Gagnrýni úr hörðustu átt

kjartanmagnus.jpgKjartan Magnússon ætti að hafa vit á að skammast sín og ræða ekki málefni Orkuveitunnar. Heldur hann að við íbúar Reykjavíkur séum búin að gleyma því hvernig borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins unnu að því fyrir opnum tjöldum að einkavæða OR í hendur Jóns Ásgeirs og Hannesar Smárasonar? Eða hvernig þau með baktjaldamakki sprengdu meirihluta Samfylkingar með því að kaupa fulltrúa 5% flokks til fylgis við 1 manns meirihluta og afhentu 5% flokknum 50% völd í borginni og þar með stjórnarformennsku í Orkuveitunni. Þessum  framsóknarmanni hafði svo næstum tekist að keyra Orkuveituna í þrot með ófaglegum ákvörðunum og bruðli. Kjartani Magnússyni fer betur að læðast með veggjum og vera ekki með svona upphlaup, hans ábyrgð er mikil og hann hefur ekki beðist afsökunar. Hann er bara sauður sem hefur ekkert vit á flóknum rekstri eins og Orkuveitan stendur í. Til allrar hamingju þá tók Besti flokkurinn réttar ákvarðanir í sambandi við endurreisn þessa langmikilvægasta fyrirtækis borgarinnar og kom því í hendur fagmanna sem mun takast að bjarga því sem bjargað verður. Það eitt réttlætir kosningu Besta flokksins til valda í Reykjavík. Og vonandi verður svo búið um hnútana að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar geti aldrei aftur rústað þessu fyrirtæki með pólitískum afskiptum

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Komdu sæll Jóhannes. Nokkrar athugasemdir í vinsemd í von um að þú viljir hafa það sem sannara reynist.

  • REI-málið snerist aldrei um einkavæðingu Orkuveitu Reykjavíkur. Í öllu því máli talaði aldrei nokkur flokkur fyrir því að það ætti að einkavæða Orkuveituna. Núverandi stjórnarformaður Orkuveitunnar talar hins vegar um fyrir opnum tjöldum í umboði Besta flokksins og Samfylkingar að breyta eigi rekstrarformi þess og jafnvel einkavæða það.
  • Sú söguskýring stenst ekki að með meirihlutasamstarfi sjö borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og eins borgarfulltrúa Framsóknarflokks, hafi síðarnefnda flokknum verið afhent 50% völd í borginni. Fulltrúar Framsóknarflokksins fóru með formennsku í borgarráði, framkvæmdaráði og stjórn Orkuveitunnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fóru með formennsku í öllum öðrum fagráðum og fyrirtækjum borgarinnar sem og forsæti borgarstjórnar að ógleymdu borgarstjórastarfinu. Í heilsteyptu samstarfi sem þessu verða völdin þó aldrei mæld með slíkum hætti, þar eru málin rædd uns komist er að niðurstöðu og ekki er spurt um hvaðan hugmyndin að lausninni hverju sinni, kemur.
  • Skuldavanda Orkuveitu Reykjavíkur má að mestu leyti rekja til skuldbindinga, sem gerðar voru á árunum 2003-2006. Frá fyrri hluta árs 2008 var leitast við að rifa seglin í fjárfestingum og ráðist í aðhalds- og sparnaðaraðgerðir. Hætt var við fyrirætlanir 100 daga meirihlutans um að setja rúman tugmilljarð króna í áhættusöm útrásarverkefni erlendis, dregið var úr pöntunum á gufuhverflum fyrir milljarða króna og virkjanaframkvæmdum seinkað eins og kostur var. Sá framsóknarmaður, sem var stjórnarformaður Orkuveitunnar 2008-2010, skilaði góðu verki við erfiðar aðstæður.
  • Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar í stjórn Orkuveitunnar hafa að mörgu leyti heilbrigt sjónarhorn á rekstur og eru vafalaust allir af vilja gerðir til að láta gott af sér leiða. Við sjálfstæðismenn erum t.d. sammála þeim um að hækka þurfi gjaldskrá og halda áfram af fullum krafti þeim hagræðingaraðgerðum, sem hófust í fyrirtækinu árið 2008. (Við vildum hins vegar fara þá leið að dreifa gjaldskrárhækkunum yfir lengri tíma og fækka starfsmönnum einnig á lengri tíma án þess að grípa til fjöldauppsagna.) Hins vegar verður ekki hjá því komist að gagnrýna núverandi meirihluta fyrir að gefa ítrekað gáleysislegar yfirlýsingar á opinberum vettvangi um stöðu fyrirtækisins og að í aðsigi séu róttækar breytingar á því. Óttast ég að þessar yfirlýsingar hafi nú þegar dregið úr trúverðugleika fyrirtækisins í viðræðum um endurfjármögnun gagnvart viðsemjendum, innlendum sem erlendum. Óskiljanlegt er að á síðustu fimm mánuðum hefur nýi meirihlutinn kosið að losa sig við þá tvo stjórnendur, sem voru í bestum tengslum við erlenda lánveitendur fyrirtækisins. Þá hefur afar illa og ófaglega verið staðið að ráðningarferli nýs forstjóra en í þeim efnum hefur nýr meirihluti þó enn tækifæri til að bæta ráð sitt.

                 Með góðri kveðju, Kjartan Magnússon.

Kjartan Magnússon (IP-tala skráð) 29.1.2011 kl. 02:10

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þakka þér Kjartan fyrir þetta innlegg. Hins vegar skaltu vita að allir borgarfulltrúar eru undir smásjá og pistillinn minn byggist á viðhorfum hins almenna borgara. Allir borgarfulltrúar fjórflokksins liggja undir ámæli vegna stjórnunar á OR. Þar er enginn undanskilinn. Og hvernig ég túlka framferði sjálfstæðismanna við myndun meirihlutans sem kláraði síðasta kjörtímabil er skoðun meirihluta borgarbúa. Því verður ekki á móti mælt. Enda fengu sjálfstæðismenn lítið fylgi og framsókn þurrkaðist út. Guðlaugur XVI stóð sig ekki vel, Óskar Bergsson var útsendari verktakamafíunnar. Núna er lítið talað um spillingu í ákvörðunum borgarstjórnar enda enginn framsóknarmaður til að tala máli spillingarinnar.  Sjálfstæðisflokkurinn er ekki trúverðugur í gagnrýni sinni vegna þess að þið gerðuð ekkert á kosningaárinu.  Stjórnmálamenn sem þora ekki að taka óvinsælar ákvarðanir eru ekki trúverðugir

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.1.2011 kl. 07:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband