Óvæntir liðsmenn

Tvennt er það sem ég hef lagt áherslu á í þessu bloggi undanfarin 2 ár og það er:

Í fyrsta lagi hef ég haldið því fram að engir geti slegið eign sinni á villt dýr. Hvorki á láði né legi og því sé það blekking að tala um nytjastofna í íslenskri lögsögu sem auðlind í eigu þjóðarinnar.  Þetta er samt gert til að réttlæta glæpsamlega kvótastýringu á veiðum.  Ég sendi meira að segja inn erindi til stjórnlagaráðs sem fékk litla athygli kannski vegna þess að hagfræðingurinn Þorvaldur Gylfason stýrði þeim hluta ráðsins sem fjallaði um auðlindir.  En hagfræðingar eru sú stétt fræðinga sem halda þeirri kenningu helst á loft að kvótastýring sé nauðsynleg til að hámarka arðinn af veiðunum en gleyma því að þá er ekki verið að tala um arð þjóarinnar heldur kvótagreifanna, sem eru í því kerfi hinir eiginlegu eigendur. Þetta er blekking sem þarfnast endurútreiknings.  Því sóunin hefur aldrei verið reiknuð út og og aldrei tekið með allur sá óbeini kostnaður sem þjóðfélagið þarf að standa straum af vegna óþarfrar kvótastýringar.  Sá óbeini kostnaður felst til að mynda í þungaflutningum með fisk landshornanna á milli. En slit á vegum og slys sem af þessum flutningum verða kosta þjóðfélagið verulegar fjárhæðir sem ekki hefur verið tekið tillit til. Mitt mat er að þjóðfélagið verði af ca einni landframleiðslu á ári vegna kvótakerfisins, beint og óbeint.

Í öðru lagi þá hefur mér orðið tíðrætt um það sem ég kalla fullum fetum fasíska stjórnarhætti Samfylkingar og Vinstri Grænna.  Margir virðast ekki átta sig á því hvað felst í hugtakinu fasismi eins og ein góð framsóknarkona varð uppvís að á dögunum og reyndar margir fleiri hafa gjaldfellt með rangri notkun.  En auðvitað er sú stefna stjórnvalda að færa sífellt meiri völd frá fólkinu til ríkisins púra fasismi og ekkert annað.  Sjáið Ögmund Jónasson til dæmis, mann sem þykist vera vinstri sinnaður sósialisti en er ekkert nema harðsvíraður kerfiskall af verstu tegund. Eins er það með forræðishyggjuna sem grasserar á þingi og meðal vinstri elítunnar og nærbuxnafemínistanna.  Þetta fólk vill að ríkið ráði hér öllu því ef hægt er að gera ríkið ábyrgt þá losna stjórnmálamenn við að standa ábyrgir gerða sinna eins og gerðist hjá Ögmundi þegar hann þurfti að taka afstöðu til spillingar hjá lögreglunni. Hans afstaða fólst í því að lögreglan er í þjónustu valdastéttarinnar og það má ekki á neinn hátt höggva að þeim rótum samfélagsins. Dæmigerð fasísk afstaða.  

þetta hefur verið kjarninn í minni gagnrýni og oft hefur mér fundist ég tala fyrir daufum eyrum og boðskapurinn ekki náð í gegn en nú bregður svo við að 2 þungavigtarmenn, hvor á sínu sviði, stíga fram og taka undir mínar skoðanir.  Annars vegar er það Sigurður Líndal, lagaprófessor sem dregur í efa lagalega túlkun stjórnlagaráðs á hugtakinu þjóðareign í sambandi við fiskinn í sjónum og fleira.  Hinn aðilinn er bandaríski hagfræðingurinn Michael Hudson sem kallar Samfylkinguna fasískan stjórnmálaflokk eins og fram kemur á Svipunni nú í kvöld.

Íslenskt samfélag er viðkvæmt í kjölfar efnahagshrunsins og því er það brýnt að menn séu á varðbergi gegn óafturkræfum breytingum á þjóðfélaginu.  Til dæmis eins og inngöngu í ESB eða upptöku evru. Og við eigum ekki að leyfa Steingrími J Sigfússyni að komast upp með að stýra efnahagslegu uppbyggingunni samkvæmt uppskrift eins manns, Indriða H. þorlákssonar.  Mannsins sem öðrum fremur bar ábyrgð á fyrstu Icesave samningunum eins og alkunna er.  Það eiga miklu fleiri aðilar að koma að því borði heldur en bara þröng klíka innan VG. Mistökin sem gerð hafa verið munu kosta þjóðarbúið tugi milljarða og það gengur ekki í lýðræðisþjóðfélagi.  Þess vegna vill Samfylking og VG að við göngum í ESB svo völdin færist enn fjær almenningi og til fámenns hóps stjórnmálamanna.  Einskonar fulltrúa Brussel valdsins. Ef af því verður þá er valdaránið fullkomið og almenningur má éta það sem úti frýs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Flottur!

Almenningur þarf frelsi til handfæraveiða, Íslenska þjóðin er eins og þorskur á þurru landi, getur ekki bjargað sér.

Mörghundruðþúsund tonn vantar upp á, að fiskimiðin skili þjóðinni þeim fiskafla sem eðlilegt er.

Aðalsteinn Agnarsson, 26.10.2011 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband