Hin nýja stefna Samfylkingar

Samfylkingin hefur stefnuskrá sem hún fer ekki eftir. Samfylkingin var aðili að hrunstjórninni og bar á því hruni mikla ábyrgð.  Hvernig núverandi forystumönnum Samfylkingarinnar tókst að sverja af sér alla vitneskju um það sem fram fór í aðdraganda hrunsins á sér aðeins eina skýringu og hún er sú að Ingibjörgu Sólrúnu var kennt um og hún sögð hafa ein borið alla ábyrgð ásamt Geir Haarde. Þetta dugði til að afla flokknum nægilegs fylgis til að ráða myndun stjórnar eftir kosningarnar vorið 2009.

Síðan eru liðin tvö og hálft ár og ýmislegt skýrst sem halda átti leyndu fyrir almenningi. Meðal annars um ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar sem plottuðu um það hvernig Geir Haarde skyldi einn bera alla ábyrgð á mistökum ríkisstjórnarinnar.  Hvernig Alþingi afgreiddi þá tillögu er þessum alþingismönnum til ævarandi minnkunar og sérstaklega þeim Samfylkingarþingmönnum sem enn sitja á þingi , illu heilli og voru aðilar að hrunstjórninni.

Þetta var prologus en nú kemur meginefni þessa pistils, sem snýr að málflutningi talsmanna Samfylkingarinnar, þingmönnum, spunaköllum og óbreyttum bloggurum.  Þessi háværi hópur hefur svarið af sér öll tengsl við gamla Alþýðuflokkinn og heldur nú uppi kröftugum áróðri í þágu auðs og alþjóðahyggju um leið og þeir gera lítið úr þjóðernishyggju og sjálftstæðiskennd.  Þetta er hin nýja stefna Samfylkingarinnar.  Uppgjafar- og aumingjastefna sem einkennist af undirgefni við allt sem útlenskt er. Og við þekkjum þessa sauði frá hinum höfrunum á því að þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa barist fyrir því að ríkissjóður ábyrgðist Icesave skuldir Landsbankans, þeir eru allir einlægir hatursmenn forsetans og Jóns Bjarnasonar og nú síðast geta þeir ekki leynt vonbrigðum sínum yfir ákvörðun Ögmundar Jónassonar um að leyfa ekki sölu á landi til kínversks "fjárfestis"!  Ákvörðun sem tekin var samkvæmt íslenskum lögum.  Þetta er brjóstumkennanleg afstaða til pólitískra álitamála. Nýja Samfylkingarliðið heldur að hægt sé að sækja lífsgæði til erlendra ríkja í formi lágra vaxta og stöðugs gengis.  Þetta fólk hefur gefist upp!

Auðvitað hef ég skilning á því að erfitt sé að moka eigin flór,  eins og fjórflokkurinn þarf svo sannarlega að gera.  En menn mega ekki fórna hverju sem er. Ríkisstjórninni hafa verið mislagðar hendur í alltof mörgum málum.  Henni hefur ekki tekist að fá þjóðina með sér í stærstu málunum.  Og  þeir flokkar sem að henni standa eru að berjast fyrir eigin framtíð.  Til þess verða menn að sína árangur. Og lausnarorðið virðist vera hagvöxtur og erlend fjárfesting.  Við heyrum þessi lausnarorð margtuggin og endurtekin af spuna- og áróðursliðinu í hvert skipti sem það skrifar greinar eða kemur fram í fréttum.  En samt læðist að mér grunur um, að fæstir skilji hvað þeir eru að tala um og meira að segja hagfræðingar og aðrir spámenn virðast ofmeta þátt erlends fjármagns í hagvaxtarlíkaninu. Á meðan allir bankar eru fullir af íslenzkum peningum þá er minni þörf á erlendu fjármagni. Það hljóta allir að sjá.  Og hvers vegna ættu útlendingar að vilja fjárfesta hér á meðan íslenskir krónueigendur bíða bara eftir að komast erlendis með sínar krónur og fjárfesta í alvöru mynt!  Eina skýringin er sú að ábatinn sé meiri af því að koma en sem nemur tapinu af rangt skráðu gengi.  Álrisarnir og stóriðjufyrirtækin hafa nýtt sér þetta og Ross Beatty græddi vel á fávísum sveitastjórnarmönnum í Reykjanesbæ.  Á sama hátt ætlaði Nupo auðvitað að græða á sinni fjárfestingu.  Halda menn að einhver gæska eða velvilji ráði hjá fjárfestum?  Ríkisstjórnin og sérstaklega Samfylkingin verður að ná árangri,  en ekki með því að hengja þá sem benda á mistökin sem þau eru að gera. Og ekki með því að ráðast á forsetann fyrir það eitt að hafa tekið til varna fyrir íslenzkan almúga þegar allir aðrir brugðust! Íslendingar eru ekki alþjóðasinnar og Norðlendingar þurfa ekki kínverska fjárfesta til að bæta lífskjörin.  

Ferðaþjónustan er sjálfbær og hún þarfnast ekki 20 milljarða fjáfestingar.  Ferðamenn munu ekki koma til Íslands til að sjá kínverskt Tíbet með kínversku starfsfólki.  Ferðafólk kemur til að sjá íslenska frumbyggja í sínu náttúrulega umhverfi.  Þess vegna þarf að styrkja íslenskan landbúnað og sjávarútveg í Norðurþingi. Leyfa frjálsar veiðar og stuðla að miklu meiri vinnslu á sjávaraflanum hér heima. Hver hefur gaman að koma til deyjandi staða eins og Raufarhafnar í dag?  Ég var svo heppinn að upplifa síðustu daga síldarstemingarinnar á Raufarhöfn og það er sú stemning sem Siglfirðingar hafa endurvakið til að auka ferðamanna streymið til bæjarins.  Kristján Möller og aðrir stóriðjubófar og alþjóðasinnar innan Samfylkingarinnar þurfa að draga sig í hlé.  Þeirra lausnir henta ekki því þjóðfélagi og þjóðfélagsmynstri sem reynst hefur okkur bezt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband