Keppni í gáfum

Útsvarið í sjónvarpinu var vel heppnuð fjölskylduskemmtun á meðan Ólafur B. Guðnason sá um að semja spurningarnar. En þetta nýja snið og nýji dómarinn hefur breytt þessum þætti í harðsvíraða keppni í gáfum þar sem dómarinn keppir við alla hina, bæði liðin og stjórnendur þáttarins, í gáfum og fer alltaf með sigur. Þetta er ömurleg  breyting og full ástæða fyrir RÚV að skipta þessu spurningaljóni út.  Útsvar á ekki að vera keppni í gáfum og þáttakendur eiga ekki að þurfa að standa á gati fyrir framan alþjóð vegna kvikindisskapar dómarans.  Stefán Pálsson er búinn að vera of lengi í þessu hlutverki.  Hann er farinn að keppa við sjálfan sig og keppendur útsvars hafa ekki séns.

Pólitík er ígildi holdsveiki

Menn (konur eru líka menn) sem hafa afskipti af pólitík á Íslandi eru ekki öfundsverðir.  Yfirleitt er þetta fólk útskúfað úr þjóðfélaginu og litið hornauga hvar sem það fer og þegar því er hafnað fær það oft ekki störf við sitt hæfi.  Þessu er hægt að breyta með því að breyta flokkunum.  Henda út flokkseigendaklíkunum og auka lýðræðið innan flokkanna.  Pólitík á að vera hugsjónastarf byggt á þjónustu en ekki eiginhagsmunapoti. Það þarf að auka gegnsæi og upplýsingaflæði og láta fólki finnast það skipta máli.  Þetta er svo einfalt en samt svo flókið vegna þess að eiginhagsmunaklíkurnar sem eru búnar að sölsa undir sig Ísland vilja ekki sleppa tökunum.  Það eru þær sem gera pólitíkina holdsveika.

Ólína Þorvarðardóttir fær ekki starf við sitt hæfi vegna þess að hún er pólitískt brennimerkt. Hún hafði tækifæri til að breyta pólitíkinni en í staðinn breytti pólitíkin henni. 

Er eðlilegt að eina leiðin útúr pólitíkinni sé í gegnum pólitískar stöðuveitingar?  Mér finnst það ekki.

Þessu þarf að breyta. Hreinsum hina holdsveiku!


Það sem Sjálfstæðismenn skilja ekki

Nú er mikil gerjun í borgarpólitíkinni og fimmflokkurinn hugsar sér gott til glóðarinnar að ná til sín óánægjufylginu sem Jón Gnarr lætur eftir sig.  En þetta fylgi mun ekki snúa til baka meðan engin endurnýjun á sér stað á listunum.  Fólkið sem nú sækist eftir öruggum sætum á lista Sjálfstæðisflokksins boðar ekkert nýtt.  Þessar ungu konur sem menn binda vonir við eru aldar upp innan flokksins og koma fullmótaðar með flokkslínuna innprentaða úr Valhöll.  Að hlusta á Hildi Sverrisdóttur og Áslaugu Friðriksdóttur er eins og að hlusta á Hönnu Birnu afturgengna.  Sömu klisjurnar sömu frasarnir um þetta samtal við borgarbúa.  Gallinn er bara að þær vilja ekki hlusta.  Borgarbúar tóku Besta flokknum eins vel og raunin varð vegna þess að þar stigu fram venjulegir borgarar tilbúnir að láta gott af sér leiða án þess að þurfa að standa einhverri flokksmaskínu skil gerða sinna.  Fleiri og fleiri hafna flokkspólitíkinni og gera kröfu um að kjörnir fulltrúar vinni allir sem einn að hagsmunum borgarbúa.  Það er galið að greiða 15 fulltrúum laun en svo eru það bara 8 sem vinna alla vinnuna og bera alla ábyrgðina! Tökum upp persónukjör í borginni og minnkum yfirbygginguna. Ef allir vinna saman má fækka borgarfulltrúum niður í 7 og færa sjálfsákvörðunarrétt íbúanna útí hverfin.  Hverfin ættu að ráða meiru um hvernig fjármagnið er nýtt innan hverfanna í réttu hlutfalli við íbúafjölda. Þetta skilja ekki Sjálfstæðismenn og þess vegna eru þeir dæmdir til að staðna í 25% fylgi.

Bloggfærslur 9. nóvember 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband