skáldið mikla, Laxdalinn.
Vísnagerð í veldi fínu
vefur hann um Sæmundinn.
Sæmundur Bjarnason, 14.1.2019 kl. 13:22
Sáttur er með sína bók
segli eftir vindi ók
afstöðu hann aldrei tók
ekki oft sig girti í brók
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.1.2019 kl. 17:32
Á Kyndlinum hann kynntist bók
kannski var það skrýtið.
Afstöðu hann alltaf tók
ekki var það lítið.
Sæmundur Bjarnason, 16.1.2019 kl. 21:26
Verður sjón ei svipur hjá
sviptur sjálfs síns ræði,
ef léttir sig og lifir á
lágkolvetnafæði
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 20.1.2019 kl. 17:05
Kolvetnin í kindahaus
kæta vísnasmiðinn.
Er við skrokkinn alveg laus
enda vel framliðinn.
Sæmundur Bjarnason, 20.1.2019 kl. 23:08
Flest veit Ágúst Bjarna best
um bresti enginn grunar
Í skammdeginu sólin sest
í skugga afneitunar
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.1.2019 kl. 13:14
Lítið grunar Laxdalinn
um lygina í blöðum.
Sannleikurinn út og inn
endalaust í röðum.
Sæmundur Bjarnason, 22.1.2019 kl. 16:23
Margir hafa farið flatt
Fönix líkir fljúga.
Í viðleitni að segja satt
og samt að vera að ljúga
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.1.2019 kl. 16:56
Eða eins og segir í gömlum húsgangi:
Satt og logið sitt er hvað
sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar allir ljúga?
Sæmundur Bjarnason, 22.1.2019 kl. 21:12
Ef vönd að kyssa velur sá
sem veiku skemmtir geði
Sögumaður setur þá
sjálfan sig að veði
Við þekkjum Árna Þórarins
í Þórberg tókst að ljúga
Var sökin Árna eða hins
sem öllu vildi trúa
Eins og stærstu eikurnar
undan stormi svigna
er forhúð utan umskurnar
einkenni hins lygna
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.1.2019 kl. 23:5
Hjörðin áfram ólmast blind
ei sér hvítt á svörtu.
En bakþankar og brjóstamynd
bæra allra hjörtu
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.1.2019 kl. 15:39
Bragur þinn um brjóstin góð
breytir litlu fyrir mig.
En þegar hátta fögur fljóð
flestir þurfa að passa sig.
Sæmundur Bjarnason, 23.1.2019 kl. 17:00
Á skal bent, að ég er sá
sem oft sig sjálfan passar.
Nema fram mér fari hjá
föngulegir rassar
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.1.2019 kl. 18:52
Í því sem varðar okkur öll
ertu oft að grufla.
Þá einræðu um víðan völl
varast ég að trufla.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 27.1.2019 kl. 13:51
Að grufla þykir gaman mér
og gæði orða byggja.
Enginn þar í ónot sér
því alla reyni að styggja.
Sæmundur Bjarnason, 27.1.2019 kl. 21:17
Þó að snuggi sjaldan hér
er Sæmi alltaf vílinn.
Fleira að kaupa flýtti sér
ef fyndi árans bílinn.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.1.2019 kl. 14:17
Snarvitlaus að snugga hér
snjórinn alltof kaldi.
Akranes finnst allaf mér
á æringjanna valdi.
Sæmundur Bjarnason, 28.1.2019 kl. 21:2
Þó flestu oftast finni að
framhjá skautar fimur.
Hvað er hvurs og hvurs er hvað
og hverjum klukkan glymur?
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.1.2019 kl. 12:31
Klukkan glymur kannski hæst
karli Baldvins Jóa.
Laxdal núna fimur fæst
við frækinn skóla-spóa.
Sæmundur Bjarnason, 29.1.2019 kl. 12:57
Hugðarefnin ekki fá
þó ellin að mér saumi.
Ég horfi Ófærð ekki á
og Útsvar bara í laumi.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 30.1.2019 kl. 09:52
Hugann örvar ekki neitt
engu þarf að fletta.
Ekki vildi ganga greitt
að gera botn á þetta.
Sæmundur Bjarnason, 30.1.2019 kl. 11:07
Ef vísnagerð ei gengi smurt
og galli á endir yrði,
þú gast Bakkabræður spurt
um botninn í Borgarfirði.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 30.1.2019 kl. 12:26
Steigurlæti og staðföst trú
Steingríms er að þakka
Kverúlantar komast nú
á Kópasker og Bakka
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.2.2019 kl. 14:45
Steingrímur er staðfast hjú
stálbræðslna og kola.
Á Húsvíkingum hefur trú
og hættir brátt að vola.
Sæmundur Bjarnason, 2.2.2019 kl. 15:24
Meðan ekki mikið átt
meira hampar þjófum.
Því alla hefur ævi mátt
éta úr þeirra lófum
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.2.2019 kl. 12:20
Satt þú alltaf segir hreint
sumum finnst það skrýtið.
Vísur þínar vísa beint
á vinnuframlag lítið.
Sæmundur Bjarnason, 3.2.2019 kl. 17:36
Í deilum Jóns við Danaslegt
dómur upp var kveðinn.
Fyrir kvæðið fékk ei sekt
samt flýði óumbeðinn.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.2.2019 kl. 14:30
Jónsa kvæði jafnan góð
og jötna meður skafti.
Dani hann í djöfulmóð
dissaði af krafti.
Sæmundur Bjarnason, 4.2.2019 kl. 15:32
Aldrei bjó í blýsins hólk
þó betur til þess þekki
því lesið hef ég Fátækt fólk
þó flestir hafi það ekki,
sem vilja inní Vogum hólk
í vitleysunnar nafni.
En grafa úr Víkurgarði fólk
og geyma það inni á safni.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.2.2019 kl. 20:14
Vogastrandarvitleysan
verður ekki toppuð.
Endalaus er ólukkan
ef ekki verður stoppuð.
Sæmundur Bjarnason, 4.2.2019 kl. 21:05
Viðkvæði | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2019 | 18:01
Fuck Ofbeldi!
Hausa skelltu húfum á
til hliðar upp sér stilltu,
en áhorfendum öllum brá
því upp í skjáinn fylltu.
Þá Brynjars Níels birtist fát
og berja í bjöllu gleymdi.
Á uppákomum ekkert lát
Alþingi því streymdi.
Þau hefðu betur horft sig á
en hóf sér ekki kunnu.
Og almenningur aðeins sá
umfangið á Sunnu.
Ofbeldið og allt það tal
sem okkur að er haldið
er kurteisislegt konuhjal
því karla er dagskrárvaldið.
Á meðan ekki um málið semst
milli þessa bjána.
Bergþór ei á barinn kemst
því Bára vaktar krána.
Átaldi framkomuna úr forsetastól | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tækifærisvísur | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2019 | 01:01
Ekkert eftirlit með eftirlitinu
Löggjöfin í kringum fiskeldið ber þess greinileg merki að vera búin til af hagsmunaaðilum og þess gætt, að nýta alls ekki reynslu Norðmanna og fleiri til að lágmarka áhættu og hámarka arð af þessari vaxandi atvinnugrein. Eftirlitshlutverk Matvælastofnunar er til dæmis í algjöru skötulíki og virðist felast í því einu, að bregðast við tilkynningum eldisfyrirtækjanna þegar óhöpp verða eins og í þessu nýjasta tilfelli Arnarlax. Og með fullri virðingu þá kaupi ég ekki þessa skýringu að pokinn hafi verið gallaður. Annars væru menn ekki að tala um gat.
Svo þegar farið er dýpra í málin vakna ótal spurningar. Eins og til dæmis:
- Hvernig stendur á því að það líða 7 vikur á milli þess sem kvíar eru skoðaðar af kafara?
- Af hverju er ekki hægt að koma fyrir neðansjávarmyndavélum og vakta þessar kvíar í rauntíma?
- Hversvegna eru kvíar ekki tæmdar og talið upp úr þeim þegar grunur er um, að fiskur hafi sloppið?
- Til hvers er aðkoma Fiskistofu?
- Hvers vegna er Umhverfissjóður Sjókvíaeldis látinn greiða kostnað Hafrannsóknarstofnunar af burðarmati?
- Hvers vegna er Umhverfissjóður Sjókvíaeldis látinn greiða kostnað Hafrannsóknarstofnunar af vöktunar verkefnum tengdum sjókvíaeldi?
- Hver er nettó hagnaður ríkissjóðs af leyfisgjöldum vegna sjókvíaeldis?
- Hvers vegna er heimilað að framselja og veðsetja leyfin sem gefin eru út vegna sjókvíaeldis?
- Hvar voru þingmenn þegar þessi lög voru samþykkt?
Og hvers vegna í andskotanum þarf ég að blogga um þetta skítamix matvælastofnunar, sem þessi tilkynning er? Hvar eru fjölmiðlamenn? Það eru þeir sem eiga að hafa eftirlit með eftirlitinu!
Arnarlax yfirfari verklag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2019 | 14:31
RÚV virðir ekki lög
Fyrir nokkrum dögum var RÚV beitt sekt af Fjölmiðlanefnd upp á 1 milljón ískr. fyrir brot á reglum um kostun. Kannski að fréttastofan hafi bara óvart birt kostaða "frétt" um bruggsmiðjuna Kalda um daginn eða er um skipulagða brotastarfsemi að ræða hjá dagskrárstjórn RÚV? Ef umfjöllunin um Kalda var eðlileg þá getum við lagt fjölmiðlanefnd niður.
30.1.2019 | 14:18
Metin falla og ríkisstjórnin fagnar
Samkvæmt Transparency International er Ísland nú spilltast miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. Við hljótum að fagna því á þessum tímum gagnsæis og opinberrar stjórnsýslu! Og á næstu árum munum við ná enn ofar á spillingarlistanum. Kannski verðum við komin í fyrsta sæti þegar búið verður að meta aðgerðir núverandi ráðherra Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Spilling er nefnilega ekki til í þeirra orðabók heldur bara óheppilegar tilviljanir. Þökk sé Klausturfíflunum þá talar enginn um ríkisstjórnina og hvað hún er að bralla.
30.1.2019 | 13:08
Kleifabergið gert út af ráðuneytinu
Flott hjá ráðherranum að niðurlægja opinberlega þá sem undir hann heyra. Fyrst Hafrannsóknarforstjórann og núna forstjóra Fiskistofu. Til hvers erum við með opinberar stofnanir ef ráðherra tekur fram fyrir hendur forstjóra þeirra í hverju málinu á fætur öðru? Hvenær fá alþingismenn nóg af þessu gerræði? Það er í valdi þingsins að setja ráðherra af. Nú er fullt tilefni til.
Kleifaberg heldur aftur til veiða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.1.2019 | 12:01
Uppskrift að einkavæðingu banka
Undanfarnar vikur hef ég verið að kynna mér hina svokölluðu Hvítbók Bjarna Benediktssonar, um framtíðarsýn hans á fjármálakerfi framtíðarinnar. Og það er ekki góð framtíðarsýn fyrir almenna borgara. Í rauninni fjallar Hvítbókin lítið um framtíðarsýn en þeim mun meira um hvernig staðið skuli að sölu á eignarhlut ríkisins og hvað ríkið þurfi að gera til að gera bankana söluvænlegri. Fyrir mér er þetta einfalt. Eignarhlutir ríkisins eru bókfærðir á 339 ma kr. sem þýðir að raunverulegt verðmæti er meira. Ég held að Frosti Sigurjónsson hafi nefnt töluna 400 ma.kr og enginn mótmælti því. Þar af leiðir á að setja verðmiða á þessa eignarhluti sem endurspegla raunverulegt verðmæti en það er sko alls ekki það sem Bjarni Ben ætlar sér. Hann ætlar að nota nákvæmlega sömu aðferð og L.Í. notaði þegar Borgun var gefin . Sá fjármálagjörningur skilaði eignarhaldsfélagi Engeyjarmafíunnar milljörðum í eigin vasa.
Svo nú er spurningin, er skynsamlegt að einkavæða ríkiseigur meðan Bjarni Benediktsson situr í ríkisstjórn? Ég segi nei. Ekki miðað við þessar forsendur. Og það er slæmt því auðvitað á að setja bankana á markað en ekki selja til kjölfestufjárfesta.
Það verður forvitnilegt að fylgjast með umræðum þingmanna um þessa Hvítbók á næstunni. Og hvort einhver þori að nefna bláklædda fílinn í fjármálaráðuneytinu. Því hann er þarna og hann hefur alla þræði í hendi sér. Hann hefur Bankasýsluna og hann hefur Ásgeir Jónsson. Allir sótraftar á flot dregnir til að gera þetta ætlunarverk að veruleika í boði VG, sem eru jú með reynslu af að sóa almannafé, samanber Sjóvá og SpKef.
Það verður engin umræða um framtíðarsýn á fjármálakerfið. Það verður ekkert minnst á peningastefnuna eða gjaldeyrisforðann sem hægt er að nota til að taka upp dollar til dæmis. Það verður heldur ekkert talað um ríkisábyrgð á innlánum við þessa einkavæðingu. Og ástæðan er einfaldlega að fulltrúar okkar á þingi eru upp til hópa undirmálsfólk sem hefur ekki roð við jakkafatamafíunni.Undirmálsfólk, sem er svo upptekið af kynfærapólitík að stórfelld sala ríkiseigna til einkavina fer alveg framhjá þeim. Það verður kannski ekki fyrr en Bjarni lætur Ásgeir Jónsson skrifa Hvítbók um einkavæðingu Landsvirkjunar, sem menn fari að spyrna við fótum. En þá verður það of seint. Þá verður þetta lið búið að samþykkja 3. orkupakkann og kostnaðurinn við sæstrenginn verður notaður til að réttlæta söluna á Landsvirkjun.
Og þetta er ekki samsæriskenning. Þetta er mín Hvítbók um fyrirætlanir svikulla manna, sem sjást ekki fyrir í græðgisvæðingunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tekur ekki í þessu þátt
þusar samt af vana
Ætlann skrifi ósjálfrátt
alla bloggpistlana?
Endurskrifað útaf úrfellingamerkjum sem sumir vafrar skilja ekki.
Gleðileg jól Sæmi minn