Hér vantar meiri valddreifingu

Sveitarstjórnarpólitík síðustu tveggja áratuga hefur gengið út á það að fækka sveitarfélögum og stækka. Sýslumönnum hefur einnig fækkað og nú er talað um að gera landið að einu lögregluumdæmi. Allt er þetta samkvæmt forskrift að sunnan. Miðstýrð ákvarðanataka hefur sogað fólk og fé frá landsbyggðinni og til Reykjavíkur. Afleiðingin er lífskjararýrnun og tilheyrandi fólksflótti frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Þessari byggðaröskun er vel hægt að snúa við. Lausnin felst í meiri sjálfstjórn landshlutanna.  Í staðinn fyrir að útflutningstekjur frá landsbyggðinni fari fyrst suður otg sé síðan deilt út til hinna ýmsu verkefna á landsbyggðinni af stjórnlyndum pólitíkusum þá þarf að gjörbylta stjórnskipun. Hér þarf að taka upp forsetaræði og efla heimastjórn héraðanna. Það er hægt að gera með því að taka upp hin fornu Goðorð. Með slíku fyrirkomulagi væru allar ákvarðanir innan héraða teknar af Héraðsþingum en síðan væru haldin Allsherjarþing í Reykjavík fyrir sameiginlegar ákvarðanir. Alveg eins og tíðkaðist hér áður fyrr og er ennþá við lýði í Noregi þar sem fylkin hafa mun meiri sjálfstjórn en landsbyggðin hér.

Þetta skipulag sem hér hefur myndast er slæmt. Ríkisfjármálin eru  í molum vegna þess hvernig Alþingismenn stunda grímulaust kjördæmapot og Ríkissjóður er gjarnan notaður sem skiptimynt í pólitísku baktjaldamakki. Afleiðingin hefur svo verið óðaverðbólga, gengisfellingar og efnahagsstjórn í molum. Þessi séríslenska óráðsía er algjörlega á ábyrgð spilltra pólitíkusa. Þessu breytum við aðeins með því að færa ákvörðunartökuna aftur út til fólksins.  Fólkið sem skapar gjaldeyrinn á ekki að þurfa að betla fyrir nauðþurftum þegar Alþingismenn hafa hirt allt af þeim í skjóli ónýtrar stjórnskipunar.

Við svona stjórnskipunarbreytingar sem ég er að boða, myndi til dæmis sjálfstjórn í auðlindanýtingu færast aftur í hendur heimamanna. Héruðin fengju full og óskoruð yfirráð yfir sjávarauðlindinni hver á sínu svæði sem og vatni og hita í jörðu. Hér þarf að snúa af glötunarveginum þar sem þeir sem geta, mega ekki og þeir sem mega, geta ekki.  Á þensluskeiðinu var fjármagnið miskunnarlaust sogað út úr sjávarútvegsfyrirtækjum á landsbyggðinni og flutt suður og notað þar til að kynda undir hlutabréfabóluna og eignabóluna sem aðeins myndaðist á höfuðborgarsvæðinu nota bene. Þetta hefði aldrei getað gerst ef héruðin hefðu stjórnað fiskveiðum hver á sínu svæði. Þá væri engin þörf á kvótastýringu, hvorki í landbúnaði eða í sjávarútvegi. Þá myndi líka sjálfsvirðing landsbyggðarmanna aukast og lífsgæðin batna. Og þessi fyrirhugaða skipting kvótaskattsins er bara móðgun við landsbyggðina. Ekkert annað. Pólitíkusar eiga ekki að taka sér þetta alræðisvald yfir örlögum almúgans. Og fólkið á ekki að leyfa þessu að gerast!

Þessi stjórnsýsla sem búin hefur verið til utan um spillta stjórnmálamenn þjónar ekki venjulegu fólki. Stjórnsýslan er skjaldborg stjórnmálamanna og vildarvina þeirra. Notum tækifærið og breytum stjórnarskránni fyrir fólkið í landinu. Ekki fyrir elítuna eins og nú er verið að gera. Þessi ofuráhersla á mannréttindakaflann er ekki það sem við þurfum í nýrri stjórnarskrá.  Mannréttindi eru best tryggð með alþjóðlegum og yfirþjóðlegum samningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband