Jafnvægið í hafinu

Mér eru málefni sjávar hugleikin og því eru fregnir af fjarvist loðnunnar áhyggjuefni.  Ekki útfrá hagrænum mælikvarða eins og RÚV leggur á alla sína umfjöllun heldur útfrá vistfræðilegum breytingum sem ójafnvægi í lífríki hafsins hefur á alla aðra þætti. Þannig að ef engin loðna gengur til hrygningar þá hefur það áhrif á hrygningu þorsksins og væntanlegt klak þorskseiðanna í vor. Fuglar og fiskar eru mjög vanaföst dýr. Við sjómenn vitum að fiskur gengur á sömu veiðislóðir á sama tíma ár eftir ár, ekki til að láta veiða sig heldur í ætisleit fyrst og fremst. Eins er þetta með fuglana þeir velja sér varpstaði sem næst ætissvæðum.

En fiskifræðingar virðast ekki skilja þetta samspil náttúrunnar. Þeir sinna ekki vistfræðirannsóknum.  Þeirra fiskifræði snýst um að telja fiska og í þeirra fræðum skiptir æti fisksins engu máli varðandi vöxt og viðgang þeirra stofna sem þeir þykjast vera að fylgjast með. Þetta hef ég aldrei skilið. En nú er kannski tækifæri á nýrri nálgun hjá þessari steinrunnu stofnun sem Hafró er.

Ef það verður alger brestur á loðnugöngu þarf að gera ráðstafanir til að veiða meiri þorsk og það strax.  Við getum ekki beðið eftir að aðrir fiskstofnar skaðist vegna þess að loðnan sem er undirstöðufæða hverfur af matseðlinum.

Sjómenn hafa lýst áhyggjum vegna þess að það er minna um æti á hefðbundnum veiðisvæðum fyrir suðausturlandi. Það er bara ekki í boði að fiskifræðingar hlusti ekki á þær viðvaranir sem í því felst.  Verðmætisrýrnun vegna minnkandi loðnuafla skiptir engu máli.  Það er jafnægið í hafinu sem öllu skiptir og þekking á því er lykillinn að skynsamlegri auðlindanýtingu sjávar.


Þorsteinn Sæmundsson í hóp Klausturþingmanna

Samheitið Klausturþingmaður merkir einfaldlega ruddi, karlremba, fyllibytta og dóni. Klausturþingmaður getur verið eitt af þessu eða allt. Þingmaður sem lendir í hóp Klausturþingmanna hefur brotið siðareglur þingsins og á ekki skilið að vera þar inni. Sá einn á virðingu skilið sem aldrei þarf að biðjast afsökunar. Það er nefnilega enginn sérstakur manndómur fólginn í því að biðjast afsökunar eins og margir virðast halda.  Og síst af öllu opinberlega. Mannrækt felst í samtalinu sem þú átt við sjálfan þig í einrúmi. En menn þurfa þá að viðurkenna breyskleikann.

Höldum listanum yfir Klausturþingmenn til haga og höfum með okkur í kjörklefann næst. Ekkert annað en stórfelldar útstrikanir duga gegn siðferðishnignun stjórnmálanna.

Þingmenn þurfa ekki frí til að sinna kjördæmum sínum.  Og sýndarmennskan í sambandi við #me-too er yfirgengileg og minnir á söguna um tollheimtumennina og Faríseana. Þingmenn þurfa að fara á námskeið í háttvísi svo við almenningur fáum frið fyrir þessu slítandi áreiti, við að fylgjast með hneykslismálum stjórnmálamanna.


Mala domestica

Ég hef hingað til valið að tjá mig ekki um málefni Jóns Baldvins, þótt þau hafi dúkkað upp margendurtekið á síðasta áratug. Ástæðan er einfaldlega sú, að þar er um fjölskylduharmleik að ræða í grunninn, sem almenning varðar í sjálfu sér ekkert um að öðru leyti en því, að Jón og Bryndís eru opinberar persónur og eiga sem slíkar ekkert einkalíf. En það gefur veiku fólki engan rétt til að ráðast að persónum Jóns og Bryndísar í skjóli #me-too byltingarinnar.

Kynferðisafbrot á að kæra, það hefur ekki verið gert og því dæma þessar sögur sig sjálfar. Á rógberum, slúðurberum og öfundarfólki hef ég megna andstyggð og megi það lið hvergi þrífast.

Ef vönd að kyssa velur sá
sem veiku skemmtir geði
Sögumaður setur þá
sjálfan sig að veði

Við þekkjum Árna Þórarins
í Þórberg tókst að ljúga
Var sökin Árna eða hins
sem öllu vildi trúa

Eins og stærstu eikurnar
undan stormi svigna
er forhúð utan umskurnar
einkenni hins lygna

 


mbl.is Jón Baldvin kærir „slúðurbera“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín þarf að skrifa ræðuna sína sjálf

Í Kastljósi kvöldsins fór Katrín Jakobsdóttir með sömu gömlu möntruna um  hvað ríkisstjórnin væri búin að vera rausnarleg gagnvart þeim sem minna mega sín og endurtók líka lygina um það að ríkisstjórnin hafi hækkað fjármagnstekjuskatt og brugðist við óánægju vegna úrskurða Kjararáðs á síðustu árum.  Nú skil ég ég alveg þann vanda sem spyrillinn var settur í.  Þegar stjórnmálamaður svarar ekki beinum spurningum þá er erfitt að fá fram skýr svör.  Mér fannst Sigríður Hagalín hafa sýnt ótrúlega stillingu og jafnaðargeð við endurteknum og villandi málflutningi forsætisráðherra.  Og hafi Katrín ætlað að lægja öldur þá var hún að hella olíu á eld.

Það eina sem ríkisstjórnin getur lagt til málanna í sambandi við kjaraviðræðurnar eru breytingar á skattkerfinu samkvæmt tillögum Eflingar. Hækkun barnabóta og aðgerðir gegn vinnumansali koma kjaraviðræðum ekkert við og er ósvífið af ríkisstjórninni að nota slíkt sem skiptimynt.  Og aðgerðir í húsnæðismálum eru verkefni stjórnvalda. Stjórnvöld bera ábyrgð á að þjóðfélagið virki fyrir alla. Í því felst að fólk hafi vinnu húsnæði og frítíma.

Ef Katrín skilur þetta ekki eða ef hún telur sig hafa gert nóg þá á hún að segja það og biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.  Það er enginn hörgull á fólki sem getur gert betur en þessi ríkisstjórn. 


mbl.is Fjórmenningar með umboð til að slíta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband