Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
12.3.2017 | 16:55
Afnemum ríkiseinokun og rekum Steingrím Ara
Ég er því algerlega sammála, að ríkið á ekki að vasast í rekstri sem einkaaðilar geta sinnt og gert betur. En þar með skilur líka á milli mín og talsmanna ríkiskapítalistanna og spenafólksins í fjórflokknum. Ef menn vilja fara í samkeppni við ríkið og gera það á eigin ábyrgð og kostnað þá sé ég enga ástæðu til, að amast við því. Ef einhver vill stofna einkaskóla og bjóða upp á betri kennslu án þess að ríkið fjármagni laun og annan kostnað þá finnst mér það í lagi. Mér finnst líka í lagi að hér séu rekin einkahjúkrunar og eða lækningafyrirtæki sem fjármagni sig alfarið á sjúklingagjöldum og bannað verði að ríkislæknar stundi hlutastörf í einkageira samfara fullri vinnu hjá ríkinu. Ef það reynist grundvöllur fyrir slíkum fyrirtækjum þá sé ég ekki ástæðu til þess að banna það. En einkavinavæðing a la Ásdís Halla, þar sem aðeins gróðinn er einkavæddur, er ekkert nema spilling í skjóli valds. Þess vegna á að reka Steingrím Ara. Hann ýtir undir spillingu í skjóli valds.
Og hvað með samgöngumálin? Af hverju ekki að einkavæða þann hluta samgöngukerfisins sem þungaflutningar þurfa að nota. Af hverju er almenningur látinn bera kostnað af vegaframkvæmdum þegar það eru einkaaðilar sem nýta sér vegakerfið mest og slíta því mest til að hagnast og greiða eigendum sínum arð? Annað hvort byggi þessi fyrirtæki sínar eigin akbrautir eða við tökum upp skattlagningu þar sem þeir sem mest nota vegi og slíta mest, borgi fyrir það. Í stað almennra vegtolla komi vigtarstöðvar þar sem farartæki eru vigtuð og útbúinn reikningur miðað við ekna kílómetra margfaldað með þyngd bíls og tengivagns.
Ef menn hefðu tekið þann falda kostnað sem slit og eyðilegging á vegum hefur í för með sér, þá færu þungaflutningar aftur eftir sjóleiðum með tilheyrandi styrkingu byggða og til hagsbóta fyrir almannahag. En þeir útreikningar sem gerðir voru á hagkvæmni sjóflutninga tóku aðeins mið af hagsmunum flutningsaðila. Þessar reikningskúnstir hafa því miður verið iðkaðar af sérfræðingaliði pólitíkusanna. Þeim sömu sem prédika hagkvæmni kvótakerfisins nota bene!
Hér þarf nánast alltaf að leita útfyrir landsteina að hlutlausri ráðgjöf. Við þurftum þess í icesavedeilunni og við hefðum þurft þess í haftamálinu. En ógæfa okkar er heimagerð. Þrátt fyrir kollsteypuna sem hér varð 2008, þá kusum við yfir okkur hrunvaldana strax árið 2013. Hver hefði trúað því? Og ekki tók betra við í skyndikosningum 2016.
Svo í stað þess að kvarta og veina um svik og pretti þá ætti almenningur að hunskast til að kjósa á móti sérhagsmunum og spillingu og fara að standa með sjálfum sér. Menn hljóta að vera orðnir jafn þreyttir og ég á lygum og blekkingum íslenskra ráðamanna og meðvirknishirðinni sem verndar þá.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.3.2017 | 14:42
Skúrkurinn heitir Bjarni Ben
Það er ekki bara Austfirðingum, sem er misboðið hvernig landinu er stjórnað, heldur ætti öllum landsmönnum, með snefil af skynsermi, að vera misboðið. Og ekki bara útaf þessum dæmalausa niðurskurði samgönguráðherrans á einstökum framkvæmdum, heldur ekki síst ábyrgð þingsins og síðustu ríkisstjórnar á klúðrinu. Því það var þáverandi fjármálaráðherra. Bjarni Benediktsson, sem lagði fram fjárlög fyrir árið 2017 og lét samþykkja þau í þinginu. Þessi sami maður er nú orðinn forsætisráðherra í annarri og verri ríkisstjórn og vill ekki kannast við eigin ábyrgð á innihaldslausum kosningaloforðum fyrri ríkisstjórnar sem birtast okkur í dag í marklausum fjárlögum 2017. Hvernig í ósköpunum kemst maðurinn upp með svona ómerkilegheit trekk í trekk? Hvað eru fjölmiðlar að hugsa að þagga niður hvert hneykslið, sem Bjarni Ben er viðriðinn á fætur öðru? Hefur mönnum verið hótað eða hvað skýrir að við skulum sitja uppi með óheiðarlegan og lyginn forsætisráðherra? Mannleysu sem virðist ekkert geta nema bakað kökur.
Við þurfum ekki kökugerðarmann.
Við þurfum heiðarlegan og ærlegan mann sem þjónar almenningi og íslenskum hagsmunum fyrst og síðast!
![]() |
Okkur er algjörlega misboðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.2.2017 | 21:56
Eddan á ekkert erindi við almenning.
Til hvers í ósköpunum er verið að sýna frá þessari árshátið lista og fjölmiðlaelítunnar í beinni útsendingu á RÚV? Ef þetta á erindi við almenning þá mætti alveg eins með sömu rökum sýna frá árshátíð Rúv og árshátið 365 miðla!
Listafólkið okkar ætti í alvörunni að endurskoða þessa uppskeruhátíð og útiloka fastráðna starfsmenn RÚV frá tilnefningum og veitingu viðurkenninga. Fólk sem er á framfæri skattborgara þessa lands á ekki að verðlauna fyrir að vinna vinnuna sína! En listamönnum er nokkur vorkunn því dagskrárstjóri RÚV er allt of valdamikill þegar kemur að gerð sjónvarpsefnis og þar með lífsafkomu allra þeirra sem starfa við þessa listgrein. Fátt vekur meiri gremju hjá mér en sjá nöfn Skarhéðins Guðmundssonar og Laufeyjar Guðjónsdóttur í kreditlista íslenskra bíómynda og sjónvarpsefnis.
![]() |
Leikarahjón verðlaunuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2017 | 19:33
Bjarni Ben í skjóli Umba
Öfugt við marga þá er ég þeirrar skoðunar að Bjarni Benediktsson sé ekki sá sterki foringi sem haldið er fram. Það er bara leiðtogakreppa í Sjálfstæðisflokknum sem stendur, og það skýrir þögn hins almenna félagsmanns. Ekki hjálpar að varaformaðurinn getur ekki beitt sér sem skyldi og því ekki um annan að ræða en Bjarna, þótt fallið hafi verulega á ættarsilfrið undir hans forystu.
Og þótt umboðsmaður Alþingis víkist undan að taka slaginn við klíkuna í Sjálfstæðisflokknum þá mega menn ekki túlka það sem "hvíttun" af hálfu umba. Miklu líklegra er að við hann hafi verið talað og honum hótað ef hann dirfðist að hefja aðra "lekarannsókn" þar sem formaður flokksins mætti ekki við meiri ávirðingum í starfi.
Ef umbi þorir ekki gegn ráðuneytisklíkunni þá þarf Alþingi að huga að öðrum úrræðum til að koma böndum á embættismannaskrílinn sem öllu ræður bæði beint og óbeint. Við erum ekki búin að gleyma viðbrögðum ráðuneytisstjórans í fjármálaráðuneytinu við Vigdísarskýrslunni alræmdu. Sem svo aftur vekur upp spurningar um raunverulega ástæðu þess að Vigdís dró sig í hlé frá pólitík.
Ætlar Þorsteinn Víglundsson að láta kyrrt liggja? Það er ljóst að það þarf að fara fram innanhúshreinsun í Engeyjarráðuneytunum og það gerist ekki nema kjósendur axli sína pólitísku ábyrgð og hafni afskiptum auðróna af stjórn landsins. Er þá sama hver auðróninn er, Bjarni, Benedikt eða Sigmundur Davíð.
![]() |
Vill að Bjarni geri grein fyrir verkum sínum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2017 | 16:15
Misskilningur hjá félaga Vilhjálmi
Vilhjálmur er einn skeleggasti málsvari launamanna á Íslandi í dag en því miður gætir ákveðins misskilnings hjá honum varðandi sjómannaafsláttinn svokallaða, sem er núna annað af tveimur atriðum sem ekki hefur náðst sátt um gagnvart útgerðarmönnum. Vilhjálmur ber saman dagpeningagreiðslur annars vegar og sjómannaafsláttinn hins vegar og vill sækja bætur til útgerðarinnar vegna afnáms skattaafsláttar í formi sjómannaafsláttar. Þetta er röng kröfugerð og auðvitað hafna útgerðarmenn svona kröfu. Sjómenn eru jú fjarri heimilum vegna vinnu en þeir bera engan kostnað af því fyrst samkomulag er um að útgerðin greiði fæðið. Og útgerðin skaffar jú húsnæðið ekki satt. Þess vegna eru rök Vilhjálms og félaga fyrir að halda þessari kröfu til streitu byggð á misskilningi því þeir vilja varla að löggjafarvaldið bindi enda á deiluna með inngripi sem fæli í sér endurupptöku sjámannaafsláttar.
Sjómannasamningar eiga að vera á milli sjómanna og útgerðarmanna og menn eiga að sjá sóma sinn í að klára þá samninga strax. Kostnaðarþátttöku sjómanna í útgerðarkostnaði verður að linna og tryggja þarf betur ráðningarsamninga sjómanna og tryggja að eftir samningum sé farið undantekningarlaust. Sjómenn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir glopra niður hlutaskiptakerfinu. En á því er raunveruleg hætta ef vælið um gengisstyrkingu krónunnar heldur áfram hjá forystumönnum sjómanna.
Sjómenn sitja ekki við sama borð og annað launafólk. Þeirra laun eru gengistryggð. Ólíkt öllum öðrum stéttum, sem hafa tapað á síendurteknum gengisfellingum hafa þessar sömu gengisfellingar fært sjómönnum margfaldar kjarabætur undanfarin 10 ár. Það er í lagi að skila einhverju af því til baka til hins almenna launaþræls í landi sem öfugt við sjómenn hagnast á styrkingu gjaldmiðilsins svo fremi að kaupmenn steli ekki ábatanum jafnóðum. En þar á verkalýðshreyfingin að standa vaktina.
![]() |
Sjómenn eiga að sitja við sama borð og annað launafólk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2017 | 10:23
Á íslensku má alltaf finna svar...
Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var,
og hún á orð sem geyma gleði´og sorg,
um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.
Á vörum okkar verður tungan þjál,
þar vex og grær og dafnar okkar mál.
Að gæta hennar gildir hér og nú,
það gerir enginn nema ég og þú.
---------------------------------------------------------
Alltaf þegar ég heyri fabúleringar spekimanna um hnignun íslenska talmálsins, þá dettur mér þetta ljóð Þórarins Eldjárns í hug. Því það er ekki á ábyrgð fræðimanna að viðhalda íslenzkunni. Það er á ábyrgð okkar allra, sem viljum viðhalda málinu, að vernda þjóðríkið. Því undirstaða þjóðríkisins er tungumálið og mikilvægi þess eykst í öfugu falli við fjölda þeirra þegna sem eru stoltir af að eiga sérstakt móðurmál og tala og hugsa á því máli.
En það eru ekki bara fjölmenningaráhrif sem vega að tungunni og þjóðríkinu. Það er ekki síst tæknin sem hefur haft þessi neikvæðu áhrif. Internetið með sínum alltumlykjandi áhrifum er að ganga af íslenskri hugsun dauðri. Íslenzka talmálið mun hverfa hér úr almennri notkun innan ekki svo langs tíma. Og ástæðan er einfaldlega sú, að unga kynslóðin er hætt að hugsa á íslenzku. Hún finnur ekki lengur íslenzk orð til að tjá hugsanir sínar. Og þegar það hefur gerst þá er stutt í að ritmálið hverfi alfarið enda eru snjalltækin, sem allir nota núna, ekki hönnuð fyrir séríslenzka stafi sem er mun seinlegra að slá inn heldur en það textamál, sem internetið hefur þróað af sjálfu sér.
Þetta held ég að, séu ástæður þess að íslenzkt mál er að hverfa. Ekki það hvernig kennarar sinna kennslu eða hvernig stjórnvöld haga menntastefnu hverju sinni. Internetið er ofan og utan áhrifasviðs staðbundinna stjórnmála. Ef við viljum hverfa til fyrri tíma þá verður að slökkva á internetinu. Og hver er tilbúinn að leggja það til?
Árnastofnun og það starf, sem þar er unnið hefur ekki stuðlað að þróun íslenzkunnar á tækniöld. Þvert á móti hefur fólkið þar grafið íslenzkunni þá holu sem ekkert hús mun ná að breyta. Ég man eftir þáttum í ríkisútvarpinu um íslenzkt mál. Þar var leitað til þjóðarinnar um dæmi um íslenzka málnotkun. Í dag er boðið upp á málfarsbanka á netinu án nokkurrar skírskotunar í talað mál. Þar er að finna ýmis skrítin orð eins og iðkendur netskrafls þekkja manna best. Hver kannast til dæmis við orð eins og: níðvænn, andillur,áminnast, áreitins, vorbóka, dífst,aðtaka,pjarist, óverð, ársali og afbær? Þessi orð má samt öll finna í gagnasöfnum Árnastofnunar. En Árnastofnun kannast ekki við orðið "norðanað"!! Samt er það að finna í texta Þórbergs Þórðarsonar. Hafa fræðimenn hjá Árnastofnun virkilega ekki orðtekið Þórberg enn? Erum það bara ég og Jón Steinar Ragnarsson skáld á Siglufirði sem er það orð enn þjált á tungu? Og ekki munum við lifa 100 ár í viðbót, hvað þá íslenzk tunga.
![]() |
Staða íslensku hratt versnandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.11.2016 | 13:14
Dagur sýnir tilþrif - Birgitta ekki
Í þetta sinn geta allir verið sammála Degi B Eggertssyni. Loksins glittir í leiðtogann sem Samfylkinguna hefur skort undanfarin ár. Svör Birgittu aftur á móti valda mér vonbrigðum. Hún þarf ekkert að hringja niður í skrifstofu Alþingis og spyrja hvort hún geti afþakkað hækkunina. Það getur hún augljóslega ekki. En hún á að krefjast þess að Alþingi komi saman og afturkalli þessa ákvörðun ókjararáðs. Þannig bregðast leiðtogar við!
![]() |
Segir hækkanirnar algjört rugl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.10.2016 | 21:03
Lágkúra Margrétar Gauju
Ekki furða þótt kjósendur hafni svona fólki sem sér ekkert athugavert við að notfæra sér persónulega harmleiki annarra í eigin athyglissýkiþörf.
Svei!
31.10.2016 | 20:48
Kjararáð taki upp fasta krónutöluhækkun
Það er ekkert í lögum sem segir að launakjör æðstu embættismanna, sem heyra undir kjararáð skuli hækka hlutfallslega til jafns við aðrar stéttir. Þess vegna held ég að það sé löngu tímabært að taka upp fasta krónutöluhækkun á laun umfram 800 hundruð þúsund á mánuði. 800 þúsund er sanngjarnt viðmið því það eru um það bil þreföld lágmarkslaun sem fólk á lægstu töxtum og bótaþegar verða að sætta sig við. Þessi fasta upphæð yrði svo reiknuð út frá samningslaunahækkunum sem fólk með 750-799 þúsund fær í gegnum sínar kjarabætur. Gerum ráð fyrir að þessi laun hafi hækkað um 20%, þá hækki nú laun forseta, dómara, ráðherra og alþingismanna um 150 þúsund í stað 500 þúsunda.
Ekki veit ég hvort kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru uppsegjanlegir við svona græðgilaunabætur en auðvitað ætti hér allt að fara upp í loft. Svona mismunun gengur ekki og alls ekki ef aðrir hópar fara af stað með sömu kröfur og þessum toppum hefur verið útdeilt af almannafé. Þjóðfélagið færi á hliðina og ríkissjóður gæti ekki staðið undir slíkum útgjöldum. Þetta hljóta allir að sjá og taka til endurskoðunar sem málið varðar.
Kjararáð hefur verið gert afturreka með úrskurði sína áður og nauðsynlegt að gæslumaður ríkissjóðs tjái sig um þennan skandal. Best væri að reka alla þá sem nú skipa þetta ráð og leggja það niður hið snarasta. Enda engin þörf fyrir dólgahátt ef reglum yrði breytt til samræmis við mínar tillögur.
![]() |
Laun forseta hækka um hálfa milljón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.10.2016 | 21:43
Samfylkingin er ónýtt vörumerki
Ef Oddný heldur að Samfylkingin eigi sér viðreisnar von í hugum kjósenda þá er það ein skýringin á þeirri útreið sem flokkurinn hennar fékk í þessum kosningum. Það virðist öllum ljóst nema forystufólki Samfylkingar og hinum föllnu þingmönnum, að skýringin á óförum þessa flokks liggur í aðkomu hans að ríkisstjórnum tengdum hruninu og sérstaklega frammistöðu þeirra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þótt þeim sjálfum finnist það ranglátt að vera refsað fyrir erfiðar ákvarðanir í eftirmálum hrunsins þá einfaldlega var pólitísk forysta Jóhönnu Sigurðardóttur veik og hvorki skeytt um hag lands né þjóðar. Margir fengu á tilfinninguna að Samfylkingunni væri hreinlega illa við landsmenn og vildi frekar þóknast fyrirfólki í Brussell en íslenskum brotaþolum bankaræningjanna. Slíkur var málflutningur Össurar Skarphéðinssonar og Árna Páls, sem hlutu loksins þau háðulegu örlög að vera fjarlægðir í krafti valds kjósenda. Því þetta fólk þekkti ekki sinn vitjunartíma. Ekki frekar en Davíð Oddson, sem ætíð hefur neitað að viðurkenna sína ábyrgð af hruninu í embætti seðlabankastjóra.
Allt tal um endurskoðun á stefnu Samfylkingar er ótímabært. Það var ekki stefnan sem brást heldur fólkið sem stýrði flokknum og sem sat á Alþingi í umboði flokksins! Þess vegna á Oddný að gera eins og Björgvin G, segja af sér embætti og leggja til að Samfylkingin verði tekin til pólitískra gjaldþrotaskipta. Í kjölfarið væri hægt að endurvekja Alþýðuflokkinn og fá til þess einlægt hugsjónafólk en ekki tungulipra loddara.
En svo væri líka hægt að lifa án þess að hafa hér sósialískan jafnaðarmannaflokk. ASÍ hefur löngu svikið stefnuna og þess vegna engin réttlæting lengur fyrir pólitísku baklandi vinstri sinnaðs stjórnmálaflokks. Nýja Ísland vill taka afstöðu til málefna sem byggir á upplýstri afstöðu hverju sinni en ekki beygja sig undir flokkaræði gamla Íslands. Það er sá lærdómur sem draga má af pólitískum umhleypingum síðustu ára. Hvort Oddný skynjar það eða ekki skiptir engu máli í stóra samhenginu. Endalok Samfylkingar eru staðreynd sem ekki verður breytt.
![]() |
Kallar á endurskoðun á stefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |