26.1.2011 | 17:02
Þvergirðingur
Verkalýðsrekendur hafa unnið skjólstæðingum sínum mikið ógagn undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar. Þeir hafa ítrekað reynt að hafa áhrif á ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og núna er þetta að springa framan í þá þegar andstæðingarnir beita sömu pólitík. Auðvitað eiga verkalýðshreyfingin og vinnuveitendur að útkljá sín deilumál án aðkomu ríkisstjórnarinnar. Og kjaraviðræður eiga að snúast um kaup og kjör en ekki félagsmálapakka frá ríkisstjórninni. Fyrsta skref til breytinga er afsögn Vilhjálms Egilssonar og Gylfa Arnbjörnssonar. Þessir félagar standa í vegi fyrir eðlilegum samskiptum launþega og vinnuveitenda. Í gær birti ég færslu um gengistryggingu launa sem drukknaði vegna úrskurðar hæstaréttar um ógildingu stjórnlagaþings kosninganna. Þess vegna endurbirti ég hana hér
Sjómenn hafa til áratuga samið við útgerðamenn á grundvelli hlutaskipta. Þannig hefur afkoma sjómannsins tengst afkomu útgerðar í réttu hlutfalli við verðmætið sem þeir skapa. Og þar sem aflaverðmætið miðast í langflestum tilfellum við fob útflutningsverðmæti, má segja að um gengistryggingu launa hafi verið að ræða í raun. Núna eru allir kjarasamningar lausir og launamenn krefjast mikillar hækkunar á töxtum. Fyrirtæki í útflutningi geta borgað miklu hærri laun á grundvelli lágs gengis. Fyrirtæki í ferðaþjónustu eiga líka að vera vel aflögufær. Laun allra þessara starfsmanna er auðvelt að gengistryggja. Þá yrði tekið mið af gengisþróun frá því samningar urðu lausir og laun hækkuð sem nemur lægsta gengispunkti og síðan yrðu allir launataxtar endurreiknaðir miðað við gengisvísitölu eins og hún er í dag. Ef svona kerfi hefði verið í gildi við hrunið þá hefðu öll laun hækkað sjálfkrafa um 35% því vísitalan stóð lægst í 185 og fór við hrunið í 240 stig. Síðan hefðu laun lækkað jafnt og þétt allt fram á mitt sumar 2010 því þá var gengið sterkast um 205 stig en hefur gefið eftir síðan og stendur í dag í 213 stigum. Við erum samt að tala um 16% hækkun allra taxta í dag. Að tengja laun í opinbera geiranum við gengisvísitölu hefur líka ótvíræða kosti því hún virkar sem aðhald fyrir stjórnvöld að fella ekki gengið í óskynsamlegum aðgerðum því það setti strax þrýsting á allt hagkerfið með sjálfvirkum launahækkunum. Þjóð sem lifir á útflutningi og býr við veikan gjaldeyri þarf að hafa svona launakerfi. Víxlhækkanir verðlags og launa skópu þá eyðileggjandi verðbólgu sem enginn vill að endurtaki sig. Með því að tengja öll laun við gengisvísitölu þá er ekki um víxlverkanir að ræða. heldur sveiflast allt hagkerfið í takti. Og þessi lausn tryggir líka frið á milli mismunandi hópa. Landið okkar er svo lítið að ekki gengur að etja mönnum saman með launamisrétti.
Hætta öllum þreifingum við SA | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.